null
Fréttir

Eins og þúsund sálfræðitímar

Auður Hallgrímsdóttir lauk námi í sálgæslu hjá Endurmenntun HÍ fyrir ári. Hún er flugfreyja hjá Icelandair og með háskólapróf í grunnskólakennarafræðum en segist fyrst og fremst hafa farið í námið fyrir sjálfa sig. Hún varð fyrir stóru áfalli fyrir fimm árum þegar faðir hennar lést úr sjálfsvígi og hún hefur síðan þá verið opin um reynslu sína og notað hana til að vekja athygli á forvarna- og lýðheilsumálum.

Auður ásamt föður sínum, Hallgrími A. Viktorssyni. Mynd/aðsend

„Ég var mjög meðvituð um það frá byrjun að fara í námið fyrir sjálfa mig. Ég man hvar ég stóð þegar ég vissi að ég vildi læra sálgæslu, áður en ég vissi að námið væri til. Örfáum árum síðar sá ég sálgæslu auglýsta hjá Endurmenntun. Ég þekkti svo konu sem hafði lokið henni árið áður, spurði hana út í námið og sótti svo um.“

Á vefsíðu embættis landlæknis segir að sjálfsvíg ástvinar sé er eitt mesta áfall sem hægt er að upplifa. Í kjölfar sjálfsvígs komi lögregla, sjúkraflutningafólk og/eða læknir fyrst á vettvang. Ef þess sé óskað geti prestur og/eða aðili frá lífsskoðunarfélagi einnig komið á staðinn.

Auður lýsir broti úr deginum sem áfallið reið yfir fjölskylduna: „Það kom til okkar á æskuheimilið prestur og hans hlutverk átti væntanlega að vera að grípa okkur á þessari erfiðu stundu. Í stað þess að gera gagn varð þessi einstaklingur eins og fíllinn í stofunni og passaði einhvern veginn ekki inn í aðstæðurnar. Það var eins og að hann kynni ekki alveg til verka; kynni ekki sálgæslu. Hann var þarna í skamman tíma og vinkona mín sem var á staðnum spottaði hvað var í gangi og bað hann bara um að fara.“ Seinna um kvöldið kom svo prestur prófastdæmisins til þeirra, en hann hafði verið upptekinn úti á landi þennan dag.

Auður og Hallgrímur á jólunum fyrir nokkrum árum. Mynd/aðsend

Heimsóknin sem varð að blessun

Auður segist hafa þurft að vinna sérstaklega úr þessari heimsókn prestsins eftir á því hún hafi orðið svo reið. „Mér hefði fundist eðlilegast og þægilegast á þessari stundu að geta leitað til einhvers sem hefði svipaða reynslu og upplifað sama áfall. Ég veit í dag að þessi maður var að sjálfsögðu bara að sinna sínu en ég þurfti að koma reiðinni í einhvern farveg. Eftir námið í sálgæslunni þakkaði ég honum samt innra með mér, í fyrirgefningarferli, fyrir að hafa komið. Hann hafði meint vel. Ég áttaði mig líka þegar ég stóð þarna á eldhúsgólfinu og hugsaði: Ég vil læra sálgæslu! Það þarf þannig fólk í svona aðstæður. Þetta hefði mér aldrei dottið í hug nema að hafa orðið fyrir þessari reynslu.“


Í námi í sálgæslu eru nemendur í sjálfsvinnu allan tímann. Þau læra kenningar og um fræðimenn og ýmsar nýtilegar aðferðir til að nota sem sálgætar. Auður segir að viðfangsefnið verði þó alltaf þau sjálf, en þau ráði þá hversu mikið þau vilji fá úr því og á hversu mikla dýpt þau fari. „Ég fór lóðbeint á dýptina því ég vildi vinna úr þessu stóra áfalli. En litlu áföllin komu líka og það var gott að vinna einnig úr þeim. Upp úr stendur þessi vinna sem þarf til að heilast. Verkefnin fylgja mér út í lífið.“

Auður ásamt Eddu Björgvinsdóttur sem „ættleiddi“ hana í náminu og á milli þeirra urðu sterk tengsl. Þarna eru þær gulklæddar í skólanum á alþjóðlegum degi tengdum meðvit­und fólks um mik­il­vægi geðrækt­ar og sjálfs­vígs­for­varna. Mynd/aðsend

Auður segir nemendahópinn hafa verið góða blöndu af fólki úr öllum áttum. Þau hafi tengst mis mikið en öll miklir gullmolar sem hafi skilið eitthvað fallegt eftir sig. „Þarna voru nokkrar eins og nokkurs konar mömmur mínar og ein þeirra var Edda Björgvinsdóttir sem nánast ættleiddi mig,“ segir hún í gamansömum tón.

