Hildur Kristín Stefánsdóttir, Jóhannes Ágúst Sigurjónsson og Sóley Stefánsdóttir.
Fréttir

Algjör flýtileið fyrir þau sem vilja gefa út tónlist

Á Íslandi er gríðarlega sterk tónlistarmenning og í dag getur í rauninni hver sem er búið til tónlist. Fyrir sum eru lagasmíðar skapandi áhugamál en fyrir önnur eru þær leið til tjáningar. Á alls 33 klukkustunda, yfirgripsmikla og einstaka námskeiðinu Lagasmíðar og textagerð, öðlast þátttakendur þekkingu á lagasmíðum og innsýn í lagasmíðar starfandi tónlistarfólks. Við ræddum við kennara námskeiðsins, þau Hildi Kristínu Stefánsdóttur, Sóleyju Stefánsdóttur og Jóhannesi Ágúst Sigurjónsson.

Hildur Kristín Stefánsdóttir

Hildur er lagahöfundur, pródúser, tónlistarkona og kennari. Hún hefur unnið mikið erlendis frá sem lagahöfundur og pródúser með fjölmörgum listamönnnum á Norðurlöndunum, í Bretlandi og í Bandaríkjunum.

Hvenær og hvernig uppgötvaðir þú fyrst áhuga þinn á tónlist? 

„Ég var mjög músíkalskt barn og söng mikið svo að mamma vildi senda mig í tónlistarnám. Ég byrjaði því að læra á selló 6 ára eftir Suzuki aðferðinni. Þar byrjar maður að læra tónlist eftir eyranu en ekki nótum sem hentaði mér afskaplega vel enda fannst mér nótur leiðinlegt fyrirbæri. Ég man svo eftir að hafa byrjað almennilega að semja lög þegar ég pikkaði upp gítar heima um 15 ára aldur. Ég kenndi mér sjálf á hann með einhverri bók sem ég fann um grip og fór að henda saman lögum og texta. Ég hafði reyndar skrifað texta, sögur og ljóð á fullu frá því að ég kunni að skrifa svo að  textarnir komu eiginlega á undan lögunum en blandaðist allt saman á endanum.“

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að feta þessa braut og hvað er svona heillandi við hana?

„Að semja lög hefur verið mín stærsta ástríða síðan ég var svona 15 ára en lengst af hélt ég að ég myndi aldrei þora eða geta þetta. Það var svo röð atburða sem gerði það að verkum að ég var beðin um að vera með í hljómsveit 17 ára og þá fann ég fljótt að mér fannst þetta vera órjúfanlegur partur af mér - að búa til tónlist. Mér finnst þetta bara vera svo magnað tjáningarform sem tengir ólíklegasta fólk saman, getur breytt því hvernig manni líður á örskotsstundu og hjálpað manni í gegnum erfiða tíma.“

Hver er þín stærsta fyrirmynd í þessum bransa og hvers vegna?

„Það er erfitt að nefna eina fyrirmynd en ég myndi segja að Björk sé alltaf ein sú fyrsta sem kemur upp í hugann því að hún hefur alltaf farið sínar eigin leiðir, þvert yfir tónlistarstefnur, blandað allskonar stílum og formi af list saman en heldur sínum karakter í gegnum allt. Eftir öll þessi ár í bransanum líður mér líka eins og ég viti aldrei hvað hún gerir næst, sem er frábært.“

Hverju mega þátttakendur eiga von á?

„Ég kenni frá persónulegum stað og  hef alltaf blandað reynslusögum úr mínum ferli inn í kennsluna. Maður lærir svo ótrúlega mikið af því að vinna með mismunandi fólki og í mismunandi aðstæðum og mistökin kenna manni jafn mikið og sigrarnir. Ég reyni líka að sýna fjölbreyttar nálganir en finnst líka mikilvægt að láta fólk hugsa sjálft og mynda sér sinn stíl. Svo reyni ég líka að hrista burtu sem mest af óþarfa fyrir fram ákveðnum áhyggjum fólks því að þetta á bara að vera gaman, það er mitt mikilvægasta mottó í gegnum þetta allt.“

Á hvaða hátt er þessi námslína hagkvæm og hvernig viðhorf mælir þú með að þátttakendur taki með sér?  

