null
Fréttir

Pikkar mjög hratt með tveimur fingrum á lyklaborð

Elísa Guðnadóttir er kennari vikunnar hjá okkur í Endurmenntun HÍ. Hún er sálfræðingur og hefur unnið með börnum og umönnunaraðilum barna síðan árið 2009, fyrst sem skólasálfræðingur og síðan sem sálfræðingur á Sálstofunni. Í haust hóf Elísa störf hjá menntasviði Kópavogsbæjar í nýju starfi sem ráðgjafi tengiliða leikskólanna í tengslum við ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Elísa hefur kennt mjög vinsæl násmkeið hjá Endurmenntun HÍ síðan haustið 2013. „Ég hef ekki tölu á hvað ég hef haldið mörg námskeið á þessum 10 árum. Á síðasta ári var ég að kenna fjögur mismunandi námskeið; hagnýtar leiðir í kennslu, annars vegar fyrir starfsfólk leikskóla og hinsvegar grunnskóla, kvíði barna og unglinga og svefn ungra barna.“

Námskeið sem Elísa kennir í vetur eru þessi:
Leikskóli fyrir alla (endurmenntun.is)

Kvíði barna og unglinga (endurmenntun.is)

Svefn leikskólabarna (endurmenntun.is)

Langar þig að byggja upp jákvæðari menningu í kennslustofunni? (endurmenntun.is)

Leikskóli fyrir alla (endurmenntun.is)

Elísa útskrifaðist með kandídatspróf frá sálfræðideild HÍ vorið 2008 og fékk starfsleyfi sem sálfræðingur sama ár. Lauk síðan sérnámi í hugrænni atferlismeðferð frá EHÍ vorið 2019. „Auk formlegrar menntunar hef ég sótt fjölda námskeiða sem tengjast starfi mínu sem sálfræðingur barna og unglinga.“

Spurð um eiginleika sína segist Elísa vera ótrúlega samviskusöm, hreinskilin og einlæg. „Ég er einnig hjálpsöm, góðhjörtuð og skilningsrík. Ég hef húmor fyrir eigin veikleikum og get auðveldlega (stundum of) viðurkennt eigin mistök. Ég get verið mjög hress og átt auðvelt með að ná til fólks, sérstaklega í tengslum við það sem vekur áhuga minn og ástríðu.“

Getur ekki blikkað með öðru auganu

Innt eftir hæfileikum sem gætu komið á óvart eða fáir vita um segist Elísa ekki kunna fingrasetninguna á lyklaborði en geti pikkað mjög hratt með tveimur fingrum á lyklaborð, án þess að horfa. „Ég get klórað mér í eyrum og hálsi án þess að nota hendurnar, en geri það sjaldan á almannafæri því hljóðið sem myndast við það og svipbrigði mín vekja of mikla athygli,“ segir hún hlæjandi og bætir svo við: „Ég get hinsvegar ekki blikkað með öðru auganu og þegar ég reyni það, sem er sjaldan, er mikið hlegið að mér.“  

Að lokum deilir Elísa fallegri hugvekju til lesenda: „Börnin eru framtíðin okkar, látum þau okkur varða, köstum ekki ábyrgðinni á aðra heldur hugsum: hvað get ég lagt af mörkum til þess að þeim farnist sem best? Mistök eru eðlileg, mistök eru nauðsynleg, viðurkennum mistök okkar og hugsum um þau sem tilraunir og tækifæri til að þroskast og dafna sem einstaklingar, í lífi og starfi.“

Verð