

Valmynd
Oddur Gunnar Jónsson sviðsstjóri fjármála- og rekstrarsvið hjá VR, sem er stærsta stéttarfélag landsins. Þar eru reknar ríflega 100 fasteignir á hverju ári þar sem reynir á öll helstu eignar- og rekstrarform fasteigna. Oddi fannst tilvalið að fara í löggildingarnám fasteigna- og skipasölu til að öðlast enn meiri færni og innsýn í starfi.
Oddur er fæddur og uppalinn í sveit rétt hjá Hofsósi í Skagafirði og hann segist líta á Skagafjörðinn sem besta stað á Íslandi. Við spurðum hann hvort eitthvað atvik eða tímabil í lífinu hafi haft áhrif á áhuga hans tengdan þessu námi.
„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á fasteignum og ekki síst endurnýjun þeirra. Eftir að vera alinn upp í sveitinni þá er maður vanur að „bjarga“ sér sjálfur og sennilega telst ég einn af þessum handlögnu einstaklingum sem eru færir í að gera flesta hluti. Ég hef einnig unnið alla ævi við fjármál og uppgjör, þar með talið tengt ýmsum fasteignarekstri, svo að þetta tvennt sá ég fyrir mér að geta sameinað í þessu námi og væri góður grunnur undir það.“
Hvað varð til þess að þú sóttir um?
„Ég hef oft hugsað með mér að það gæti verið gaman að fara í þetta nám og jafnvel gerast fasteignasali, en aldrei stefnt beint á það. Sonur minn vakti síðan áhuga minn á ný þegar hann var að spá í að fara í þetta nám en hætti við. Þá ákvað ég bara að láta draum minn rætast á „gamals aldri“ (54 ára) og láta verða af þessum áhuga mínum, vegna þess að þegar ég sá hvað þetta er praktískt nám tengt öllum fasteignarekstri. Þá myndi það að minnsta kosti nýtast mér vel í minni vinnu við rekstur fasteigna VR.“
Með hvaða væntingar fórstu í námið og hvað hefur komið þér mest á óvart?
„Ég vildi fá meiri innsýn í alla uppbyggingu fasteigna og viðskipta tengdum þeim. Það hefur komið mér mest á óvart hversu vel þetta nám hentar í allan fasteignarekstur og hversu víðtækt það er. Einnig hvað hlutverk fasteignasala er stórt og þarfnast víðtækrar þekkingar, ekki bara í sölumennsku heldur einnig í fjármálum, skipulagsmálum, rekstri, viðhaldi fasteigna og hönnun - já og skipa líka svo eitthvað sé nefnt.“
Hvað hefur heillað þig mest í námsefninu og hvers vegna?
„Ég fékk mesta ánægju út úr því að fræðast um ástandsmat og skoðun eigna. Það er búið að vera ánægjulegt að kynnast nánar lögum og reglum um uppbyggingu eigna, sjálfbærni þeirra og fleira því tengt.“
Hvernig langar þig að nýta þér námið í framtíðinni?
„Upphaflega fór ég í bara í námið til að fræðast frekar um fasteignir og hef sannanlega gert það og veit að það nýtist mér vel í núverandi starfi en enginn veit svo hvað framtíðin ber í skauti sér.“