null
Fréttir

Miklar kröfur gerðar til fasteignasala

Þórir Helgi Sigvaldason, lögmaður hjá Lögmönnum Laugardal, lauk námi til löggildingar fasteigna- og skipasala frá Endurmenntun HÍ í fyrravor. Hann var í fullri vinnu með náminu og því nýttist vel sá möguleiki að stunda það í fjarnámi. Þórir segir námið hafa styrkt hann verulega í starfi í verkefnum sem tengjast fasteignaviðskiptum.

„Mér finnst minnistæðast hversu miklar kröfur eru gerðar til fasteignasala. Í mínu starfi sinni ég í miklum mæli málum sem tengjast fasteignaviðskiptum. Hér er rekin lögmannsstofa og fasteignasala er dálítið hin hliðin á sama peningnum. Ástæðan fyrir því að ég sótti um þetta nám er að mig langaði að sinna málum tengdum fasteignaviðskiptum betur sem tengjast viðskiptum, uppgjöri og gallamálum og ég hef hug á því að jafnframt að selja fasteignir. Við tökum til varna fyrir fasteignasölur eða höfðum mál gegn þeim, eftir því sem við á hverju sinni.“

Gaman er að geta þess að Þórir hefur einnig verið að kenna námskeið hjá Endurmenntun HÍ sem nefnist Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það verður aftur á dagskrá á haustmisseri. „Mjög skemmtilegt að kenna þetta námskeið. Þetta eru svakalegar torfreglur sem fasteignasalar og lögmenn þurfa núna að kunna til að gera áhættumat og slíkt. Það eru ekki aðgengilegar reglur og við erum alltaf reyna að koma þessu yfir á mannamál.“

Lögfræðiþekkingin ákveðið forskot

Þórir sótti námið til löggildingar fasteigna- og skipasala mikið til í fjarnámi og segir það hafa gengið mjög vel, því hann var í fullri vinnu með því. Hann segir að auðvitað hafi hann haft ákveðið forskot með þekkingu úr lögfræðinni, sem er hluti af náminu, en efnið hafi allt verið góð upprifjun og hann hafi öðlast meiri yfirsýn. Það sé gamalgróið að það hangi saman litlar lögmannsstofur og fasteignasölur.

„Lögfræðin í náminu var að mestu leyti metin en þetta tengist fasteignasölu töluvert. Hún er auðvitað mjög góður grunnur í svona nám. Það eru margir lögfræðingar sem halda að af því að þeir kunna lagareglurnar og skjalagerð að þá sé ekkert eftir að læra í fasteignasölunáminu. Það er bara alrangt. Það er stór hluti af náminu sem er þar fyrir utan.“  

Hópurinn sem brautskráðist úr náminu með Þóri Helga í júní 2023. Hann tók fjarnámið alla leið því að gat ekki heldur verið viðstaddur brautskráninguna.

Miklu meira en bara lög og réttur

Námið hafi því styrkt hann mikið í starfi sínu. „Það þarf að þekkja hlutrænt hvernig hús eru upp byggð, ekki bara það þýðir að kauplýsa samningum. Hver munurinn er á klæddum og múruðum húsum og allt þetta. Það er miklu meira í þessu en bara lög og réttur.“

Aðspurður segir Þórir að námi gæti einnig virkað vel fyrir fleiri starfsstéttir eins og viðskiptafræðinga og endurskoðendur og þau sem sinni einhverri fjárhagsráðgjöf.

Þórir var ánægður með námið í heild: „Kennsla, framsetning, viðmót á vefnum, upptökur, námsefni var allt mjög hnitmiðað, annað en ég hef vanist. Mjög aðgengilegt og allt upp á tíu. Það voru gerðar til okkar mjög skýrar kröfur og væntingar sem samræmdust svo prófunum.“

Umsóknarfrestur í nám til löggildingar fasteigna- og skipasala er til og með 15. maí. Hér má finna allar nánari upplýsingar um námið.

 

Verð