null
Fréttir

Sjálfsskaðahegðun unglinga hefur aukist

Kristín Inga Grímsdóttir, sérfræðingur í barna- og unglingageðhjúkrun, segir að unglingar sem stunda sjálfsskaðahegðun noti yfirleitt hegðunina til að ráða við og/eða þola sterkar og erfiðar tilfinningar. Kristín kennir á námskeiðinu Sjálfsskaða og sjálfsvígshegðun unglinga hjá Endurmenntun HÍ. Það er annars vegar sniðið fyrir fagfólk og hins vegar foreldra og forráðafólk.

„Stundum er þetta orðað á þann veg að sjálfsskaði er leið til að lifa af. Sjálfsvígshegðun tengist hins vegar meira hugsunum um að vilja ekki lifa, en undirliggjandi ástæður hegðunarinnar geta verið mismunandi. Algengi sjálfsskaðahegðunar er á bilinu 13-40% og fer það eftir því hvaða aldurshópur er skoðaður,“ segir Kristín, og bætir við að nýlegar tölur varðandi sjálfsskaðahegðun sýni að þessi hegðun er að aukast hjá unglingum. Rannsóknir hafi sýnt að algengi sjálfsvígshegðunar hjá unglingum er á bilinu 4 til 9 prósent.

Fjöldi áhættuþátta eykur líkur á hegðuninni

Aðspurð um muninn á sjálfsskaða- og sjálfsvígshegðunar segir Kristín að þær séu báðar lífsógnandi þó svo að tilgangurinn eða undirliggjandi ástæður geti verið ólíkar. „Það þarf að komast að því hverjar þær eru til að geta greint á milli. Einnig þarf að skoða aðferðir sem eru notaðar til að geta greint á milli en það er oft munurinn á alvarleika sem greinir á milli. Það þarf einnig að þekkja áhættu- og verndandi þætti sem geta hjálpað til við að greina á milli.“

Kristín segir varðandi áhættuþætti sem vert er að taka eftir hjá unglingum þá séu það t.d. álag heima og/eða í skóla, tilfinningalegur óstöðugleiki, hegðunarvandi, geðrænn vandi, neysla, þroskafrávik, áföll og áhrif internetsins. „Það er ekki hægt að segja hvaða áhættuþáttur er stærri en annar því að á móti koma einnig verndandi þættir en eftir því sem áhættuþáttum fjölgar að þá aukast líkurnar á sjálfsskaða- og/eða sjálfsvígshegðun.“

Viðurkenna tilfinningar og sýna skilning

Viðbrögð fagfólks sem vinnur í umhverfi barna og einnig viðbrögð foreldra við slíkri sjálfsskaða- og/eða sjálfsvígshegðun segir Kristín að velti á hverjar aðstæðurnar eru og hvað unglingurinn hefur gert. „Til dæmis ef foreldrar eru að komast að því að barnið er með sjálfsskaðahegðun, en sjálfsvígshugsanir eru ekki til staðar, þá er mikilvægt að þeir spyrji barnið sitt út í ástæður sjálfsskaðans og viðurkenni (e. valideri) tilfinningarnar sem börnin/unglingarnir þeirra eru að upplifa og að tímabundið sé þetta þeirra leið til að takast á við erfiðar tilfinningar.“ Það að viðurkenna (e. validera) hegðunina sé ekki það sama og samþykkja hana heldur einungis að sýna skilning á aðstæðunum.

„Oft þarf að fá aðstoð fyrir barnið í framhaldi, svo sem hjá sálfræðingi, því barnið sýnir fram á að það eru aðstæður til staðar sem það ræður ekki við. Ógagnleg viðbrögð geta verið margvísleg, eins og að skamma barnið fyrir hegðunina, „invalidera“ tilfinningar barnsins og/eða draga úr öllum kröfum á barnið af ótta við að barnið skaði sig. Rétt viðbrögð foreldra/forsjáraðila geta haft töluverð áhrif á framhaldið.“

Getum öll lært að þekkja áhættuþætti og verndandi þætti

Aðspurð að endingu segir Kristín að það sé ýmislegt sem við getum gert sem samfélag til að styðja við börnin okkar. „Sem dæmi þá getum við öll lært að þekkja áhættuþætti og verndandi þætti til að geta gripið inn í og/eða leitað eftir viðeigandi úrræði fyrir barn sem við teljum að áhættuþættir eru til staðar. Við glímum líka sem samfélag við alls konar áskoranir tengdar hröðum tækniframförum og þrátt fyrir að það sé margt jákvætt við það að þá hefur það líka haft neikvæð áhrif. Aðgengi að alls konar upplýsingum fyrir börnin okkar og aðgengi sem unglingar hafa að hvert öðru allan sólarhringinn. Við sem samfélag höfum ekki alveg náð að fylgja því eftir hvernig hægt er að takast á við þetta og þurfum að finna leið saman að því.“

Fjögur námskeið af Sjálfsskaða- og sjálfsvígshegðun unglinga eru á dagskrá á þessu og næsta misseri. Allar nánari upplýsingar og skráning eru hér.


Ef þú finnur fyrir vanlíðan og veist ekki hvert þú átt að leita er gott að byrja á því að tala við einhvern sem þú treystir. Hjálparlínur og önnur þjónusta hafa komið í veg fyrir mörg sjálfsvíg. Hér eru nokkrar leiðir til þess að fá frekari aðstoð:

  • Heilsugæslan þín
  • Hjálparsími Rauða krossins 1717
  • Píeta samtökin 552-2218
  • Bráðamóttaka geðsviðs á Landspítalanum

Verð