Auður ásamt Önnu Lilju Másdóttur. Þær urðu mjög nánar í náminu. Mynd/aðsend

„Mér er líka svo minnisstætt í einu af þeim skiptum sem við sátum í hring í einni lotunni og máttum tjá okkur. Það var mjög mikilvægur tími með umræðum. Í það sinn gat ég ekki talað því ég grét svo mikið. Einn lagði bara hönd á mig til stuðnings. Ég hugsaði þá: Vá hvað ég er í frábærum hópi! Hér ríkir gagnkvæmt traust. Ég þurfti bara þetta rými. Þetta gerir maður ekki í hvaða námi sem er.“ 

Auður og Dóra Guðlaug Árnadóttir vinkona hennar stóðu fyrir viðburðinum Hlaupið til góðs fyrir Píeta í Himnastiganum í Kópavogi í mars. Mynd/aðsend

Tengslaþríhyrningurinn mikilvægastur

Það mikilvægasta sem Auður segist þó hafa lært var að tengjast æðri mætti. „Tengsl mín við æðri mátt höfðu verið rofin. Þessi tengslaþríhyrningur (sjálfið, annað fólk og æðri máttur) er ótrúlega magnaður og útskýrir svo margt. Ég er ekki með húðflúr en ef mig langar einhvern tímann að fá mér húðflúr, þá yrði það hann.

Við vorum alltaf í hlutverkaleikjum í náminu og lærðum því að setja okkur inn í alls kyns aðstæður. Kennsluaðferðirnar voru mjög góðar en raunveruleg dæmi sitja mest eftir. Við erum ekki fullkomin og getum rekið okkur á en gerum alltaf okkar besta. Maður lærir með reynslunni hvert maður er kominn þegar á reynir.“

Auður segist ekki hafa þörf á að tala um námið og reynslu sína nema við fólk sem skilur eða sé tilbúið að skilja út á hvað það gengur. Og það sé líka allt í lagi og það þurfi ekki allir að skilja það. „Ég upplifði á einum tímapunkti svona hugljómun þegar ég fattaði hvað það er sem ég þarf að gera til að heilast. Ég þekki marga sem ég get rætt þessi mál við og það skiptir meira máli.“

Auður fann þann fallega tilgang eftir námið að vera jafningjastuðningur fyrir fólk sem hefur orðið fyrir sama áfalli.

Að endingu minnist Auður sérstaklega á að hún hafi fundið sérstakan tilgang eftir að námi lauk - og eftir að hafa gefið sér tíma í að vinna úr öllu sem þar gerðist. Hún vill sjálf koma að gagni. „Ég vil vera jafningjastuðningur fyrir fólk sem hefur upplifað sama áfall og ég. Ég hef farið í aðstæður hjá aðstandendum nokkrum dögum eftir að sjálfsvíg átti sér stað og þar bauð ég nærveru og hlustun. Þetta gefur mér mikið til baka. Ég hef sjálf fengið jafningjastuðning á námskeiði hjá Sorgarmiðstöð.“ Hún þurfi þó að passa sjálfa sig og finna réttu tímapunktana hverju sinni.

„Eftir þetta nám finnst mér í raun allir eiga að læra sálgæslu því þetta nám er fyrir alla. Fólk þarf ekkert að vera með svakalega áfallasögu. Þetta gerir okkur bara svo gott. Sálgæsla er líka svo ofboðslega fallegt orð.“

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.
Einnig eru Píeta samtökin með símanúmerið 552-2218 og hægt er að hringja allan sólarhringinn.
Þá má mæta á neyðarmóttöku geðsviðs landspítalans og alltaf velkomið að hringja í neyðarsímann 112.

Allar nánari upplýsingar um nám í sálgæslu hjá Endurmenntun HÍ er að finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 15. maí.

Verð