Valmynd
Á námskeiðinu Sorg og sorgarviðbrögð barna og unglinga er fjallað um hinar ýmsu myndir sorgarinnar og hvernig þessar myndir snerta börn og unglinga hvert á sinn hátt út frá aldri þeirra og þroska. Guðný Hallgrímsdóttir, guðfræðingur og starfandi prestur, kennir á námskeiðinu og við ræddum við hana um þetta mikilvæga málefni, sérstaklega í íslensku samfélagi um þessar mundir.
Börn og unglingar upplifa mörg hver sorg og missi í kjölfar ýmissa breytinga í lífi þeirra s.s. vegna skilnaðar, flutninga, vinamissis, dauða gæludýra og dauða nákominna. Guðný veitir innsýn inn í heim þeirra við þessar aðstæður og hvaða úrræðum við getum beitt þeim til stuðnings.
Hún segir mikilvægast að hafa í huga að fyrst og síðast sé sorg barna og unglinga alveg jafn rétthá og hinna fullorðnu. „Það er sérlega mikilvægt að börn og unglingar upplifi sig örugg í nánasta umhverfi sínu og geti óhindrað tjáð tilfinningar sínar. Eins er mikilvægt að þau finni að á þau sé hlustað, að sorg þeirra sé viðurkennd og að tekið sé mark á þeirra upplifunum og tilfinningum.“
Guðný bendir á að ekkert áfall sé öðru líkt og viðbrögð þeirra sem gangi í gegnum þau ekki heldur. „Eins er sorgarferlið háð mörgum þáttum, svo sem aldri, þroska, aðstæðum og lífsreynslu. Ung manneskja hefur eðlilega ekki sama þroska og þá lífsreynslu sem hin eldri býr yfir. Hins vegar er manneskjan sjálfri sér lík hvort sem hún er ung eða gömul. Hún býr yfir ákveðnum tilfinningum sem hjálpa henni að skilgreina líðan sína hverju sinni.“ Börn og unglingar sem verði fyrir áföllum og sorg sýni ekki alltaf dæmigerð sorgarviðbrögð þar sem sorg þeirra er svo einstök og tengist svo mjög þroska þeirra.
„Ungt barn sem upplifir missi þarf að endurvinna sorgina í hverju þroskaferli fyrir sig. Þess vegna tekur sorgin sig upp aftur og aftur alveg fram á fullorðinsár. Sorg barna er því mjög vandmeðfarin og krefst þess að við hin fullorðnu séum undir það búin að hún geti brotist fram þegar barnið/unglingurinn fæst við krefjandi þroskaverkefni eins og að byrja í skóla og á unglingsárum. Við verðum líka að vera viðbúin því að allar breytingar á högum barna geti hrundið af stað sorgarviðbrögðum og úrvinnslu sorgar.“
Í námskeiðslýsingu er nefndur andlegur skyndihjálparkassi og Guðný segir aðspurð að því miður sé ekki hægt að kaupa hann tilbúinn líkt og venjulegan skyndihjálparkassa. Hins vegar finnst henni að svona kassi ætti að vera til á hverju heimili, í hverjum skóla og alls staðar þar sem manneskjan býr eða starfar. „Kassinn er persónulegri heima hjá okkur en á vinnustaðnum en þar er þó alveg hægt að búa til sameiginlegan skyndihjálparkassa. Í þennan kassa eru sett ýmis bjargráð sem geta komið að notum þegar áföll eiga sér stað, hvort sem um er að ræða minniháttar áföll t.d. eftir rifrildi eða skammir, einmanaleika eða þegar stóráföll dynja yfir. Með því að fara í kassann og draga upp hluti sem við vitum af reynslunni að hafa jákvæð áhrif á hugsun og líðan, þá getum við stýrt hugarfari okkar í jákvæðari farveg.“
Guðný bætir við að hugann sé hægt að þjálfa eins og líkamann. „Það tekur tíma og því æfðari sem við verðum að ná tökum á eigin hugsunum þeim mun meiri árangri náum við. Þess vegna er best að byrja sem fyrst þegar barnið er ungt að undirbúa slíkan kassa, bæði heima og í skólanum. Það má svo ræða það sem hefur áhrif á hugsun, viðbrögð við neikvæðum hugsunum og hvað við getum gert til að hafa jákvæð áhrif á hugsun.“
Með auknum þroska og aldri sé hægt að breyta og bæta kassann. „Innihaldið er mjög persónulegt en sem dæmi má nefna ljósmyndir, minjagripi frá ákveðnum tímum eða stöðum, símanúmer hjá vini eða ættingja sem er gott að tala við, leikföng, dagbók og aðgerðaráætlun svo eitthvað sé nefnt. Við erum nefnilega öll með einhver bjargráð til að auðvelda okkur lífið og þau geta verið eins fjölbreytt og við erum mörg. Sum bjargráð eru búin til að fenginni reynslu, önnur lærum við af öðrum og enn önnur koma til okkar þegar síst skyldi og veita okkur hugarró.“
Spurð um möguleg, en vel meint, mistök sem fullorðið fólk gerir í ofangreindum aðstæðum segir Guðný að viðbrögð barna og unglinga við áföllum og sorg fari að miklu leyti eftir því hvernig viðbrögð fyrirmyndir þeirra, svo sem foreldrar sýna. „Algengustu mistök okkar sem eldri erum, eru fyrst og síðast þau að okkur hættir til að vanmeta börnin okkar og getu þeirra til að takast á við áföll og tilfinningar sem þeim fylgja. Það er eðlilegt að foreldrar og uppalendur vilji hlífa börnum sínum við sárum tilfinningum og sárri reynslu. Hins vegar er það börnunum alveg jafn mikilvægt í sorgarferlinu og hinum fullorðnu að horfast í augu við áfallið og vera leidd í gegnum þær tilfinningar sem áfallið vekur. Það skiptir máli að undirbúa þau vel, ræða við þau af virðingu og kærleika og síðast en ekki síst að þau finni sig örugg í þessum breyttu aðstæðum. Með hlýjum faðmi og stuðningi þeirra sem standa barninu næst vinnur það sig í gegnum sorgina, skref fyrir skref.“
Guðný var spurð að endingu hvenær áhugi hennar á sálgæslu kviknaði og hvað sé mest gefandi við starf hennar sem prestur. „Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og löngun til að styðja þau sem höllum fæti standa. Ég elska að heyra lífssögur fólks og þær áskoranir sem hver og ein manneskja stendur frammi fyrir í lífinu. Það er líka svo áhugavert og lærdómsríkt að heyra og sjá hvernig fólk finnur lausnir og bjargráð til betra lífs. Kannski var það að alast upp á Reykjalundi og upplifa hvernig fólk fetaði nýjar brautir í endurhæfingu eftir áföll sem kveikti þennan áhuga? Kannski líka trúin mín sem hvetur til samlíðunar með fólki, réttlætis, náungakærleika og umfram allt þeirrar vonar að það birti alltaf upp um síðir, að alltaf komi aftur vor í dal. Eitt veit ég þó, að það sem gefur mér mest í þessu starfi mínu og eiginlega lífinu öllu og já kannski hljómar það frekar klisjukennt, en það er að sjá beygða manneskju rétta aftur úr sér og halda áfram lífsveginn þrátt fyrir erfiðleika og áföll. Að verða vitni að því að sjá manneskju fá aftur trú á eigin getu, lífsneista í augun, von og tilhlökkun er það besta sem ég get hugsað mér. Þá finnst mér ég vera að gera eitthvað gagn og af því læri ég mest.“