null
Fréttir

Húsið - frá lokaverkefni til útgáfu

null

Endurmenntun hefur lengi verið miðstöð fræðslu og menntunar þar sem fólk með ástríðu fyrir sínu fagi kemur saman og stundum gerast í kjölfarið magnaðir hlutir. Á dögunum gáfu tveir nýútskrifaðir nemendur Endurmenntunar, Berglind Helga Sigþórsdóttir og Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir (jafnan kölluð Gunna Stella), út spurningaspilið Húsið sem þær unnu saman að í diplómanámi Endurmenntunar í fjölskyldumeðferð. Húsið miðar að því að fá fjölskyldur til að tala saman á opinskáan hátt um ýmis atriði sem oft gefst ekki tími til að spjalla um í amstri hversdagsleikans.

Berglind og Gunna Stella hafa báðar bakgrunn í kennslu þar sem samskipti við foreldra og börn spilar stórt hlutverk og höfðu þær viljað bæta við sig færni í að takast á við krefjandi samtöl um líðan foreldra gagnvart erfiðum aðstæðum. Þær fundu því rétta námið í fjölskyldumeðferðinni en báðar segja þær svo að ákveðin örlög hafi leitt þær saman í hópavinnu í náminu þar sem þær náðu strax góðri tengingu. Gunna Stella segir: „Þetta hljómar kannski skringilega en fyrsta daginn í náminu horfði ég yfir salinn með opinn hug og von í hjarta að ég myndi tengjast einhverjum í hópnum. Ég man sérstaklega eftir því þegar Berglind kynnti sig og ég hugsaði. Þessi! Ég vona að ég lendi með þessari konu í handleiðsluhóp og viti menn svo varð.“ Það er því ekki að undra að samvinnan hafi verið farsæl í gegnum námið og gefið af sér þetta skemmtilega verkefni sem Húsið er.

Spilið var unnið sem lokaverkefni Berglindar og Gunnu Stellu í fjölskyldumeðferðinni en báðar höfðu þær upplifað hindranir í að ná góðum samtölum við sín eigin börn þrátt fyrir að vera meðvitaðar um að vilja hafa opin og góð samskipti innan fjölskyldnanna. „Ég held að það sé ekki vilji foreldra að eiga lítil tengsl við börnin sín eða tala lítið við þau. Oft á tíðum gleymir fólk sér í amstri hversdagsleikans og fyrr en varir eru allir farnir að sofa. Samfélagið okkar hefur breyst. Fólk er í fullri vinnu og stundum borða fjölskyldur ekki kvöldmat saman. Því tel ég það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að fólk taki frá tíma fyrir fjölskyldu sína og æfi sig í að tala saman. Sífellt fleiri börn og unglingar tala ekki um daginn og veginn við foreldra sína. Því upplifðum við okkur knúnar til að  færa fólki verkfæri til að nota inn á heimilum.“ Segir Gunna Stella og Berglind bætir við: „Ég tel ekki endilega að um sé að ræða aukinn vanda í samskiptum foreldra og barna heldur snúi samskiptaleysi miklu heldur að því að við teljum að við séum að hlífa okkar nánustu frá sársaukanum sem oft fylgir því að sitja með annarri manneskju í erfiðu samtali. Sjálf stóð ég mig að því þegar tólf ára sonur minn missti einn af sínum nánustu vinum úr voðaskoti að hafa aldrei rætt um dauðann við börnin mín eða við matarborðið heimafyrir. Mitt í sorginni, í samtali við son minn, komst ég að því að þeir vinirnir höfðu oft velt fyrir sér dauðanum löngu áður en atburðurinn átti sér stað og ekki kom sú umræða frá skólanum. „Hva’, er það eitthvað óeðlilegt, mamma, að við vinirnir höfum verið að ræða dauðann?“ spurði sá stutti. „Nei,“ svaraði ég, „en það sem mér þykir óeðlilegt er að mér, sem vinn með börnum og er vön því að tala við nemendur um allt milli himins og jarðar, hafi aldrei dottið í hug að ræða um dauðann við mín eigin börn.“ Okkur hættir nefnilega til að vilja hlífa okkar nánustu við öllu sem er óþægilegt.“

Þannig varð til spurningaspil sem gefur foreldrum tækifæri á að nálgast samræður á nýstárlegan hátt þar sem bæði fullorðnir og börn geta tekið jafnan þátt í leiknum og aðstæður verða þannig öruggar fyrir alla að tjá sig. „Drifkrafturinn í þessu verkefni er að færa samræður inn á heimilin. Að Húsið hjálpi foreldrum að tengjast börnunum sínum. Að inni á heimilum ríki traust, vinátta og dýpri tengsl. Það skiptir svo miklu máli fyrir börnin okkar að geta talað um allt milli himins og jarðar við fólkið sitt.“ Segir Berglind. „Ein af fáum leikreglum Hússins er að það sé hlustað á viðmælanda með báðum eyrum og svo auðvitað óskráða reglan um traustið; að það sem gerist í Húsinu verði eftir í Húsinu.“

