null
Fréttir

„Þessu öllu tókst þeim að miðla til okkar á einu ári“

Sveinn Kjarval, viðburðastjóri hjá Marel, útskrifaðist af námsbrautinni verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ árið 2022. Hann segist hafa verið í 20 ár á „alvöru“ vinnumarkaði og, eins og við flest, gert ótal margt á þeim ferli sem hann hafi ekki beinlínis haft menntun í. Námið hafi svo orðið límið sem kom loksins öllu í nauðsynlegt samhengi.

„Ég var þarna í fyrsta skipti í námi í 25 ár og það var ótrúlega gaman að læra og þetta var allt svo ljóst og auðskilið (e. meikaði sens) og ég var svo hungraður í þetta. Það var líka svo frábært að fólkið sem ég lærði með kom víðs vegar að og með alls kyns bakgrunn og persónuleika. Maður fékk svo mikla innsýn í alls kyns atvinnustarfsemi og við lærðum mikið hvert af öðru í umræðum og í hópavinnu.“

Hópurinn sem útskrifaðist með Sveini árið 2022, ásamt kennurum námsins. Dr. Helga Þór, véla- og iðnaðarverkfræðingi og Dr. Hauki Inga Jónassyni, cand. theol., M.Phil. og sálgreini. Þeir hafa kennt þessi fræði hjá Endurmenntun HÍ í 26 ár.


Unnu öll fyrir sama tilbúna fyrirtækið

Sveinn segir Dr. Helga Þór Ingason og Dr. Hauk Inga Jónasson, kennarar námsins, hafa verið mjög áhugasama og skemmtilega kennara og að þeir hafi skorað nemendur vel á hólm. Þeirra reynsla af því að kenna fjölbreyttum hópum í tímans rás hafi vitanlega gefið þeim innsýn inn í svo margt. „Og þessu öllu tókst þeim að miðla til okkar á einu ári! Mér fannst námsefnið líka vel upp sett og skemmtilegt. Til dæmis hvernig við greindum tilbúið fyrirtæki. Við unnum þannig öll fyrir sama fyrirtækið og gátum séð mismunandi útfærslur fyrir mismunandi hópa. Ótrúleg fjölbreytni sem ég hef nýtt heilmikið í mínu starfi.“


Sem viðburðastjóri hjá Marel sinnir Sveinn heilmikilli markaðsvinnu, mótar þjónustuferla og tekur á móti hópum af fólki sem vill kynna sér starfsemi þessa öfluga fyrirtækis. „Ég skipulegg marga fjölbreytta viðburði, útsendingar, bæði tæknilega og samskiptalega og matreiði efni og held utan um krísustjórnun. Ég finn að eftir alla mína reynslu á vinnumarkaði, hjá ýmsum fyrirtækjum, með alls kyns fagfólki með sérhæfða menntun í hinu og þessu, að þá varð þetta nám svo mikil og góð samantekt á svo mörgu sem ég vissi og kunni. Allt varð formfastara og skýrara og límið var aðferðafræðin. Þetta hefur sparað mér mikinn tíma og orku í vinnunni.“

Pikkaði strax upp aðferðir og tileinkaði sér

Sveinn segir þessa tvennu, leiðtogafærni og verkefnastjórnun, mjög góða blöndu sem hafi tengst vel inn allt sem hann lærði og starfar við. „Ég pikkaði mjög meðvitað upp aðferðir sem ég hef tileinkað mér síðan. Eitt sem ég man eftir að sat vel í mér; það var talað um samskiptasáttmála og að leggja upp hvernig fólk skuli vinna saman. Ég er orðinn betri í þessu og bóka fundi fyrirfram. Ég legg einnig áherslu á betri upplýsingamiðlun um hvað fá skuli út úr fundum. Miklu meiri skýrleiki og það er svo mikilvægt.“

Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun byggir á að efla fjóra megin færniþætti meðal þátttakenda: Leiðtogafærni, samskiptafærni, stefnumótunarfærni og skipulagsfærni. Námið samanstendur af fjórum námskeiðum sem skiptast jafnt á milli tveggja missera. Unnið er með færniþættina yfir allan námstímann og áhersla lögð á að kenna nemendum hagnýtar aðferðir og þjálfa þá í notkun þeirra. Kennt er í fjórum fjögurra daga lotum, einni í mánuði.

Sveinn í einu af fjölmörgu rýmum Marel við Austurhraun 9 í Garðabæ.

„Skipulag námsins var mjög heppilegt með þessu lotukerfi. Með því gat ég hliðrað til þá virku daga í stað þess að fórna kvöldum og helgum í námið. Vinnuveitandinn hvatti mig til að finna einhverja símenntun og við fundum þetta og ég sló til. Ég var studdur til þessa náms.“

Sveinn bætir við að góð mannauðsstefna ríki hjá Marel, bæði til að fá fólk til að fara í nám utan og einnig innan húss. Fjárfest sé sérstaklega í möguleikum til að starfsfólk geti lært eitthvað afmarkað. „Hjá Marel er líka mikil áhersla á samstarfsverkefni er varða tæknimenntun, fræðslu og nýsköpun. Hér viljum við frekar vinna með fólki en að fá lógóið birt og borga fyrir það.“

Sjálfsskoðun stjórnenda mikilvæg

Spurður að því hvað hafi komið mest á óvart varðandi námið segir Sveinn hafa verið verkefni á persónulegum nótum í leiðtogaþjálfuninni, svo sem dagbókarskrif. „Við áttum að skrifa niður drauma okkar og pæla í hvernig okkur líður. Það var farið djúpt í það að skoða líðan stjórnenda og leiðtoga. Hvernig stjórnendur hegða sér og hvaða áhrif það hefur á aðra. Ef ég ætla að hafa áhrif á annað fólk þá verð ég fyrst að skoða sjálfan mig. Hvernig vil ég að aðrir upplifi mig? Hverjir eru mínir varnarhættir, hvernig bregst ég við aðstæðum og hvernig vil ég koma fram út á við? Ef ég get ekki skilið það þá augljóslega get ég ekki haft áhrif á annað fólk. Þetta var frábær nálgun og góð pæling í að finna hvað þarf til að fá fólk með sér í lið,“ segir Sveinn að lokum.

Umsóknarfrestur fyrir nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun er til og með 15. maí. Hér eru allar nánari upplýsingar.

 

Verð