Valmynd
Einar Sv. Tryggvason, kvikmyndatónskáld og kennari, hefur alltaf verið hrifinn af tónlist og kvikmyndum. Hann fór þó ekki að hugsa almennilega um samspil þessara tveggja forma fyrr en í kringum aldamótin þegar hann fór í bíó á Cast Away með foreldrum sínum. Einar kennir á námskeiðinu Kvikmyndatónlist: tónar og tilfinningar sem hefst 6. mars.
„Það sem sló mig mest við Cast Away var að það er engin kvikmyndatónlist í henni á meðan Tom Hanks er á eyðieyjunni – og fyrir vikið er hann alveg rosalega einn. Þá fattaði ég hvað tónlistin – eða skortur á henni – getur haft mikil áhrif á söguna og upplifun áhorfandans. Þá byrjaði ég svolítið að sökkva mér ofan í þetta allt saman. Þ.a. það má alveg segja að Tom Hanks í lendarskýlu hafi gjörbreytt lífi mínu,“ segir Einar kíminn.
Eins og sést fékk Einar mjög ungur áhuga á tónlist. Mynd aðsend.
Hann segist alls ekki hafa stefnt snemma á þessa braut í tónlistarbransanum. „Ég hafði alltaf gaman af tónlist og æfði sjálfur á píanó og svona sem krakki, en ég hafði ekkert velt þessu fyrir mér sem einhverjum raunhæfum möguleika. Það var ekki fyrr en ég var í MR, að mygla í einhverjum stærðfræðitímanum á eðlisfræðibraut, sem ég áttaði mig á að mig langaði ekkert að velkjast um í raunvísindum. Á svipuðum tíma byrjaði ég að semja tónlist af einhverri alvöru og smám saman sannfærðist ég um það að sækja um tónsmíðanám í Listaháskólanum eftir útskrift – sem ég og gerði.“
Spurður um hvað sé það besta við tónlist og þá einnig kvikmyndatónlist segir Einar vera hvernig hún geti látið manni líða. „Það er alveg sama í hvernig skapi maður er, maður getur alltaf fundið einhverja tónlist sem endurspeglar þær tilfinningar og annað hvort gerir manni kleift að velta sér um í henni, eða rífa sig upp á hnakkadrambinu – og allt þar á milli.“ Hann segir kvikmyndatónlistina gera í raun nákvæmlega það sama, nema kannski að þar sé meira hægt að leika sér með væntingar og blekkingar í samvinnu við myndefnið – sem geti verið ferlega skemmtilegt.
Einar er með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og Mmus gráðu í kvikmyndatónsmíðum frá Conservatorium van Amsterdam. Á síðustu árum hefur hann samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda, sjónvarpsþátta, stuttmynda og auglýsinga og t.a.m. hlotið tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Því lá beinast við að spyrja af hverju hann sé stoltastur.
„Það er afskaplega erfitt að gera upp á milli „barnanna“ sinna, sérstaklega þegar börnin eru orðin ansi mörg, þ.a. ég get eiginlega ekki valið eitthvað eitt ákveðið. En ef ég lít yfir síðustu ár, þá hef ég fengið tækifæri til að vinna með arabískum leikstjóra við þrjár stuttmyndir, en það var ákaflega lærdómsríkt og áhugavert ferli. Eins hef ég notið samstarfs míns með leikstjóranum Erlingi Óttari Thoroddsen alveg gríðarlega vel, og þá sérstaklega við hryllingsmyndirnar Rökkur og Kulda.“
Hann bætir við að í raun og veru séu hryllingsmyndir alveg í sérstöku uppáhaldi hjá sér, bæði sem áhorfandi og tónskáld. „Það er eitthvað við stemninguna og efniviðinn í hryllingi sem leyfir manni að prófa alls konar skrýtna hluti sem maður fær ekki að gera í mörgum öðrum verkefnum. En að því sögðu, þá finnst mér líka ákaflega gefandi og skemmtilegt að fá að semja fallegar strengjalínur og mjúka píanóhljóma.“
Einar, ásamt föður sínum Tryggva M. Baldvinssyni tónskáldi. Hann á sem sagt ekki langt að sækja hæfileikana og áhugann. Mynd aðsend.
Hvernig verður kvikmyndatónlist til?
„Það er í raun og veru ekki til neitt eitt ákveðið ferli, en vissulega er sumt algengara en annað. Ég myndi segja að í flestum tilfellum kemur tónskáldið inn í verkefnið þegar búið er að taka upp myndina, en stundum jafnvel ekki fyrr en búið er að klippa hana líka. Þá þarf tónskáldið gjarnan að hafa hraðar hendur, því tónlist og hljóð er gjarnan með því síðasta sem er gert. En til eru ótal undantekningar á þessu formi. Stundum er búið að semja og taka upp alla tónlist áður en handritið hefur verið klárað. Stundum er allt gert á sama tíma. Það er ýmislegt í boði – og það verður farið mun nánar í allt þetta á námskeiðinu.“
Námskeiðið sem Einar kennir á inniheldur orðið tilfinningar og því spurðum við hann hvers vegna tilfinningar eru tengdar við kvikmyndatónlist.
„Mér finnst í raun og veru öll list og listsköpun snúast um tilfinningar og kvikmyndatónlist er þar engin undantekning. Það sem mér finnst svo áhugavert við kvikmyndatónlistina er að hún er í raun og veru bara einn lítill hluti af miklu stærra sköpunarverki, en er samt mögulega einn mesti áhrifavaldurinn á tilfinningar áhorfenda. Þannig getur tónlistin undirstrikað og lagt áherslu á sömu tilfinningar og myndefnið á að vekja, t.d. með fallegri og rómantískri tónlist við endurfundi aðalpersónanna. En hún getur líka farið allt aðra leið og vakið upp einhverjar allt aðrar og áhugaverðar tilfinningar, t.d. ef tónlistin undir sama atriði er drungaleg og ógnvekjandi. Þá fer áhorfandinn eflaust að efast um heilindi persóna og þar fram eftir götunum. Það verður mikið fjallað um þetta samspil tilfinninga á námskeiðinu – enda eitt mikilvægasta hlutverk tónskáldsins.“
Við spurðum hann að lokum hver uppáhalds bíómynd og/eða sjónvarpsþættir hans eru út frá tónlistinni.
„Teiknimyndin „How to Train Your Dragon“ hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér alveg síðan ég sá myndina fyrst. Það er eitthvað við ævintýrablæinn og hetjustefin í tónlist Johns Powell í þeirri mynd sem hittu alveg beint í mark í hjartanu á mér. Á algjörlega hinum enda huggulegheitanna, þá held ég líka rosalega mikið upp á hryllingsmyndirnar Insidious 1 og 2, en þar finnst mér tónlist Joseph Bishara fanga óþægindin og óhugnaðinn í sögunni alveg einstaklega vel. Ekki síst með notkun þagnar á áhrifaríkum og áhugaverðum stöðum.“
Allar nánari upplýsingar og skráning á námskeiðið.