Valmynd
Hjördís Inga Guðmundsdóttir er klínískur sálfræðingur hjá Styðjandi, sálfræðiþjónustu Heilsuklasans. Hún hefur kennt hjá Endurmenntun síðan haustið 2022 og þá sama námskeið og núna, Lifðu í sátt. Hjördís er kennari vikunnar hjá Endurmenntun HÍ og segir viðmót starfsfólks þar yndislegt, ótrúlega hjálplegt og aðstaðan vera til fyrirmyndar.
Hjördís er klínískur sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði fullorðinna og hefur unnið sem verkefnisstjóri áfallahjálpar hjá Rauða krossinum við greiningar hjá Skólaþjónustu Hafnarfjarðar og við klínísk störf á Heilsugæslunni Sólvangi, Höfða og Sala.
Spurð um hvaða hæfileikum hún sé gædd segir Hjördís það skipta hana miklu máli að fólki líði vel í návist hennar. „Ég hef fengið að heyra að ég hafi þægilega nærveru - sem gleður mig alltaf. Ég er einnig mjög ævintýragjörn og langar að gera alls konar hluti sem eru misskynsamlegir eins og að fara í klettaklifur, prófa brimbretti og ferðast út um allt. Ég hef mikinn húmor fyrir sjálfri mér enda afar mikill klaufi og er manneskjan sem reglulega sullar upp úr kaffibollum, hellir almennt niður og hrynur á hausinn á flatbotna skóm á sléttum flötum. Því ákvað ég að það væri annað hvort að gráta eða hlæja og valdi það síðarnefnda sem hefur hjálpað mér gríðarlega í gegnum lífið.“
Varðandi hæfileika sem gæti komið á óvart segist Hjördís geta sungið ágætlega. „Ég vinn engar söngkeppnir en elska að syngja þegar ég er ein í bílnum. Það sem fáir vita er að ég virðist hafa ágætis tóneyra og get leikið mér að pikka upp lög á hin og þessi hljóðfæri sem ég hef þó enga formlega menntun á. Skemmtileg afþreying.“
Innt eftir lífsmottói að endingu liggur Hjördísi þetta á hjarta: „Lífið er stutt, passaðu að taka eftir og njóta og ekki sleppa að gera neitt sem gamla/gamli þú myndir sjá eftir. Mér finnst persónulega gott að ímynda mér hvað gamla ég á elliheimilinu myndi segja við ýmsum hlutum sem ég er að velta fyrir mér og einnig geri ég fullt af hlutum af því að ég einfaldlega get það. Einhvern tímann mun ég ekki geta það.“