null
Fréttir

Fyrir tónlistarfólk, bransafólk og fólkið á bak við tjöldin

Anna Jóna Dungal tónlistarbransaráðgjafi og eigandi OK AGENCY mun hafa umsjón með námskeiðinu Viðskiptastjórnun í tónlist, sem hefst í febrúar hjá Endurmenntun HÍ. Á kynningarfundi um námskeiðið 11. janúar næstkomandi mun Anna Jóna einnig leiða áhugasama, mögulega þátttakendur í allan sannleika um námskeiðið. Hann er ókeypis, öllum opinn og fer fram með fjarfundarbúnaði.

Anna Jóna segir það skemmtilegasta við að reka OK AGENCY sé hvað vinnan er fjölbreytt og fjölþætt. „Fólkið sem ég vinn með er ótrúlega hæfileikaríkt á sínu skapandi sviði en þau, skiljanlega, vantar oft þekkingu á sviðum verkefnastjórnunar, markaðssetningar og starfsemi tónlistarbransans. Það sem mér hefur fundist mest gefandi er þegar mér tekst, í samstarfi við tónlistarfólkið, að auka sjálfstraust þeirra. Það lýsir sér vanalega í því að þau hætta að efast um næstu skref, missa ekki af tækifærum því þau eru svo óviss um hvert þau stefna og geta einblínt á þau markmið sem skipta í rauninni máli.“ Magnaðasta sé svo hvað hún þurfi oft að gera lítið; það geti gert ótrúlega margt bara að gefa tónlistarfólki tækifæri til að ræða það sem þau eru óörugg með og spyrja spurninga sem þeim finnst asnalegar.

Anna Jóna tekur sem dæmi tónskáldið Sævar Jóhannsson sem hafi leitað til hennar og ótrúlega gaman sé að sjá blómstra. „Ég hef einnig unnið með tónlistarfólki á við Celebs, LÓN, Cell7, Hafdísi Huld, Daughters of Reykjavík og mörgum fleirum.“

Grunnþekking mikilvæg áður en farið er af stað

Spurð hvers vegna skiptir miklu máli að fólk kynni sér viðskiptastjórnun/viðskiptamódel í tónlist segist Anna Jóna oft segja við tónlistarfólk að ef þau ætla sér að lifa á tónlistinni sinni þá þurfi þau að hugsa um sig sem sprotafyrirtæki. „Það er ekkert mál að nenna ekki að kynna sér þetta allt saman en þá getur verið erfitt að hugsa um tónlistina sem vinnuvettvang. Fæst sem ég hef unnið með gera sér grein fyrir því hversu mikil vinna felst í öllu því sem kemur að verkefnastjórnun, áætlanagerð og markaðssetningu, enda mæli ég oftast með því að tónlistarfólk byggi sér upp teymi því mjög fá geta sinnt þessu öllu sjálf. Hins vegar er mikilvægt að vera með grunnþekkingu á málum áður en fólk gefur verkefni frá sér svo hægt sé að vera viss um allt sé með felldu.“

Námskeiðið Viðskiptastjórnun í tónlist er þó ekki aðeins hugsað fyrir tónlistarfólk. Anna Jóna segir að mikil vöntun sé á einstaklingum sem sérhæfi sig í bransahliðinni á tónlist á Íslandi og því hvetur hún öll sem hafa áhuga á því að vinna bakvið tjöldin að skrá sig.

Tímalínur útgáfu ólíkar á Íslandi og erlendis

Anna Jóna segir að henni finnist oft vanmetið hvað tónlistarfólki er kennt lítið um iðnaðinn sem það tilheyrir og reyni að skapa sér feril í. Upplýsingaóreiðan á internetinu sé svakaleg og mörg tækifæri sem bjóðist erlendu fólki séu ekki í boði hér heima. „Aftur á móti eru mörg tækifæri hér sem ekki bjóðast öðrum. ÚTÓN og Stef hafa staðið sig mjög vel í að skapa vettvang til þess að fræða tónlistarfólk, en þau eru auðvitað með áherslur á sína starfsemi. Helsti veggurinn sem ég sé tónlistarfólk lenda á í dag er að vita ekki hvar þau eiga að byrja eða hvað þau eiga að eyða orku í.“

Hvað kemur fólki mest á óvart þegar það ætlar að koma sér á framfæri?

„Flest upplifa mikinn létti þegar við förum í pælinguna að koma sér á framfæri, sérstaklega á Íslandi því þetta eru sjaldnast einhverjir óráðnir galdrar sem eru ekki aðgengilegir meðalmanninum. Ef fólk uppfyllir vissa gæðastaðla, vandar sig og gefur sér nægan tíma, þá verður útgáfuplan frekar auðvelt í framkvæmd. Hins vegar bregður íslensku tónlistarfólki oftast þegar ég er að undirbúa þau undir útflutning vegna þess hvað tímalínurnar eru ólíkar úti. Þar er oft talað um að það taki þrjá mánuði að undirbúa útgáfu lags eftir að það kemur úr hljóðblöndun og flestir sem þú hittir búast við því að þú sért með komandi ár niðurnjörvað þegar kemur að útgáfuplani.“

Eru mörg mjög hæfileikarík sem hika við að koma sér á framfæri vegna hræðslu við bransann eða eitthvað annað?

„Já, ég tel þessa vöntun á þekkingu vera helsta ástæðan fyrir því að fólk er að hika við að koma sér á framfæri. Fæst tel ég vera beinlínis hrædd við bransann heldur er fólk frekar óöruggt og vill ekki hljóma fáfrótt. Það getur verið erfitt að vera komin ágætlega langt í ferlinum og viðurkenna svo að þau skilja ekki muninn á útgáfu- og höfundarrétti, sem dæmi. Stór hluti af minni vinnu er að útskýra hugtök, réttindi og verkferla á mannamáli svo tónlistarfólkið geti náð utan um bransann sem þau vinna í. Síðan hefst vinnan við að horfast í augu við styrkleika og veikleika, finna tækifæri og setja markmið.“

Þátttakendur munu upplifa sig sjálfsöruggari með þekkingu sína

Fyrir þau sem átta sig ekki á umfangi námskeiðsins, hvers konar og hversu mikilvæg fjárfesting er það að þínu mati?

„Það er engin ein leið til þess að "meikaða" í tónlistarbransanum og fullt af fólki hefur gert það mjög gott án þess að vera með þessa grunnþekkingu. Ég tel þó að það sé mikilvægt fyrir þau sem ætla sér að starfa við tónlist, hvort sem það sé á skapandi hliðinni eða bransamegin, séu með góða yfirsýn yfir landslag tónlistarbransans í dag. Ég get lofað því að þessu námskeiði loknu munu þátttakendur upplifa sig sjálfsöruggari varðandi þekkingu sína á þessari flóknu stétt. Við munum skilgreina allskonar hugtök, brjóta niður lykilstöður og hvenær á að vinna með hverjum („hvenær þarf ég umboðsmann?“ „hvað er tónlistarforlag?“), fáum lykilfólk í íslenska bransanum í heimsókn, látum reyna á að skapa hluti sem nýtast í rekstri (t.d. viðskiptaáætlun, skilgreiningu á markhópi, EPK, tech rider, samfélagsmiðlaplan o.fl.) og ræðum óljósa hluti fram og til baka,“ segir Anna Dungal að endingu.

Verð