null
Fréttir

Ætlar að opna leikskóla fyrir fullorðna

Thelma Björk Jónsdóttir, jóga- og textílkennari hjá Hjallastefnunni, er fertug móðir þriggja drengja, 2, 4 og 12 ára. Eins og gefur að skilja er ávallt líf og fjör í kringum hana. „Ég fæ lítinn frið þegar ég er heima. Einn daginn var ég í sturtu og sturtuhengið klesstist upp við mig og ég öskraði yfir mig af pirringi og reif það af mér. Þá hugsaði ég hvað ég væri til í að skutla sjálfri mér á leikskóla, fá að gera allt sem er skemmtilegt og leika mér í friði. Þar yrði einhver sem segði mér að hvíla mig og fá eitthvað gott að borða. Leikskóli fyrir fullorðið fólk!“

Þetta var fyrir um tveimur árum og síðan þá hefur Thelma sankað að sér ýmsum upplýsingum um hvað er gott að borða, skemmtilegt að gera o.s.frv. „Mig hafði lengi langað að gera eitthvað í þessari hugmynd. Svo formaðist hún svo fallega í náminu í jákvæðri sálfræði hjá EHÍ með öllum þessum skemmtilegu kennurum og öllu sem ég var að lesa.“

Thelma segir að rannsakað hafi verið hvað það hefur mikil áhrif á andlega og líkamega líðan að halda leiknum áfram sem fullorðið fólk. „Það er svo margt lífsbætandi sem gerist þegar við leikum okkur og hlæjum, gerum kjarkæfingar og fíflumst. En vegna þess að við erum svo upptekin í daglegum hlutverkum okkar þá þurfum við að fá þetta rými og leyfi til þess.“

Thelma telur að leikskóli fyrir fullorðna yrði tilvalin viðbót í flóru þess sem fólk getur valið sér til að kúpla sig frá, hvort sem það er tvítugt eða áttrætt. Þetta snúist líka um félagslegu hliðina og vera hluti af hópi. Og hún er sko ekkert að grínast neitt með þetta því hún stefnir ótrauð á að opna svona leikskóla og er m.a. með þessu viðtali að koma hugmyndinni út í kosmósið. „Fyrirtæki gætu fjárfest í nokkrum dögum á ári fyrir starfsfólk þar sem það sem fólk fer í leikskólann. Kannski yrði hægt að fá uppáskrifað hjá lækni að koma og jafnvel þetta yrði hluti af uppbyggjandi úrræðum hjá VIRK. Hægt yrði að kaupa allt frá stökum degi upp í árskort og tékka sig inn ef það er laust pláss. Sjáið þið ekki fyrir ykkur vini segja hver við annan: Ég fer í leikskólann á föstudag, kemur þú líka?“

Kulnun, ofurkonan og þriðja vaktin

Thelma hefur í starfi sínu í leikskóla og grunnskóla Hjallastefnunnar fengið hugmyndir í umhverfinu og reynslan þaðan hjálpað til. Hún segir að miðað við rannsóknir sem jákvæð sálfræði horfi til með jákvæð inngrip og fræðin tengd leikskólakennslu, þá geri það svo mikið fyrir okkur á fullorðinsárum að gleyma okkur í leik. „Kulnun er algeng meðal fólks á mínum aldri, ofurkonan, 3. vaktin og allt það. Við leggjum okkur varla nema að vera skipað það. Því er svo mikil þörf fyrir að kunna að kúpla sig frá, hlæja og fara úr fyrir þægindarammann.“

Hvernig myndi Thelma lýsa umhverfi leikskólans og starfinu þar? „Umhverfið yrði nálægt náttúru, í Öskjuhlíðinni eða nálægt fjöru eða skógi. Ekki á efstu hæð í Skeifunni! Það yrði líka jákvætt ef fólk þyrfti að keyra smá spöl út úr kraðakinu. Aðgengi yrði gott fyrir fólk í hjólastólum og með göngugrind. Þarna yrði matur, hvíld með jóga nidra og heilun. Skapandi flæði og kjarkur. Tækifæri fyrir fólk að tengjast sjálfu sér, núllstilla sig, finna hvað það virkilega langar að gera. Öruggt svæði til að leika sér og fara svo aftur í hlutverkin sín. Símar yrðu geymdir í hólfum á meðan. Fólk kæmi að sjálfsögðu sjálfviljugt og á eigin vegum, hvort sem það er labbandi, hjólandi, með strætó eða akandi. Fólki má finnast þetta skrýtið og fyndið og hlæja bara að því. Það er endalaust hægt að vinna með þetta.“

Thelma ítrekar að það eru sterk fræði sem styðja við þessa hugmynd. „Ég brenn fyrir þetta og verð að gera þetta. Hugmyndin hefði aldrei litið dagsins ljós ef ég hefði ekki farið í nám í jákvæðri sálfræði. Það var akkúrat það sem mig vantaði inn í mitt líf. Það gerast töfrar þarna sem erfitt er að útskýra. Eins tryllt og þessi hugmynd er þá tel ég ágætis grundvöll fyrir henni. Að einblína á allt það sem er gott og gaman án þess að afneita því sem er í gangi hverju sinni. Heimurinn er betri en við höldum og gleði getur orðið að vana. Hversu frábært er það?“

Endurmenntun Háskóla Íslands vekur athygli á að umsóknarfrestur í nám í jákvæðri sálfræði hefur verið framlengdur til 25. júní og hér er að finna allar upplýsingar um þetta skemmtilega og nýtilega nám.

Verð