null
Fréttir

Samstarfssamningur fyrir félagsfólk BHM

Starfsþróunarsetur háskólamanna, f.h. BHM, og Endurmenntun HÍ hafa gert samning þar sem félagsfólki í aðildarfélögum BHM býðst að sækja tíu námskeið hjá Endurmenntun HÍ þeim að kostnaðarlausu. Námskeiðin sem um er að ræða eru sérstaklega valin þannig að sem flest geti nýtt sér þau til að efla sig í starfi. Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, segir þau meta mikils að eiga þess kost að víkka út valmöguleikana fyrir sitt félagsfólk.

Aðildarfélög BHM eru 24 talsins og heildarfjöldi félagsfólks um 19 þúsund. Aðildarfélögin eru úr ýmsum geirum atvinnulífsins og þó meiri hluti félagsfólks starfi á opinberum vinnumarkaði þá fjölgar þeim stöðugt sem starfa á almenna markaðnum eða þvert á markaði.

Breyttir atvinnuhættir kalli á fjölbreyttari tækifæri til símenntunar

Kolbrún segir að í stefnu BHM sé lögð rík áhersla á lifandi tengsl háskólamenntunar og atvinnulífs. Breytingar á atvinnuháttum, tækniþróun, þróun gervigreindar og umskipti í átt að grænni atvinnuháttum, kalli á að félagsfólk aðildarfélaga BHM hafi aðgang að fjölbreyttum tækifærum til sí- og endurmenntunar.

„Í aðildarfélögum BHM er háskólamenntað fólk úr ýmsum atvinnugreinum, á heilbrigðis- og velferðarsviði og sviði menntunar og menningar, sem vill geta bætt við færni sína í starfi og vera búið undir þær breytingar sem verða á starfsumhverfi þeirra. Félagsfólk aðildarfélaga BHM hefur ætíð sýnt mikinn áhuga á þeim tilboðum sem bandalagið hefur staðið fyrir varðandi sí- og endurmenntun. Það fylgist vel með nýjungum í námsframboði og lætur óspart í ljósi óskir um fræðslu við hæfi.“ Fræðslustefna BHM hafi gert félaginu kleift að sinna þörfum félagsfólks með ágætum, en þau meti mikils að eiga þess kost að víkka út valmöguleikana.

Eru sjálf spennt að sjá viðbrögðin

„Við erum sjálf afar spennt að sjá viðbrögðin við þessu aukna framboði og erum þess fullviss að áhuginn verði mikill, segir Kolbrún og bætir við aðspurð hvort einhver þróun hafi átt sér stað meðal væntinga félagsmanna til framboðs á námskeiðum, að þegar horft sé yfir breytingarnar sem eigi sér stað á vinnumarkaði um þessar mundir, hafi komið í ljós nýjar þarfir og áherslur varðandi starfsval fólks. „Við stöndum frammi fyrir örum breytingum á atvinnuháttum í ýmsum atvinnugreinum. Þetta hvetur aðila vinnumarkaðar, jafnt launafólk sem launagreiðendur, til að bæta stöðugt við þekkingu sína. Það er því líklegt að yfirstandandi atvinnuháttabreytingar kalli á að fólk skoði þau tækifæri sem bjóðast til starfsþróunar, hvort sem það tengist stafrænni tækni, hagnýtingu gervigreindar, sjálfbærri þróun eða nýrri nálgun við verkefnastjórnun.“

Allar nánari upplýsingar fyrir félagsfólk BHM má finna á meðfylgjandi slóð: https://endurmenntun.is/bhm

 

Verð