Valmynd
Síðan árið 2018 hefur Árnastofnun valið orð ársins á grundvelli þeirra gagna sem stofnunin safnar um málnotkun og var orð ársins 2023 gervigreind. Skyldi engan undra, því hún flæðir um allt á samfélagsmiðlum, víða í fjölmiðlum og var m.a. notuð við gerð síðasta áramótaskaups RÚV. Eins og með allar tækninýjungar þykir betra að kynnast þeim og læra um þær í stað þess að líta á þær sem óvin sem tekur af okkur störf. Hjá Endurmenntun HÍ er í boði nú á vormisseri metnaðarfullt námskeið sem nefnist Hagnýtar gervigreindarlausnir og við tókum tali kennara námskeiðsins, Corey Scott Harpe og Sverri Heiðar Davíðsson, en báðir starfa þeir sem sérfræðingar hjá Veitum.
Þó rekja megi sögu gervigreindar aftur til 5. áratugar síðustu aldar náði hún miklum árangri á 10. áratugnum og á fyrstu árum 21. aldar. Þá var gervigreind tekin upp í öllum tækniiðnaði þar sem hún leysti erfiðustu viðfangsefnin í flutningafræðum, gagnagreftri, sjúkdómsgreiningum og á mörgum fleiri sviðum. Þótt gervigreind eigi heima innan tölvunarfræðinna á hún skurðpunkta við ótal greinar. Síðan þá hefur hún heldur betur sótt í sig veðrið og er orðin mjög sýnileg og mörgum mikilvæg.
Hvers vegna er mikilvægt að fólk í sem flestum geirum kynni sér gervigreind?
Sverrir Heiðar: Gervigreind, og þá sérstaklega tól eins og ChatGPT, er að gerbreyta því hvernig við vinnum og er ekki bara fyrir einhver tækniséní. Þetta er einstaklega fjölnota tól sem getur gagnast fólki í nánast hverju sem er. Þetta á eftir að hafa áhrif á alla geira, það er bara spurning um hvenær. Þau sem byrja að tileinka sér þessa tækni strax munu hafa forskot þegar hún mætir með fullum krafti á þeirra svið.
Corey: Gervigreindin er að umbreyta öllum geirum, ekki bara tæknigeiranum. Skilningur á gervigreind gerir þér kleift að vera á undan straumnum og örva vöxt og nýsköpun á þínu sviði, hvort sem það er í landbúnaði, menntun, ferðaþjónustu eða öðru. Við viljum svipta hulunni af gervigreindinni og gera hana aðgengilega á þann veg að hún bæti samfélagið. Bráðlega mun gervigreindin knýja allt frá heilbrigðiskerfinu til fjármálageirans. Með skilningi á gervigreind mun fagfólk í öllum geirum uppgötva tækifæri til að bæta hagkvæmni og örva nýsköpun.
Hvað viljið þið segja við þau sem hræðast gervigreindir og að þær taki smám saman við störfum og verkefnum þeirra? Stafræna byltingin.
Sverrir Heiðar: Ég get skilið hræðsluna mjög vel, því ný og byltingarkennd tækni hefur yfirleitt í för með sér breytingar á störfum margra og gervigreindin er sennilega engin undantekning þar. Það eru gífurleg tækifæri sem fylgja gervigreindinni ef við erum opin fyrir því að vinna með henni, eins og samstarfsmanni, frekar en á móti henni, eins og mótherja. Ég er bjartsýnn og held að hún muni frekar breyta og bæta störf flestra en að fjarlægja þau alveg.
Corey: Það er óttinn hið óþekkta. Frekar en að fjarlægja störf þá veldur gervigreind oft breytingum á þeim og gerir þau áhrifameiri. Stafræna byltingin snýst ekki um að koma í stað okkar heldur að auka getu okkar. Hugsið um hana frekar sem öflugan samherja eða óendanlegan hóp samvinnufúsra sérfræðinga - innan seilingar. Við viljum kenna fólki að vinna samhliða gervigreindinni á þann hátt sem eykur hæfni þeirra og sköpunargáfu til að undirbúa það fyrir framtíð þar sem við erum leiðtogar gervigreindarinnar og óttumst hana ekki.
Þið fjallið um ábyrga notkun á námskeiðinu. Hvers vegna er slíkt mikilvægt og hvað hefur heimurinn rekið sig á með það til að læra af?
Sverrir Heiðar: Í raun er ábyrg notkun á gervigreind að mörgu leyti eins og ábyrg notkun á annarri tækni, þá sérstaklega tækni á netinu. Það skilja flest hvers vegna við setjum ekki allar upplýsingar á netið og það sama gildir um gervigreind. Ábyrg notkun þýðir líka að vera hreinskilin með það hvenær og hvernig við notum gervigreind og margir eru að brenna sig á þessu atriði í dag. Það er ekki hægt að treysta öllu sem gervigreindin segir, rétt eins og með það sem maður les á netinu og það er ennþá verið að finna út úr því hve mikið er í lagi að nota í vinnu og skóla af því sem ChatGPT gefur okkur.
Corey: Eftir því sem gervigreindin verður öflugri verður siðferðisleg notkun hennar mikilvægari. Námskeiðið okkar leggur áherslu á ábyrga notkun gervigreindar og við sjáum til þess að þátttakendur séu upplýstir um það vald og þær gildrur sem fylgja tækninni og taki þannig skynsamlegar ákvarðanir með henni. Ábyrg notkun gervigreindar er í grunninn ekkert frábrugðin ábyrgri notkun annarrar tækni á borð við leitarvélar, samfélagsmiðla, snjallsíma, o.s.fv. Þessi nálgun er mikilvæg til að tryggja að gervigreind sé notuð á uppbyggjandi hátt sem virðir bæði réttindi einstaklinga og gildi samfélagsins.
Í námskeiðslýsingu kemur m.a. fram að þátttakendur læri að nota gervigreindarlausnir til að fást við raunveruleg vandamál á áhrifaríkan hátt. Getið þið nefnt dæmi?
Sverrir Heiðar: Kennarar gætu notað ChatGPT til að gera sérsniðið námsefni, verkefni, próf eða jafnvel við að yfirfara svör nemenda og gefa ítarlega endurgjöf fyrir nemendur á mjög stuttum tíma. Fólk sem vinnur við markaðssetningu getur notað ChatGPT til að greina hegðun viðskiptavina á markaðinum eða gera sérsniðnar auglýsingarherferðir fyrir ákveðinn markhóp. Lögfræðingar gætu notað ChatGPT til að fara hratt yfir mikið magn af lesefni eða lögum til að draga úr tímanum sem það tekur til að finna viðeigandi upplýsingar fyrir hvert mál. Hönnuðir og listamenn geta nota ChatGPT til að leika sér með frumlegar hugmyndir og hannanir eða jafnvel skrifa handrit með lítilli vinnu til að flýta fyrir sköpunarferlinu.
Corey: Í mínu starfi hef ég til dæmis notað gervigreind til að leysa verkefni með sérhæfðum hugbúnaði sem ég hafði enga fyrri reynslu af. Mér tókst að búa til heila vefsíðu og mælaborð í kringum gögn sem ég vildi gera aðgengilegri, þrátt fyrir enga reynslu í vefforritun. Með gervigreind geta sérhæfðir sérfræðingar fljótlega orðið þúsundþjalasmiðir. Námskeiðið okkar kennir slíkar hagnýtar gervigreindarlausnir og gefur þátttakendum hæfnina til að fást við raunverulegar áskoranir á eigin sviði.
Allar nánari upplýsingar og skráning á námskeiðið eru hér.
Sjá annað námskeið um gervigreind.