null
Fréttir

Breytt vinnuumhverfi og áskoranir

Á undanförnum tveimur árum hefur heimurinn breyst að miklu leyti og þó að mesta hættan af Covid faraldrinum virðist liðin hjá er víst að hinar ýmsu breytingar eru komnar til að vera. Á meðal þess sem fólk fann mikið fyrir í gegnum faraldurinn var breytt vinnuaðstaða og breyttar vinnuvenjur. Skrifstofa margra fluttist tímabundið heim og sveigjanleiki starfsfólks og stjórnenda varð mikilvægur hluti af velgengni fyrirtækja í gegnum erfiða tíma.

Nú þegar ástandið í samfélaginu er að færast í eðlilegt horf aftur situr eftir sú reynsla að breytileg vinnurými henta sérlega vel fyrir fólk á nútíma atvinnumarkaði. Aðstæður hvers og eins eru margvíslegar og síbreytilegar og það er mikilvægt að vinnuveitendur komi til móts við kröfur starfsfólk síns. Eins geta verkefni hvers og eins breyst mikið dag frá degi og mismunandi rými geta hentað fyrir mismunandi verkefni. Í takt við þessar hræringar ætlar Endurmenntun að fá Tim de Vos, hollenskan sérfræðing frá Veldhoen + Company til að koma og halda námskeið um verkefnamiðuð vinnurými (e. Activity Based Working).

Markmiðið með verkefnamiðuðum vinnurýmum er að vinnustaðir hanni skrifstofurými sín í samræmi við þessar margbreytilegu kröfur starfsfólks um aðstöðu til mismunandi verkefnavinnu. Þetta þýðir ekki einfaldlega eitt stórt opið rými heldur að stjórnendur útfæri breytingar á vinnustaðnum sem gefa færi á fjölbreyttum rýmum innan vinnustaðarins og enn fremur sveigjanleika fyrir heimavinnu starfsmanna. Starfsfólk fær með þessu aukið frelsi og sjálfstæði til að velja á milli rýma eftir verkefni hverju sinni og getur þessi valdefling aukið afköst og stuðlað að því að fólk skili af sér sínum bestu verkum. Þá býður þetta fyrirkomulag upp á aukið flæði á vinnustaðnum sem getur verið mikill kostur, meðal annars í auknu hugmyndaflæði en einnig með því að stytta boðleiðir.

Aukin heimavinna hefur fjölda kosta eins og tímasparnað starfsmannsins, hún er fjölskylduvænni og hefur áhrif á greiðari samgöngur og minnkandi mengun bílaumferðar. Samkvæmt samgöngumati sem framkvæmt var af BHM og Mannvit er talið að árlegur sparnaður heimila á höfuðborgarsvæðinu næmi 15 milljörðum króna ef helmingur starfandi fólks inni að heiman tvo daga í viku. Það er því til ýmiss að vinna með því að taka skref í átt að verkefnamiðuðum vinnurýmum.

Fyrir utan vinnuaðstöðu hefur umræðan í samfélaginu einnig snúið mikið að líðan starfsfólks á vinnumarkaðnum yfir höfuð og þegar er byrjað að stytta vinnuvikuna til að sporna gegn kulnun og ofvinnu. Sífellt meiri áhersla er lögð á vellíðan fólks á vinnustaðnum og stjórnendur þurfa að vera vakandi fyrir breyttum kröfum. Á dagskrá Endurmenntunar í vor eru fjölmörg námskeið sem eiga vel við þennan málaflokk og þar má nefna Mannauðsstjórnun fyrir nýja stjórnendur, Hlutverk hópstjórans/vaktstjórans, Kulnun í starfi: orsök, áhættuþættir og einkenni, Árangursrík samskipti, Fagleg hegðun og samskipti á vinnustað og Vellíðan og velgengni í starfi - með jákvæða sálfræði og núvitund að leiðarljósi.

Það er í eðli manneskjunnar að breytast og þróast með tímanum og það er því engin ástæða til að halda alltaf í sömu venjurnar, sérstaklega ekki þegar kemur að vinnustaðnum þar sem margir eyða helmingi dagsins. Það er því tilvalið núna til að kynna sér þessi fróðlegu námskeið á komandi mánuðum og finna tækifæri til að leiða breytingar til betri vegar.  

Verð