null
Fréttir

Jákvæð sálfræði vinsæl í tíu ár

Nemendahópar sem völdu námsbraut á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands eru hver af öðrum að hefja nám um þessar mundir. Meðal þeirra eru 33 nemendur í jákvæðri sálfræði, þar af fjórir karlar. Þetta er í tíunda sinn sem jákvæð sálfræði er kennd hjá Endurmenntun.

Eins og heiti námsins gefur til kynna eru þátttakendur gjarnan mjög jákvæðir að upplagi og lífsgleðin skín af þeim. Í samtali við nokkur þeirra kom meðal annars fram að þau eru á ýmsum aldri, koma víða að á vinnumarkaði og grunnur menntunar er fjölbreyttur. Það þykir styrkleiki þegar um svona hóp er að ræða því í námi sem þessu lærir fólk einnig margt hvert af öðru, Einnig segjast þau eiga auðvelt með samkennd, eru með galopinn huga og eru staðráðin í að sanka að sér verkfærum til að hafa bætandi áhrif á eigið líf og samfélagið að námi loknu.

Sérfræðingar sem aðhyllast jákvæða sálfræði leitast við að greina hugsun, hegðun og lífsstíl þeirra sem eru hamingjusöm og gengur vel í lífinu almennt og á einstökum sviðum þess. Námið getur nýst fagfólki sem starfar við eða hefur áhuga á að efla sig á sviði stjórnunar, kennslu, náms- og starfsráðgjafar, sálfræðiþjónustu, lýðheilsu sem og við aðra heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Kennslustjóri námsins er Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðstjóri hjá Embætti landlæknis.

Allar nánari upplýsingar um námsleiðina jákvæða sálfræði má finna með því að smella hér.
Verð