null
Fréttir

„Það þarf að taka samtalið við allar kynslóðir“

Í janúar býður Endurmenntun HÍ upp á námskeiðið Allur regnboginn í leik- og grunnskóla. Kennarinn er Sólveig Rós Másdóttir, foreldra- og uppeldisfræðingur. Hún er einnig með MA gráðu í stjórnmálafræði og diplómu í hagnýtri jafnréttisfræði.

Sólveig Rós hefur sankað að sér mikilli þekkingu á því sem hún tekur fyrir á námskeiðinu. Hún lagði stund á kynjafræði við Háskóla Íslands frá u.þ.b. 2012-2017 en þar áður lærði hún stjórnmálafræði með áherslu á kynjafræði og fjölbreytileika í háskóla erlendis. „Þar lærði ég að greina samfélagið út frá völdum, hvernig félagslegt taumhald virkar og um samþættingu eða skörun. Með öðrum orðum, ég fékk kynjagleraugun mín. Þegar kynjagleraugun eru komin á nefið þá losna þau ekki svo glatt!“ 

Á námskeiðinu Allur regnboginn í leik- og grunnskóla fjallar Sólveig Rós um börn sem tengja sjálf við hinseginleikann en einnig börn í hinsegin fjölskyldum. „Það er að segja, börn sem eiga til dæmis tvær mömmur, tvo pabba eða foreldri sem er trans. Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin ár í að gera ráð fyrir fjölbreyttum fjölskyldum í skólastarfi og vil ég halda áfram þeirri vinnu - í að aðstoða kennara og annað skólastarfsfólk í hvernig er hægt að passa að öll börn og allar fjölskyldur upplifi að þau tilheyri og það sé rými fyrir þau í skólanum.“

Mikilvæg skilaboð strax í barnæsku að við tilheyrum öll

Aðspurð segir Sólveig Rós það vera mjög mismunandi á hvaða aldri einstaklingar geri sér grein fyrir sinni kynhneigð eða kynvitund. „Það er mín ósk að sama á hvaða aldri það gerist þá muni þeir einstaklingar ekki upplifa ótta eða óvissu um hvernig þeim verði tekið heldur hafi þeir fengið þau skilaboð frá barnæsku að kynjafjölbreytileikinn sé eðlilegur, að það megi prófa sig áfram með mismunandi tjáningu og að við tilheyrum öll.“


Fyrsta skrefið þegar kemur að því að vinna gegn gagnkynhneigðarhyggju, bæði yfirleitt og svo varðandi börn á yngstu skólastigum, segir Sólveig Rós vera að sjá hvað við erum að tala um. Læra að bera kennsl á gagnkynhneigðarhyggjuna, hvernig hún lítur út og hvar hún birtist. „Þegar við erum komin með þessi gleraugu, þessi kynjagleraugu, þá getum við tekið upplýstar ákvarðanir um hvaða skilaboð við viljum senda frá okkur sem er í samræmi við okkar gildi. Ef við þekkjum ekki gagnkynhneigðarhyggjuna þá mun hún smitast út frá okkur án þess að við gerum okkur grein fyrir því.“

Hlutverk forráðafólks gríðarlega mikilvægt

Þá hafi foreldrar og forráðafólk gríðarlega stóru hlutverki að gegna í því að taka þátt í að skapa heim sem sé inngildandi fyrir einstaklinga með fjölbreyttar kynhneigðir og kynvitundir. „Í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir því að barnið þeirra gæti verið hinsegin og passa að barnið viti að það muni vera samþykkt og elskað sama hvernig það er. Í öðru lagi að taka þátt í að kynna barnið fyrir fjölbreytileikanum á máta sem er viðeigandi fyrir aldur og þroska barnsins. Svo í þriðja lagi þegar að því kemur að barnið mun eiga bekkjarsystkini eða vin sem á t.d. hinsegin foreldra eða er hinsegin sjálft þá verði það án allra vandræða og frekar eðlilegur hluti fjölbreytileikans.“


Gríðarleg vinna að baki og aukið samþykki tvíbent sverð

Mörg upplifa bakslag víða í mannréttindamálum, meðal annars hinsegin samfélagið. Því spurðum við Sólveigu Rós hver hennar upplifun þín af því hvernig mannréttindi eins og hinseginleiki eru meðtekin/meðhöndluð í íslensku samfélagi.  

„Ja þegar stórt er spurt! Hinsegin fólk og stuðningsaðilar hafa unnið gríðarlega mikla vinnu undanfarna áratugi til að koma hinseginleikanum upp á yfirborðið, byggja upp stuðningsnet og samfélög og gera kröfu á yfirvöld og hinar ýmsu stofnanir samfélagsins um að annars vegar hætta að mismuna fólki og hins vegar að gera ráð fyrir hinsegin fólki. Eiga þessir frumkvöðlar miklar þakkir skildar. 

Í dag búum við þó við þá skrýtnu tilveru að kynjafjölbreytileikinn er orðinn mun samþykktari og eðlilegri en á sama tíma hefur mótstaða aukist og fólk leyfir sér að segja og skrifa ótrúlegustu hluti. En þetta aukna samþykki er tvíbent sverð því það fær fólk einnig til að halda að björninn sé unninn, það þurfi ekki að vinna að inngildingu hinsegin fólks lengur. Næstu kynslóðir munu bara vita sjálfkrafa um hvað hinseginleikinn snýst og hvernig eigi að nálgast fjölbreytileikann. En það er ekki svo. Það þarf að taka samtalið við allar kynslóðir, fræða og ræða málin. Sérstaklega í því umhverfi sem við lifum í í dag þar sem mótstaða við réttindi og sjálfsákvörðunarrétt jaðarsettra hópa hefur aukist og þar á meðal hjá yngri kynslóðum.“


Læra á yngstu árum hvað er venjulegt og hvað skrýtið

Hvað er hægt að gera enn betur?

„Muna að hinsegin fólk er alltaf á staðnum. Það er hinsegin manneskja eða einstaklingur sem er í hinsegin fjölskyldu eða mun seinna gera sér grein fyrir sínum hinseginleika, í flestum bekkjum, íþróttafélögum, fermingarveislum, vinnustöðum og saumaklúbbum í landinu. Við megum ekki sofna á verðinum og halda að við þurfum ekki að hafa kynjafjölbreytileikann í huga lengur.“

Í þessu samhengi áréttar Sólveig Rós að yngstu árin séu mikil mótunarár í sjálfsmynd barna. Þá læri þau hvað sé venjulegt og hvað skrýtið. „Þau þróa með sér tilfinninguna um að tilheyra eða vera út undan. Það er til mikils að vinna að skapa þannig umhverfi að öll börn, burt séð frá því hvar þau falla á kynjafjölbreytileika-skalanum, upplifi að þau tilheyri nákvæmlega eins og þau eru. Einnig að hjálpa þeim að samþykkja og skilja vini sína og skólafélaga - og seinna meir alls kyns fólk sem þau kynnast á lífsins vegi, sem eru kannski ekki nákvæmlega eins og þau.“


Allar nánari upplýsingar um námskeiðið og skráning eru á þessum hlekk.


Verð