null
Fréttir

Hugarþjálfun mikilvæg í nútíma samfélagi

Á námskeiðinu Heilaheilsa og þjálfun hugans hjá Endurmenntun HÍ er fjallað um heilann og hugarstarf. Kennarinn, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum við HÍ og við ræddum við hana.

„Ég rannsakaði hugarstarf og hugræna endurhæfingu í doktorsnámi mínu og mér finnst þessi fræði svo heillandi vegna þess að möguleikar heilans eru endalausir og þekkingunni fleytir fljótt fram, það er alltaf eitthvað nýtt að læra,“ segir Ólína. Hennar markmið með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist þekkingu á hugrænum þáttum, stykleikum og veikleikum og hvaða hlutverki þeir gegna í daglegu lífi.

Hugræn geta á við um starfsemi heilans sem gerir okkur kleift að vera virk í daglegu lífi; heima, í vinnu og í samskiptum. Að sögn Ólínu hefur áhersla á heilaheilsu aukist á undanförnum áratugum og rannsóknir sýnt fram á gagnsemi ýmissa leiða til að þjálfa heilann og viðhalda góðri heilaheilsu út lífið. Þá hafi hugræn þjálfun verið rannsökuð víða og sé nú í boði sem meðferð fyrir ýmsa hópa.

Aðspurð um hvers vegna skiptir miklu máli að öðlast þekkingu á hugrænum áhrifum, svara Ólína því til að samfélagið í dag geri miklar kröfur til hugarstarfs okkar; margfalt meiri en fyrir 100 árum síðan. „Við reynum að aðlagast þessum kröfum en áttum okkur ekki endilega á því hvaða áhrif þær hafa á hugarstarfið.“ 


Hugrænir styrkleikar mismunandi eins og líkamsbygging

Öll höfum við hugræna styrkleika og veikleika og Ólína segir að það sé svipað háttað og með líkamsbyggingu. „Við erum flest með sömu líffærin, útlimi of fleira en þó getur líkamsbyggingin verið ólík, þ.e. sumir eru hávaxnir og sumir þéttbyggðir.“ Starfsemi líkamans geti verið nokkuð ólík og einstaklingsbundin, til dæmis er varðar virkni hormónakerfis, taugakerfis og annars. „Það má hugsa heilann á sama hátt. Við erum með sömu uppbyggingu heilans, en hann starfar ólíkt hjá hverju og einu okkar. Þannig fæðumst við með ákveðnar forsendur fyrir því að þróa ákveðna hugræna styrkleika og veikleika. Hins vegar er heilinn ótrúlega sveigjanlegur og mótanlegur og öll okkar reynsla hefur áhrif á hann.“ 

Spurð að endingu hvað hægt sé að gera til að efla hugræna styrkleika segir Ólína að með því að læra á og þjálfa heilann sé vissulega hægt að efla hugsarstarf. „Það eru til dæmis einbeiting, athygli og minni. Rannsóknir sýna okkur það. Hliðaráhrifin aukast svo samhliða, svo sem líðan, sjálfstraust og færni.“ 

 
Námskeiðið Heilaheilsa og þjálfun hugans hefst 7. október og allar upplýsingar eru hér.

Verð