Valmynd
Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir og Hildur Halldórsdóttir kenna nokkur vinsæl námskeið hjá Endurmenntun HÍ og hafa gert það árum saman. Þær eru sérfræðingar í mannauðsmálum og eigendur AUKI - mannauður og stjórnendaráðgjöf, en fá einnig til liðs við sig gestakennara sem eru sérfræðingar, hver á sínu sviði. Við tókum þær stöllur tali.
Guðrún og Hildur kynntust í Háskóla Íslands þar sem þær störfuðu saman á starfsmannasviði skólans. „Þar unnum við saman í átta ár og fundum fljótt að það átti afskaplega vel við okkur að vinna saman og ræddum oft um það hvort það gæti ekki verið skemmtilegt að stofna okkar eigið fyrirtæki þar sem við gætum nýtt reynslu okkar í mannauðsstjórnun.“ Báðar áttu þær síðan eftir að hætta störfum hjá HÍ og ná í frekari reynslu í mannauðsmálum á öðrum vettvangi, en ræddu reglulega þennan sameiginlega draum að starfa sjálfstætt. „Vorið 2022 létum við svo verða af því og stofnuðum AUKI – mannauður og stjórnendaráðgjöf.“
Guðrún hefur kennt námskeiðið „Erfið starfsmannamál“ hjá Endurmenntun HÍ í 10 ár. Hildur kom inn í kennsluna á því námskeiði fyrir nokkrum árum og síðan hafa þær bætt jafnt og þétt við námskeið sem fjalla um mannauðsmál. Í dag eru þetta alls fimm námskeið sem þær kenna, bæði á haustönn og vorönn:
Mannauðsmál frá A til Ö
Fagleg hegðun og samskipti á vinnustað
Jákvæð vinnustaðamenning skiptir máli!
Mannauðsstjórnun fyrir nýja stjórnendur
Erfið starfsmannamál
Aðspurðar segja þær frábært að vinna með starfsfólki Endurmenntunar. „Við höfum alltaf fengið mjög góðar undirtektir þegar við höfum lagt fram hugmyndir um ný námskeið og þróað ný námskeið með því góða starfsfólki sem þar starfar. Okkur þykir líka skemmtilegt að halda tengingu við okkar fyrri vinnustað, Háskóla Íslands. Svo höfum líka kynnst frábæru fólki sem hefur komið á námskeiðin okkar í Endurmenntun sem við höfum svo fengið tækifæri til að vinna áfram með í verkefnum innan þeirra fyrirtækja eða stofnana.
Hugtakið vinnustaðamenning er víða mikið til umræðu á vinnustöðum. Guðrún og Hildur segja það af hinu góða því vinnustaðamenning skiptir sannarlega máli. „Það er mikilvægt að hafa í huga að við berum öll ábyrgð á vinnustaðamenningu á okkar vinnustað en stjórnendur bera þó meiri ábyrgð en starfsfólk almennt.“ Í því samhengi skipti endurgjöf miklu máli, að stjórnendur taki á erfiðum málum þegar þau komi upp og séu duglegir að veita starfsfólki endurgjöf – bæði að hrósa og grípa inn í aðstæður þegar eitthvað má betur fara.
„Einnig er mjög mikilvægt að allt starfsfólk setji mörk og láti vita þegar samstarfsfólk fer yfir þessi mörk og geti bæði stoppað af og einnig gefið fólki tækifæri á að biðjast afsökunar. Mörg fyrirtæki og stofnanir hér á landi eru mikið að velta fyrir sér hvernig hægt sé að byggja upp jákvæða vinnustaðamenningu. Það þarf oft svo lítið til að hlutirnir fari að hafa neikvæð áhrif á vinnustaðamenningu og þess vegna þarf að bregðast strax við svo að t.d. neikvæð samskipti nái ekki að festa sig í sessi.“
Mjög fjölbreyttur hópur þátttakenda sækir námskeiðin sem Guðrún og Hildur kenna, frá bæði smáum og stórum fyrirtæki til stofnana. Þær hafa þó tekið eftir að stjórnendur úr skólakerfinu af öllum skólastigum hafi verið sérstaklega duglegir að sækja námskeiðin ásamt stjórnendum í umönnunargeiranum. „Við erum þó farnar að sjá að fjölbreyttari hópur er farinn að mæta sem líklega endurspeglar auknar áherslur í mannauðsmálum á íslenskum vinnumarkaði. Við höfum alltaf verið aðeins á eftir nágrannalöndum okkar að innleiða nýjungar í mannauðsmálum en við erum að sjá aukna þróun og áhuga í þessum málaflokki hér á landi.“
Spurðar um hvaða hópa þær væru til í að sjá meira af á námskeiðunum segja þær að þótt sennilega komi fólk úr flestum geirum vinnumarkaðarins verði þó að segjast eins og er að konur eru yfirleitt í meirihluta á námskeiðum þeirra. „Það hefur bara einu sinni gerst að karlmenn voru fjölmennari á námskeiði hjá okkur. Fjölbreytnin er skemmtilegust en líklega endurspeglar þetta þann hóp sem sinnir störfum í mannauðsmálum sem eru í dag aðallega konur.“
Guðrún og Hildur segja að margt sé spennandi að gerast á þessum vettvangi og þær leggi ávallt áherslu á að fylgjast vel með fræðunum og þróuninni í þessum efnum í nágrannalöndunum. „Öll umræða um heilsu starfsfólks hefur aukist mikið á undanförnum árum og nú erum við að sjá fókusinn á andlega heilsu sem er nú víða í brennidepli. Velsæld á vinnustöðum er mikið í umræðunni, enda sjáum við að vanlíðan í starfi hefur svo gríðarlega mikil áhrif á heilsufar fólks.“
Einnig sé mismunandi sé hvað fólk taki inn í hugtakið velsæld. Liggy Webb tali til dæmis um þessa sjö þætti: andlega-, tilfinningalega-, líkamlega-, félagslega-, fjárhagslega-, stafræna- og umhverfislega velsæld. „Þróunin í Bretlandi er t.a.m. sú að þar eru vinnustaðir að ganga mjög langt í að huga að velsæld starfsfólks, enda er brottfall af vinnumarkaði að aukast og til mikils að vinna fyrir samfélagið allt að halda fólki virku og ánægðu á vinnumarkaði.“
Að endingu nefna Guðrún og Hildur að mjög skemmtilegar rannsóknir séu að koma fram um ólíkar kynslóðir á vinnumarkaði. Sumir leggi áherslu á muninn á milli kynslóða á meðan aðrir vilji meina að það sé fleira sem sameini og að fókusinn eigi frekar að vera þar en að ýkja þennan mun. „Í þessu sambandi má einnig nefna fjölbreytileika almennt og inngildingu sem mikið er fjallað um í tengslum við mannauðsmál. Allt hefur þetta áhrif á starfsánægju og jafnframt á vinnustaðamenningu, enda eru jákvæð og uppbyggileg samskipti stærsti þátturinn í að skapa gott vinnuumhverfi.“