null
Fréttir

Fjölbreytt og gott nám sem hefur nýst vel í starfi

Daníel Kolár kom fyrst til Íslands frá Tékklandi árið 2006 til að spila íshokkí með Skautafélagi Reykjavíkur. Það var ekki ætlun Daníels að ílengjast hér, en örlögin tóku heldur betur í taumana því að í dag er hann giftur íslenskri konu, á með henni þrjú börn og er í að minnsta kosti tveimur störfum. Eitt þeirra er ökukennsla, en hann lauk því námi frá Endurmenntun HÍ í desember árið 2022.

Þegar Daníel lauk náminu fyrir tveimur árum var það lengra en í dag; skiptist í 15 lotur sem náði yfir eitt og hálft ár. Ökukennaranám til almennrar réttinda er í samstarfi við Samgöngustofu og Menntavísindasvið Háskóla Íslands og því þarf stúdentspróf til að sækja um. „Tengdapabbi minn er ökukennari og hann hvatti mig upphaflega til þess að læra þetta. Þegar ég sótti um fyrst fékk ég höfnun. Þá vantaði bara upp á að ég fengi stúdentsprófið mitt frá Tékklandi metið hjá Háskóla Íslands og þegar því lauk komst ég inn,“ segir hann kátur.

Gefandi að aka fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra

Þegar Daníel stundaði námið hjá Endurmenntun HÍ var hann einnig í háskólanámi í íþrótta- og heilsufræði í Háskóla Íslands. „Það var frekar mikið álag því ég þurfti stundum að fara úr tíma í Dunhaganum til að taka próf hinum megin við Suðurgötuna og koma svo aftur. Ég varð á endanum að bíða með það nám og er þó kominn með um 50 einingar.“

Daníel er atvinnubílstjóri með meirapróf og keyrði um tíma um Ísland með ferðamenn. Fyrir tveimur árum færði hann sig svo til Teits Jónassonar og ekur alla virka daga fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra. „Þetta er mjög gefandi starf. Það er gott að koma að gagni við að hjálpa þessu fólki sem getur ekki farið ferða sinna án aðstoðar.“

Daníel í kennslubifreið sinni á bílastæði Endurmenntunar HÍ.

Ökukennaranámið nýtist svo á öðrum tímum, bæði við að kenna á bíl og einnig við kennslu á ensku (ökuskóli 1 og 2) hjá Ökuskólanum í Mjódd. Daníel segir skemmtilegast við ökukennarastarfið að hitta fólk.


„Ég á auðvelt með samskipti og spyr fólk stundum margs, en passa auðvitað að hugurinn sé fyrst og fremst við aksturinn. Við lærðum í ökukennaranáminu hvernig við getum unnið með allskonar fólk og átt alls kyns samskipti.“ Hann kenni Íslendingum en einnig fólki frá Úkraínu, Filipseyjum, Sómalíu, Kirkistan, Armeníu, Monte Negro, Tékklandi, Slóvakíu og Rúmeníu. 

„Ég kenni á íslensku, ensku, tékknesku og get bjargað mér á pólsku. Það þarf að vanda sig við hvað sagt er og hvernig. Mér finnst gaman að vita um alls kyns menningu, matarvenjur og fjölskyldur. Fólk segir að ég sé frekar yfirvegaður og þægilegur. Það hefur allavega enginn kvartað ennþá,“ segir hann glettinn.

Notalegt að finna fyrir prófkvíða

Þá tekur Daníel einnig fram að í náminu hafi komið honum skemmtilega á óvart hvað hann lærði margt um tímastjórnun, markaðsmál, sálfræði, raskanir og samskipti. Honum fannst líka frábært að kynnast ólíkum kennurum með alls kyns nálganir og efnistök.

„Mjög fjölbreytt og gott nám sem hefur nýst mér vel í starfi. Besta við námið var þó að öðlast í framhaldinu þessi réttindi. Svo finnst mér bara gaman að læra. Það er hvorki einfalt né auðvelt fyrir fólk að fara í nám eftir 20 ára hlé, en mér fannst notalegt að finna fyrir prófkvíða og allskonar aftur. Nemendahópurinn var líka mjög skemmtilegur og fjölbreyttur!“

Daníel ásamt liði sínu hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Mynd/SR

Fjölskylduvænn framtíðardraumur


Eins og gefur að skilja er Daníel með ansi marga bolta á lofti því hann er líka giftur með þrjú ung börn samhliða öðrum hlutverkum. „Ég kynntist konunni minni, Diljá Mjöll Kolár Hreiðarsdóttur, hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Við vorum bæði að spila íshokkí þar og höfum verið saman síðan árið 2011. Börnin okkar eru þriggja, fjögurra og tíu ára. Sá yngsti elskar að vera í skautahöllinni og er alltaf að horfa á íshokkí og leika sér með þannig dót heima.“

Að endingu segir Daníel framtíðardrauminn sinn vera að stofna sinn eigin rekstur, verða sjálfstæður og stjórna tímanum eins og hann getur. „Konan mín er í góðri vaktavinnu og við viljum gjarnan vinna þannig að það verði sem fjölskylduvænast.“

Umsóknarfrestur í ökukennaranám til almennra réttinda er til og með 15. maí. Allar nánari upplýsingar hér.

Verð