null
Fréttir

Afhending ágóða til BUGL

Í október var haldin vegleg ráðstefna hjá Endurmenntun í tilefni 70 ára afmælis Ásthildar Bj. Snorradóttur þar sem sérfræðingar á sviði málþroska, læsis og fjöltyngis fluttu erindi og heiðruðu starf Ásthildar sem hefur verið brautryðjandi í faginu svo árum skiptir. Ákveðið hafði verið að allur ágóði ráðstefnunnar rynni til BUGL - barna og unglingageðdeildar og á dögunum komu Ásthildur og Björn Hjálmarsson, yfirlæknir á BUGL, í heimsókn til Endurmenntunar þar sem afhending ágóðans fór fram. Halla Jónsdóttir, endurmenntunarstjóri og Ingibjörg Systa Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Endurmenntun sem sá um að skipuleggja ráðstefnuna, voru viðstaddar afhendinguna sem reyndist falleg og hjartnæm stund. Björn hafði verið einn fyrirlesara á ráðstefnunni og talaði þar um mikilvægi þess að börn og unglingar geti tjáð sig og sína vanlíðan með orðum sem er alls ekki sjálfgefið. Hugtakið "Sál án orða" kom upp í þessu samhengi og lýsir það því sársaukafulla ástandi sem skapast þegar tjáning er ekki möguleg. Nýlega var ráðinn talmeinafræðingur á BUGL sem kemur til með að aðstoða skjólstæðinga þar við að finna orðin sín og þar sem málþroski og tjáning er Ásthildi hjartans mál vonast hún til að peningagjöfin hennar til deildarinnar nýtist vel í þeim tilgangi. Endurmenntun þakkar Ásthildi og öllum þeim sem komu að ráðstefnunni fyrir óeigingjarnt starf í þágu unga fólksins okkar og óskar BUGL til hamingju með þessa fallegu gjöf.

Verð