null
Fréttir

Kynningarfundir námsbrauta 5. maí

Kynningarfundir námsbrauta 5. maí

Umsóknir í námsbrautir haustsins eru nú í fullum gangi og augljóst er að mikill áhugi er fyrir framboði næsta misseris. Á fimmtudaginn næstkomandi, 5. maí, ætlum við að bjóða öllum sem eru að íhuga að skella sér í nám að koma til okkar á kynningarfundi en þeir verða haldnir fyrir hverja og eina námsbraut. Þar gefst tækifæri til að hitta verkefnastjóra, kennara og fyrrum nemendur námsbrautanna og fræðast ítarlega um fyrirkomulag námsins. Dagskráin stendur frá 16:00 – 18:00 en kynningarnar raðast í mismunandi stofur. Skráningarsíðu kynningarfundanna má finna hér.

Námsbrautir haustmisserisins eru eftirfarandi:

Fjármál og rekstur (Krefst ekki fyrri menntunar)

Námið er ætlað þeim sem vilja öðlast hagnýta þekkingu á sviði fjármála og stýringar verkefna og þurfa að halda utan um kostnað og nýtingu fjármagns. Námið hentar þeim sem hafa fengið aukna ábyrgð á sviði fjármála í störfum sínum eða stefna á slík störf.

Jákvæð sálfræði - diplómanám á meistarastigi (Samsvarar 60 ECTS einingum)

Námið er ætlað þeim sem hafa áhuga á jákvæðri sálfræði, velsældarvísindum og faglegri nálgun á því að vinna með styrkleika bæði fyrir eigin persónulegan þroska og annarra. Námið getur því nýst fagfólki sem starfar við eða hefur áhuga á að efla sig á sviði stjórnunar, þar með talið mannauðsstjórnunar og verkefnastjórnunar, kennslu, náms- og starfsráðgjafar, sálfræðiþjónustu, ráðgjöf, heilsueflingu, sem og við aðra heilbrigðis- og félagsþjónustu og hvar sem unnið er að því að skapa aðstæður fyrir einstaklinga og/eða stofnanir til að blómstra.

Leiðsögunám - áfangastaðurinn Ísland (Krefst ekki fyrri menntunar)

Námið hentar öllum þeim sem vilja búa sig undir starf leiðsögumanns á Íslandi. Einnig getur námið verið kjörið fyrir þá sem vilja kynnast betur landi og þjóð og er því í boði að sækja stök námskeið eða námið að hluta án námsmats.

Nám til löggildingar fasteigna- og skipasala (Samsvarar 90 ECTS einingum)

Námið er fyrir þá sem ætla sér að verða löggiltir fasteigna- og skipasalar og aðra þá sem vilja öðlast meiri þekkingu á þessu sviði. Inntökuskilyrði í nám til löggildingar fasteigna- og skipasala er stúdentspróf eða sambærileg menntun – a.m.k. af þrepi 3 í hæfniramma um íslenska menntun. Til þess að öðlast löggildingu að námi loknu, þurfa nemendur að hafa lokið 6 mánaða starfsreynslu hjá löggiltum fasteignasala.

Ritlist - í samstarfi við Svikaskáld (Krefst ekki fyrri menntunar)

Ritlistarnám Svikaskálda hentar þeim sem vilja öðlast meira sjálfstraust í eigin skrifum og kynnast ólíkum gerðum texta. Námslínan hentar þeim sem vilja sökkva sér í eigin ritstörf og skerpa rödd sína sem rithöfundar.

Sálgæsla - diplómanám á meistarastigi (Samsvarar 40 ECTS einingum)

Námið er ætlað þeim sem hafa þriggja ára grunnmenntun á háskólastigi, til dæmis á sviðum kirkjustarfs, heilsugæslu, kennslu, stjórnunar, félagsþjónustu og löggæslu.

Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun (Krefst ekki fyrri menntunar)

Námið er ætlað áhugasömu og dugmiklu fólk sem hefur vilja til að efla færni sína í starfi og leik. Námið gagnast ekki síst millistjórnendum og stjórnendum innan félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Í náminu kynnast þátttakendur nýjum hugmyndum og áhugaverðu fólki.

 

Verð