null
Fréttir

„Við getum öll vaxið og dafnað og lyft hvert öðru upp“

Ingveldur Þóra Eyjalín er skrifstofustjóri hjá Högum hf., þar sem hún segist stundum þurfa að setja upp marga mismunandi hatta. Hún hefur alltaf haft áhuga á mannlegu atferli og brennur einna mest fyrir vellíðan á vinnustað. Því fannst henni tilvalið að skella sér í nám í Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ.

Ingveldur er fædd og uppalin í Reykjavík og hóf skólagöngu sína í Skóla Ísaks Jónssonar, þar sem hún segir að falleg og góð mannleg gildi hafi verið höfð að leiðarljósi. „Síðan varði ég öllum sumrum og fríum hjá ömmu og afa í sveit á Suðurlandi. Þar vann ég hin ýmsu sveitastörf og lærði um leið nýtni og útsjónarsemi sem getur komið sér vel. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessari gömlu kynslóð og hef alltaf dáðst að því hvernig þeim tókst að gera mikið úr litlu, því vistir og aðföng voru ekki eins aðgengileg þá og nú. Fyrir vikið hef ég líklega tamið mér að vera útsjónarsöm og nýtin eins og kostur er.“

Starf Ingveldar hjá Högum ehf. felst einna helst í umsjón skrifstofunnar sem þá felur í sér verkefni af ýmsum toga og aðstoð við framkvæmdastjórn svo eitthvað sé nefnt. Ingveldur segist alltaf hafa haft áhuga á mannlegu atferli og brennur einna mest fyrir vellíðan á vinnustað. „Það er margt sem við getum lagt af mörkum hvert og eitt okkar til að skapa góðan anda og vellíðan. Við getum öll vaxið og dafnað og lyft hvert öðru upp. Því öll erum við með lífsreynslu okkar, gildi og viðhorf í farteskinu sem endurspeglast í hegðun okkar og orðum hvert sem við förum.“ Hún bætir við að þetta eigi auðvitað líka við um einkalífið; að finna leiðir til að auðga lífið og njóta líðandi stundar. „Þar fyrir utan hef ég áhuga á ýmsu; ferðalögum, jóga, ljósmyndun og skógrækt sem dæmi, því sveitin og náttúran eiga alltaf sterk ítök í mér. Svo finnst mér gaman að setja upp svuntu og baka eitthvað skemmtilegt og gera tilraunir með hrein og góð innihaldsefni.“

Hvers vegna sóttir þú um að fara í þetta nám?
„Þar sem störf mín ganga út á það að leysa alls kyns verkefni þá langaði mig að öðlast meiri færni og ég var búin að vera að gjóa augunum í þetta nám um tíma. Að endingu ákvað ég að slá til. Það var góð ákvörðun því mér líður eins og námið sé púslið sem mig vantaði. Ég vildi bæta við mig meiri þekkingu sem yrði til gagns og gamans og myndi nýtast mér sem verkfæri í seinni hálfleiknum.“

Ævilangt verkefni að þekkja sjálfan sig og lesa salinn

Ingveldur segir að væntingarnar sem hún fór með í námið hafi meðal annars verið þær að læra meira um það sem liggur að baki verkefnastjórnun og leiðtogafærni, fá meiri dýpt og skilning á efninu, sem hún segir að hafi svo sannarlega gengið eftir. „Námið fór fram úr mínum væntingum, ég er mjög glöð með að hafa slegið til og finnst ég hafa hækkað um tvo sentimetra!“

Þá segir hún það hafa í raun komið henni á óvart hversu mikil fræði eru að baki samskiptafærni og þróun teyma. „Það var farið á dýptina í samskiptafærni og við lærðum aðferðir til að efla samskipti með virkri hlustun og hluttekningu svo dæmi séu nefnd. Um leið varð þetta þroskandi sjálfsvinna sem er auðvitað ævilangt verkefni, að þekkja sjálfan sig og einnig að “lesa salinn”. Þegar upp er staðið snýst svo margt um skipulag og samskipti og að upplýsingagjöf sé öllum stundum skýr.“


Hvað hefur heillað þig mest við námið?
„Það var farið í stefnumótunarfærni, leiðtogafærni, skipulagsfærni og samskiptafærni. Það sem heillaði mig einna mest í náminu var að sjá og heyra hvað kennararnir komu öllu þessu mikla námsefni til skila á svo skýran og skilvirkan hátt á aðeins einu ári. Það gerðu þeir Haukur Ingi og Helgi Þór svo sannarlega með skemmtilegri framsetningu af innlifun og ástríðu. Svo var ákaflega dýrmætt að kynnast þessum góða hópi fólks sem var í náminu, að vinna saman sem hópur og stefna að sama marki. Um leið er ég svo þess fullviss að námið í Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun muni nýtast mér í leik og starfi um alla tíð og opna dyr tækifæra,“ segir Ingveldur að endingu.

Allar nánari upplýsingar um nám í Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun eru hér. Umsóknarfrestur er til og með 15. maí.

Verð