null
Fréttir

Jákvæð sálfræði mikilvæg fyrir samfélagið í heild

Kolbrún Björnsdóttir (Kolla), fjallagarpur, leiðsögukona og fyrrum fjölmiðlakona með meiru, hefur í vetur stundað nám í jákvæðri sálfræði hjá Endurmenntun HÍ. Við ræddum við hana um námið, væntingar til þess og framtíðina.

Kolla fæddist á Siglufirði en hefur búið í Reykjavík frá fjögurra ára aldri. „Ég eyddi þó ófáum sumrum á Sigló hjá ömmu Kollu og kalla mig Siglfirðing.“

Spurð um eitthvað atvik eða tímabil í lífinu sem mótaði hana mest hingað til segir Kolla að hún hafi gengið í gegnum ýmislegt eins og við öll. „Ég held að áföllin, stór sem smá, hafi mótað mig mikið og þá ekki síst lærdómurinn sem fólst í þeim og þroskinn við að takast á við þau. Ætli það eigi ekki við um alla lífsreynslu? Ég finn líka að sú sjálfsvinna sem ég hef stundað undanfarin ár hefur síðan komið mér á betri stað en ég hef áður verið á og leyft mér að sitja betur í sjálfri mér sem er afskaplega góð tilfinning.“

Fékk tækifæri hjá Virk til að líta enn meira inn á við

Við báðum Kollu um að lýsa sér í nokkrum orðum og hún sagðist vera jákvæð og ævintýragjörn tilfinningavera með sterka réttlætiskennd. Aðspurð um leiðir til sjálfseflingar og aukinnar hamingju segist hún fyrst og fremst hafa verið óhrædd við að breyta til og fara þangað sem áhuginn dregur hana. „Það er ótrúlega dýrmætt og hefur gefið mér mikið, bæði gleði og aukna trú á sjálfa mig. Auk þess varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi, eftir að hafa lent í bakslagi í lífinu, að komast að hjá Virk og þá gafst mér tækifæri til að líta enn meira inn á við. Það var ómetanlegt á þeim tíma að fá aðgang að námskeiðum sem öll áttu það sammerkt að styrkja mig og kenna mér að hlusta eftir því hvað ég þarf, vil og get.“

Hvað vakti áhuga þinn á námi í jákvæðri sálfræði og hvað varð til þess að þú sóttir um?
„Ég heyrði af náminu frá vinkonum sem hafa farið í gegnum það og skynjaði strax að þetta væri eitthvað fyrir mig, bæði persónulega en líka til að styrkja mig í mínum störfum. Og verandi óhrædd að prófa nýja hluti þá ákvað ég bara einn daginn að skrá mig og sendi inn umsókn. Enda mottóið mitt að spyrja ekki af hverju ég ætti að gera eitthvað, heldur af hverju ekki!“

Öll ættu að fá smjörþefinn af því sem kennt er í náminu

Spurð um væntingar til námsins segist Kolla hafi átt von á góðu og að hún fengi staðfest það sem hún hafi sjálf upplifað. „Það sem hefur komið mér mest á óvart var hversu stærra og meira námið er en ég átti von á, á alla heimsins kanta. Í alvöru, mér finnst að öll ættu að fá að minnsta kosti smjörþefinn af því sem kennt er í náminu því þetta er svo mikilvægt, bæði fyrir einstaklinga en ekki síður samfélagið í heild.“ 

Kolla segir svo margt hafa heillað hana við námið. „Það má kannski segja að það veki hjá mér sterka von um batnandi samfélag þar sem áhersla er lögð á farsæld allra og að það þarf alls ekki að vera svo flókið, það þarf bara viljann til að stilla aðeins hausinn þegar teknar eru ákvarðanir.“

Lokaverkefnið fyrir skjólstæðinga Virk

Lokaverkefni Kollu tengdist að sjálfsögðu náttúrunni og útiveru því það er henni hjartans mál að fá fólk út í náttúruna. „Fyrst þegar ég fann náttúruna þá leitaði ég þangað til að komast í betra líkamlegt form en komst svo fljótt að því að það gerði enn meira fyrir andlega formið. Ég er því að setja saman prógramm sem tvinnar saman náttúrustundir og kynningu á inngripum sem eiga það sammerkt að auka hamingju okkar. Markmiðið er svo að þau sem njóta þjónustu Virk fái að njóta prógrammsins því ég veit hvað það er að vera í þeim sporum að vera úrvinda á líkama og sál og veit líka hversu heilandi náttúran er, sérstaklega fyrir þau sem eru í því ástandi.“

 Hvernig langar þig að nýta þér námið í framtíðinni?
„Ég held að námið nýtist mér alla daga hér eftir, hvort sem það er í einkalífinu eða annars staðar. Það litar einhvern veginn allt og það á mjög jákvæðan hátt, svona eins og engill á öxlinni sem hvíslar í eyrað eða litað gler í gleraugun sem breytir aðeins sýninni á hvernig hlutirnir eru og hvernig hægt væri að gera þá öðruvísi, betri.“

Kolla er staðráðin í að láta verkin tala og nýta námið strax eftir útskrift. „Við erum tvær í náminu sem langar mjög að hrinda einu verkefni í framkvæmd en meira um það seinna, það er enn allt á hugmyndastiginu. Svo á ég eftir að vefa námið við aðra hluti sem ég er þegar að gera og þannig stækka þá, sem er líka mjög gaman. Það má eiginlega líkja þessari vegferð þannig að ég hafi verið á ákveðnum vegi sem breikkaði með því að fara í námið og bætti hann þar sem voru holur.“

„Gott samfélag er þar sem fólk lætur sig annað fólk varða“

Hvernig samfélag er gott samfélag og hvað finnst þér að þurfi að gerast til að auka velsæld hins almenna borgara?

„Gott samfélag er samfélag þar sem fólk lætur sig annað fólk varða. Þar sem mennskan ríkir og öll fá tækifæri til að blómstra. Lífsleikni á öllum skólastigum er mikilvæg og að stjórnvöld og fyrirtæki hafi farsældina að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir. Þá er mikilvægt að fólk fái tækifæri til að hlúa að sér og sínum og hafi tíma til að sinna áhugamálum sínum, sem sagt að það sé líf fyrir utan vinnu. Það væri líka afar hollt fyrir okkur öll ef við gætum skrúfað aðeins niður í háværu hljóði samfélagsmiðla sem of oft láta fólki líða verr með sjálft sig.“

Áttu þér einhverja fyrirmynd (og þá hvers vegna)?

„Ég á mér alls kyns fyrirmyndir, allt eftir sviðum. En ætli ég dáist ekki mest að konum sem hafa rutt og eru að ryðja brautina fyrir aðrar konur, öllu samfélaginu til heilla. Við eigum þeim ótrúlega mikið að þakka.“

Allar nánari upplýsingar um nám í jákvæðri sálfræði má finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 15. maí.

Verð