null
Fréttir

Afmælisráðstefna Ásthildar Bj. Snorradóttur

Það var þétt setið á afmælisráðstefnu í tilefni 70 ára afmælis Ásthildar Bj. Snorradóttur, talmeinafræðings, sem haldin var í Endurmenntun síðastliðinn föstudag. Ásthildur hefur kennt hin geysivinsælu TRAS námskeið hjá Endurmenntun í fjölda ára og er ötul talskona fyrir snemmtækri íhlutun þegar kemur að málþroska barna. Hún er höfundur fjölda kennslugagna í málörvun og vinsælu barnabókanna um Bínu bálreiðu. Einnig er hún meðhöfundur að skimunarprófinu; Leið til læsis, Tölum saman-málörvunarkerfi, Ljáðu mér eyra- undirbúningur fyrir lestur og handbókinni: Snemmtæk íhlutun í málörvun tveggja til þriggja ára barna. Dagskrá ráðstefnunnar var einmitt eins konar ferðalag um ævi og störf Ásthildar en af tæplega 20 fyrirlestrum dagsins fjallaði mikill meirihluti um þróunarverkefni í íhlutun vegna málþroska sem Ásthildur hefur komið að. Færri komust að en vildu á ráðstefnuna enda langaði mörgum að taka þátt í að fagna Ásthildi og hennar magnaða ferli.

Ráðstefnustjóri var Ingibjörg Einarsdóttir, formaður Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn og óhætt er að segja að fyrirlesarar dagsins hafi staðið sig með sannri prýði. Líflegar umræður sköpuðust á milli fyrirlestra og stemningin var áþreifanleg þar sem gestir hvöttu hvor aðra til dáða í sínum verkefnum. Allur ágóði af ráðstefnunni rann til BUGL.

Við óskum Ásthildi hjartanlega til hamingju með afmælið og áfangann og hlökkum til að vinna áfram með henni á komandi misserum.

Verð