„Ég held að það sé ekkert námskeið sem gefur jafn yfirgripsmikla þekkingu í laga og textasmíðum í bland við pródúseringu á Íslandi, nema maður leiti í lengri nám á háskólastigi. Kennararnir eru líka úr mjög ólíkum áttum en öll með mikla reynslu sem skilar sér í fjölbreyttri nálgun á efnið þar sem hver nemandi getur fundið hvað hentar sér. Ég mæli með að fólk labbi inn með opinn hug og sleppi því að finna fyrir fram allar ástæðurnar fyrir því að þau geti þetta sennilega ekki. Við getum öll svo miklu meira en við höldum ef við fáum réttu tólin til að hjálpa okkur.“ 

null

Jóhannes útskrifaðist er með BA-gráðu í tónlist með sérhæfingu í lagaskrifum og pródúseringu. Hann starfar nú sem Head of Audio hjá tónlistarappinu Overtune auk þess að vinna sem pródúser, lagahöfundur og kennari.

Hvenær og hvernig uppgötvaðir þú fyrst áhuga þinn á tónlist? 
„Þegar ég var pínulítill fékk ég Star Wars þríleikinn á VHS í gjöf frá afa og fékk tónlistina eftir John Williams alveg á heilann. Ég fékk líka tónlistina svo á geisladisk og spilaði alveg fram og til baka þar til ég kunni öll stefin utan að. Þar kviknaði áhuginn á tónlist svona fyrst. Svo þegar ég var orðinn aðeins eldri hlóð ég niður Homework plötunni með Daft Punk á iPodinn minn. Við það kviknaði fyrst áhuginn á pródúseringu og ég byrjaði að fikta í forritum að reyna að endurskapa hljóðin.“

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að feta þessa braut og hvað er svona heillandi við hana?

„Hjá mér er það helst forvitni sem drífur mig áfram, það er svo skemmtilegt að finna út hvað fær ólíkar tónlistarstefnur til að smella. Mér finnst langskemmtilegast að fá verkefni sem er lengst utan við þægindarammann. Þessa dagana er ég að vinna að tónlist fyrir heimildaþætti um íslenskt sveitalíf. Þá þurfti ég t.d. hella mér í það að læra á banjó og slide-gítar sem var virkilega skemmtilegt.“

Hver er þín stærsta fyrirmynd í þessum bransa og hvers vegna?

„Erfitt að benda á einhvern einn en mér finnst geggjað hvernig sænski snillingurinn Ludwig Göransson getur tæklað allt frá soulful R&B yfir í big budget kvikmyndatónlist. Það er oft talað um í þessum bransa að maður þurfi að finna einhvern einn hlut til að skara fram úr, hvort sem það er ákveðinn tónlistarstíll eða þá hljóðblöndun eða gítarleikur. Mér finnst mjög áhrifamikið að sjá einhvern tækla svona mörg ólík verkefni og negla líka hvert og eitt þeirra svona framúrskarandi vel.“

Hverju mega þátttakendur eiga von á?

„Þátttakendur munu alveg pottþétt koma sjálfum sér á óvart. Síðast þegar við héldum námskeiðið voru margir sem uppgötvuðu nýjar víddir í tengslum við sína eigin tónlistarsköpun. Við förum yfir svo víðan völl á þessu námskeiði, allt frá laga og textasmíðum yfir í pælingar varðandi upptökur, pródúseringu og hljóðblöndun. Þegar fólk fær smá start í að kynna sér allar þessar mismunandi hliðar tónlistarsköpunar þá opnar það oft á nýjar tengingar í ferlinu.“

Á hvaða hátt er þessi námslína hagkvæm og hvernig viðhorf mælir þú með að þátttakendur taki með sér?  

„Það er svo mikið af hidden talenti hjá fólki sem er að semja heima en endar svo bara með alla tónlistina sína óútgefna. Á námskeiðinu reynum við að þekja sem allra flesta fleti sem valda nýjum höfundum óvissu í ferlinu, allt frá því að skrifa texta, í upptökur, hljóðblöndun, "masteringu" og útgáfu. 

