null
Fréttir

Umfram allt góður og fjölbreyttur hópur þátttakenda

Haustið 2022 kenndi Grégory Cattaneo, rithöfundur og doktor í miðaldasagnfræði, sitt fyrsta námskeið hjá Endurmenntun HÍ. Um var að ræða Óþekkt svæði Frakklands: Dordogne og Bretanía og fékk það strax góðar viðtökur. Næsta árið kennir hann fjögur námskeið.

Grégory var í átta ár stundakennari í sagnfræði og frönsku við Háskóla Íslands og gegndi stöðu gestakennara við Sorbonne-háskóla. Einnig við École Pratique des Hautes Études í París þar sem hann kenndi sagnfræði og námskeið um íslenska menningu og Íslendingasögur.

Grégory er fæddur og uppalinn í Orléans, í Frakklandi, en hefur búið á Íslandi síðan árið 2005. „Ég er giftur íslenskri konu og við eigum saman tvö börn. Ég hef náð góðum tökum á íslensku í gegnum árin. Við akademísk fræðistörf og kennslu vinn ég jöfnum höndum á íslensku, ensku og frönsku.“

Frelsi í vali á viðfangsefni

Undanfarin tvö ár hefur Grégory kennt hjá Endurmenntun Háskóla Íslands með það að markmiði að deila rannsóknum sínum með fjölbreyttari hópi. Aðspurður segir Grégory skemmtilegast við kennsluna þar vera frelsi í vali á viðfangsefnum sem kennd eru og umfram allt góður og fjölbreyttur hópur þátttakenda. „Þau hafa mikinn áhuga á náminu sem þeir velja og námskeiðin mín eru hvatning til skoðanaskipta um efnið og raunverulegar samræður eiga sér stað.“

Það sem er mest heillandi við miðaldasagnfræði segir Grégory vera að uppgötva samfélag sem virðist nálægt okkur en sé í raun og veru allt annað. „Miðaldasagnfræðingur er í raun mannfræðingur. Í doktorsritgerð minni horfi ég til nýrrar túlkunar á íslensku miðaldasamfélagi með því að horfa á það í gegnum linsu nútímasamfélags. Einnig með því að beita hugtökum og nota hugmyndir sagnfræðinga sem fjallað hafa um samfélög Vestur-Evrópu á miðöldum með sambærilegum hætti. Og með ítarlegri athugun á varðveittum heimildum er dregin upp mynd af því hvernig Íslendingar mynduðu samfélög á miðöldum.“

Fær oft hugmyndir hjá nemendum  

Spurður um hvort hann fái margar hugmyndir að námskeiðum svarar Grégory því til að hann kenni aðeins námskeið sem hann hefur sjálfur áhuga og þekkingu á. „Ég hlusta samt líka á tillögur nemenda minna. Dæmi um slíkt eru námskeiðin „Leyndarmál smiðanna á miðöldum“ og „Musterisriddarar“ sem ég kenndi veturinn 2023 - 2024. Svo hef ég fengið nokkrar hugmyndar um dularfullt efni sem eru tengt með miðöldum, til dæmis „Djöfladýrkun með villutrú“ og „Rannsóknarréttur á miðöldum“ sem ég ætla að kenna á vormisseri 2025.“

Grégory finndist áhugavert og gefandi að kenna námskeið um efni sem ekki er mikið til af á íslensku og nefnir sem dæmi sögu gullgerðarlistar (eða alkemíu), þar sem skoðuð yrðu eðli gulls og saga gullgerðarmanna sem vildu umbreyta óæðri efnum í gull og finna lífselixír. „Einnig sögu kúrekamynda; fara yfir sögu og þróun kvikmynda sem fjalla um kúreka og villta vestrið.“

 

Námskeiðin sem Grégory kennir á næsta haust- og vormisseri eru þessi:

Óþekkt svæði Frakklands - Provence og eyjar í Karíbahafi

Hinir duldu textar Biblíunnar

Djöfladýrkun á miðöldum

Óþekkt svæði Frakklands - Alsace og Baskaland

Verð