Valmynd
Dagný Maggýjardóttir kennir á námskeiði hjá Endurmenntun HÍ sem nefnist Að gefa út bók - frá hugmynd til lesenda. Sem barn datt Dagný inn í bók og telur sig síðan hafa átt heima við bókalestur. Hún hefur einnig skrifað frá því að hún man eftir sér. Hún segir tilfinninguna við að snerta fyrsta eintakið af eigin bók vera mjög valdeflandi. Við spjölluðum við Dagnýju um ástríður hennar og námskeiðið.
Dagný er íslenskufræðingur með MA í hagnýtri menningarmiðlun frá HÍ og hefur gefið út eigin bækur. Þá hefur Dagný starfað sem kynningarstjóri og við fjölmiðla um árabil auk þess sem hún hefur ritstýrt tímaritum, bókum og aðstoðað sjálfstæða höfunda í útgáfu. „Eftir að ég lauk námi í íslensku við Háskóla Íslands lá leið mín í fjölmiðla og seinna markaðs- og kynningarmál sem segja má að hafi sameinað ástríðu mína fyrir sögum og fólki. Það var grunnurinn að minni fyrstu bók Bruninn í Skildi en þar tók ég viðtöl við eftirlifendur og aðstandendur þeirra er upplifðu þann skelfilega atburð er eldur kviknaði í samkomuhúsinu í Keflavík á jólatrésskemmtun barna árið 1935 með hörmulegum afleiðingum.“
Þegar Dagný gaf út bókina um brunann í Skildi datt henni í raun ekkert annað í hug en að gera það sjálf, enda hafði hún reynslu af flestum hliðum útgáfu og þekkti ferlið vel. „Mér fannst verkið svo persónulegt að ég vildi hafa stjórn á því frá upphafi til enda. Það sama var uppi á teningnum þegar ég gaf út næstu bók, Á heimsenda, enda reynslunni ríkari frá fyrstu útgáfu. Sú bók var afar persónuleg og fjallaði um móður mína sem ég missti í sjálfsvígi.“
Í bókinni segir Dagný frá áföllum í æsku, en markmiðið var að auka fræðslu um geðheilsu og minnka fordóma. „Dóttir mín, Rán Ísold, hannaði bókina sem gerði alla útgáfuna afar fallega. Síðasta bókin sem ég hef gefið út er Lífið á vellinum og er hún byggð á lokaverkefni mínu til MA gráðu við Háskóla Íslands, þar sem fjallað er um hversdagslíf hins bandaríska hermanns og fjölskyldu hans á útstöð Bandaríkjahers á Íslandi.“
Ástríður Dagnýjar tengjast á margan hátt og segir hún að fjölmiðlar og kynningarmál eigi það til að mynda sameiginlegt að segja sögur af fólki. „Þær eru alls konar og það felst ákveðin heilun og orka í því að koma þeim til skila og hafa áhrif. Þannig að ég held að þar hafi rithöfundurinn minn litið dagsins ljós. Fólk er svo ótrúlega áhugavert, og kannski þá helst þegar á reynir. Þegar þú starfar við fjölmiðla færðu leyfi til að koma inn í líf fólks og kynnast því betur, vera eyra og miðla sögu. Það hefur verið mér dýrmæt reynsla.“
Dagný segir það ótrúlega valdeflandi tilfinningu þegar allt hefur komið saman og rithöfundur standi með eintakið í höndunum. „Það liggur mikil vinna í einni bók, margra ára vinna og margir sem koma að útgáfunni. Það má segja að þetta sé hópverkefni þótt nafnið þitt standi þarna framan á bókinni. Ég man samt alltaf skýrast eftir því þegar ég sendi mína fyrstu bók í prentun og hugsaði um leið í skelfingu, hvað ertu nú búin að gera Dagný!“
Spurð um hvað væntanlegir bókahöfundar séu óöruggastir með segir Dagný helst vera hvort bókin þeirra eigi erindi. Spyrji sig hvort hún sé nógu góð. „Ég vitna oft í Rúna Júl sem svaraði: „það er pláss fyrir allt“ þegar útgáfan Geimsteinn var gagnrýnd fyrir að gefa helst til mikið út. Það er lesandi að hverri bók. En stóra spurningin er alltaf sú hvort fólk eigi að gefa út sjálft eða leita til forlaganna. Það eru kostir og gallar við báðar leiðir og ég hef reynt að upplýsa um þá og leiðbeina höfundum.“
Ef höfundur vilji gefa bók út sjálfur sé mikilvægt að leita ráða þegar komi að þáttum sem hann þekki síður eins og ritstjórn, prófarkalestri, hönnun og prentun. „Þetta er mikilvægt til þess að tryggja gæði útgáfunnar sem vanalega er í höndum forlaganna. Það er miklu einfaldara og hagkvæmara í dag að gefa út bók þar sem netið, tæknin og gervigreindin hafa umbylt þessu gamla vinnuumhverfi og gert það aðgengilegra. Þá hjálpar niðurgreiðsla ríkisins mikið en að auki er hægt að sækja um styrki víða og hópfjármögnun eða forsala hefur gefist mörgum vel.“
Dagný áréttar að meðgöngutími bóka sé misjafn. Hún hafi alveg veitt bókum ráðgjöf sem hafa verið sex ár eða lengur í undibúningi. „En bók þarf sinn tíma, leyfi til að þroskast og vera tilbúin að koma út í heiminn. Það getur alls konar komið upp í lífinu. Stundum þarf bókin að fara á bið. En það er svo merkilegt með bækur, þær eiga sitt eigið líf og þær vita hvenær þær eiga að koma út. En það er alltaf jafn gaman að hitta höfunda í útgáfuhófi sem hafa náð takmarki sínu og ég geri mér far um að mæta í þau því þar er sko orka.“
Spurð að lokum hvað komi fólki jafnan mest á óvart í ferlinu að gefa út bók, segir Dagný líklega hversu margir þættir séu eftir þegar handritið er klárt og hvað það sé tímafrekt. „Það er mikvægt að gefa sér góðan tíma í útgáfuferlinu því hver þáttur tekur sinn tíma og erfitt að missa sig í stressi þegar stutt er í jólin, þessa hátíð bókanna. Það er kominn tími til þess að dreifa útgáfu bóka betur og sú þróun er hafin held ég sem betur fer. Bækur allt árið takk fyrir!“
Námskeiðið Að gefa út bók - frá hugmynd til lesenda hefst 22. október. Allar nánari upplýsingar og skráning hér.