Í ár erum við með nýja viðbót við lagasmíðadaginn okkar sem er hluti af námskeiðinu. Á lagasmíðadeginum semja þátttakendur eigin lög í litlum hópum og í ár munu hóparnir einnig fá tækifæri til að taka upp og pródúsera lögin í stúdíói með leiðsögn og kynna sér þannig allan helsta hljóðversbúnaðinn í leiðinni. Eftir það verður Hildur meira að segja með kennslu varðandi næstu skrefin eftir að lag er tilbúið, sem sagt dreifing, útgáfa, styrkir og fleira. Þannig þetta er algjör flýtileið fyrir þau sem hafa áhuga á því að gefa út eigin tónlist.“

null

Sóley er tónskáld og lagahöfundur, útskrifuð af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá gefið út fjölmargar plötur og verk sem hlotið hafa bæði verðlaun og viðurkenningar. Síðustu tólf ár hefur Sóley ferðast um heiminn til að flytja tónlist sína en kennir einnig tónsmíðar/lagasmíðar við Listaháskóla Íslands og Menntaskólann í tónlist.

Hvenær og hvernig uppgötvaðir þú fyrst áhuga þinn á tónlist? 

„Ég byrjaði í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þegar ég var fjögurra ára og lærði á píanó í mörg ár. Ég var líklega hinn týpíski nemandi til að byrja með, æfði mig samviskusamlega en ég var ekki með brennandi áhuga á klassískum píanóleik. Ég byrjaði svo í lúðrasveit á slagverk, bróðir minn var þar og pabbi minn var stjórnandi og þar kynntist ég vinum mínum sem eru enn mínir bestu vinir í dag. Á unglingsaldri veittum við lúðrasveitarvinirnir hvoru öðru svo mikinn innblástur, það skipti svo miklu máli á þessum tíma að eiga vini sem deildu sama áhugamáli og ég. Við stofnuðum hljómsveitir og hlustuðum á allskonar tónlist, tókum strætó í Reykjavík á jazztónleika á Ömmukaffi og vorum almennt bara mjög vandræðalegir tónlistarnördar!“

 Hvað varð til þess að þú ákvaðst að feta þessa braut og hvað er svona heillandi við hana?

„Í rauninni hugsaði ég aldrei um hvað ég ætlaði að verða, það kom svo náttúrulega... Vinir mínir, ferðirnar í 12 tóna þar sem ég sat niðri í kjallara og hlustaði á indí plötur, fór á alla tónleika sem ég gat í miðborg Reykjavíkur. Ég vildi bara sökkva mér í þennan heim. Ég get ekki verið án þess að skapa, þetta er heilandi ferli og það eru forréttindi að fá að vinna við tónlist í dag.“

Hver er þín stærsta fyrirmynd í þessum bransa og hvers vegna?

„Ég á margar fyrirmyndir fyrir mismunandi sköpunarleiðir. Ein ástæða þess að ég fór að semja sjálf var þegar ég heyrði í tónlistarkonunni Joanna Newsom. Hún var svo öðruvísi og framúrstefnuleg inní þessu hefðbundna söngvaskáldaformi, bæði tónlistin hennar, textar og raddbeitingin. Annars koma upp í huga mér Joni Mitchell, Kate Bush, FKA twigs. Í tilraunakenndari tónlist eru Grouper, Pauline Oliveros, Kali Malone, Eartheater... til að nefna nokkrar. Ég er líka mjög inspíreruð af öðrum listgreinum einsog kvikmyndum og bókmenntum. Ég er örugglega með þráhyggju fyrir David Lynch en Yorgos Lanthimos, Robert Eggers eru líka á toppnum meðal annars. Uppáhalds íslenski rithöfundurinn minn er Bergþóra Snæbjörnsdóttir, hún er svo djörf og nornaleg. Í mínu tilfelli er ekki alltaf sem tónlist inspírerar tónlist heldur þykir mér mikilvægt að sækja hugmyndir úr mörgum áttum.“

Hverju mega þátttakendur eiga von á?

„Yfirgripsmiklu námskeiði þar sem talað er um tónlist, lagasmíðar og pródúksjón á áhugaverðan hátt. Þátttakendur fá með sér allskonar verkfæri í lok námskeiðs sem þeir geta haldið áfram að hugsa um tónlist, semja eða bara hugsa skapandi.“

Á hvaða hátt er þessi námslína hagkvæm og hvernig viðhorf mælir þú með að þátttakendur taki með sér?  

„Þetta námskeið hentar öllum sem langar að dýfa sér ofan í lagasmíðar og pródúksjón. Fólk sem á lög ofan í skúffu en hefur ekki í sér að klára þau. Ég held einnig að þetta námskeið gæti hentað tónlistarkennurum mjög vel til að fá skapandi hugmyndir í sína kennslu.“ 

Nánari upplýsingar og skráning á þetta einstaka námskeið finnurðu með því að smella hér.

Verð