null
Fréttir

Nemendur í ökukennaranámi til almennra réttinda útskrifaðir

Föstudagurinn 9. desember síðastliðinn var hátíðlegur hjá Endurmenntun en þá útskrifuðust 23 nemendur úr Ökukennaranámi til almennra réttinda. Námið er jafnan þrjú misseri og höfðu nemendur því upplifað tímana tvenna í gegnum Covid faraldurinn með öllum þeim óvæntu uppákomum sem áttu sér stað yfir tímabilið. En allt fór vel að lokum og fulltrúi nemenda, Jac Norðquist, minntist á það í ræðu sinni að hópurinn hefði bundist einstaklega nánum böndum á meðan á náminu stóð. Jac sagðist vera þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu því frábæra fólki sem hann kynntist í náminu, bæði nemendum og kennurum og rifjaði upp skemmtilegar minningar úr vettvangsferðum og kennslustundum við mikla kátínu áheyrenda. Halla Jónsdóttir, endurmenntunarstjóri, hrósaði nemendum fyrir dug og þor í gegnum krefjandi tíma og Þuríður B. Ægisdóttir, formaður Ökukennarafélags Íslands, fór stuttlega yfir sögu ökukennslu á Íslandi og hvað hún hefur tekið miklum stökkbreytingum frá fyrri tímum.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, flutti hátíðarræðu og talaði um hversu mikilvægt hlutverk ökukennarar skipa í því að undirbúa unga fólkið fyrir ábyrga þátttöku í umferðinni. Líkt og ökukennslan sjálf hefur umferðin breyst gríðarlega á tiltölulega stuttum tíma og mikilvægara en aldrei fyrr að þjóðin tileinki sér örugga umferðarmenningu.

Elín Ey spilaði ljúfa tóna af einstakri snilld á milli ræðuhalda og lét engan ósnortinn og að athöfn lokinni skáluðu nemendur með sínu nánasta fólki fyrir þessum merka áfanga. Starfsfólk Endurmenntunar þakkar nýútskrifuðum ökukennurum innilega til hamingju með útskriftina og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.

Verð