En hvaðan komu spurningarnar? „Margar spurninganna koma úr fjölskyldufræðunum og aðrar eru svona uppáhalds spurningar sem við höfum viðað að okkur og notast við í gegnum árin í kennslu, ráðgjöf, í fjölskylduboðum, saumaklúbbum og á meðal vina.“ Segir Berglind og Gunna Stella tekur undir: „Í raun og veru er þetta samansafn af spurningum sem við höfum spurt í vinnu og einkalífi ásamt spurningum sem við höfum sankað að okkur í náminu. Viskukornin sem eru í spilinu eru samansafn viskukorna sem við höfum þekkt til eða eru í uppáhaldi ásamt því að vera úr bókum sem við höfum lesið á meðan á náminu stóð. Það er mér sérstaklega minnisstætt eftir að við höfðum setið kennslu hjá Helga Garðari geðlækni, sem vísaði mikið í Carl Jung í sinni kennslu, að við fundum fullt af skemmtilegum tilvitnunum eftir Jung og þýddum. Hann á því nokkur viskukorn í spilinu.“

Spurning: Hvað fær þig til að upplifa tengingu við fjölskyldu þína? 

Viskukorn: „Tengsl eru ástæða tilveru okkar. Þau gefa lífinu tilgang og merkingu.“ -Dr. Brené Brown

Húsið hefur þegar fengið frábærar viðtökur og mörg hundruð spilastokkar eru komnir í umferð um land allt. Berglind og Gunna Stella vinna nú að því að dreifa íslenska upplagi spilsins sem víðast ásamt því að þýða spilið yfir á ensku og pólsku. En efst í huga þeirra þessa dagana er þakklæti eftir þetta merkilega ferðalag: „Þakklæti til allra þeirra sem hvöttu okkur áfram á þessu lærdómsríka ferli. Við eigum líka mikið að þakka Helgu Þórðardóttur, kennslustjóra námsins í fjölskyldumeðferð. Hún hefur verið með einstakt lag á því að velja alveg frábæra kennara, handleiðara og fræðimenn fyrir námsbrautina. Hönnuður Hússins, Högni Sigurþórsson á líka ofboðslega stóran þátt í því að gera Húsið og umgjörð þess að því sem það stendur fyrir; forvitnilegt, sérstakt og áhugavert. Einnig viljum við þakka eiginmönnum okkar Agnari og Aroni sem höfðu svo óbilandi trú á þessu verkefni að þeir stofnuðu með okkur fyrirtæki og hvöttu okkur til að fara alla leið með þetta. Það er óendanlega dýrmætt að hafa stuðning maka sinna í svona ferli. Síðast en ekki síst viljum við færa bestu þakkir til allra þeirra sem hafa nú þegar dregið spurningu úr Húsinu og opnað dyr hjartans. Það eru svo sögurnar og samtölin sem verða til í Húsinu sem gerir Húsið að virkilega dýrmætu verkfæri og afurð.“

Þeir sem vilja skoða nánari upplýsingar um Berglindi og Gunnu Stellu og Húsið geta nálgast þær á www.viskukorn.is þar sem jafnframt er hægt að festa kaup á Húsinu. Eins er hægt að kaupa Húsið í helstu bókabúðum, hönnunarbúðum og verslunum sem selja spil.

Umsagnir um spilið:

„Ég mætti með Húsið í ánægjustund hóps sem þekkist ágætlega. Ég var mjög ánægður með þátttökuna. Spjöldin opnuðu fyrir umræðu sem annars hefði ekki átt sér stað. Það var skemmtilegt hvernig óvæntar spurningar fengu fólk til að íhuga málin og tjá sig. Sumir urðu feimnir fyrst en svo fór umræðan í gang. Við kynntumst betur og ætlum að nota spilið áfram. Ég held að það sé gott að nota Húsið við ýmsar aðstæður og bæði innan og utan fjölskyldu. Það hjálpar líka til við að rifja upp skemmtilegar minningar og einnig við námið að læra að þekkja sjálfan sig.“ - Gunnar Hersveinn, heimspekingur

 „Ég held að spilin gefi okkur tækifæri til að ræða um hluti sem við annars gerum ekki og það er svo gott fyrir nándina - hvort heldur það er eitthvað fyndið og skemmtilegt eða eitthvað viðkvæmt.“ - Guðbrandur Árni Ísberg, sálfræðingur

 „Þetta er frábært spil - takk fyrir að færa Húsið til okkar.“ - Bryndís Jóna Jónsdóttir, núvitundarkennari

Verð