Facebook Pixel
Staðnámskeið

Líkið í lestinni - söguleg sigling Esjunnar 1945

Gefðu gjafabréf hjá Endurmenntun HÍ: Upplifun sem gleður og eflir þann sem þiggur!

Mið. 8., 15. og 22. apríl kl. 19:00 - 21:30 (3x)

6 klst.

Jón Karl Helgason

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 32.900 kr.
Snemmskráning til og með 29. mars. Almennt verð er 36.200 kr.
Námskeið

Á námskeiðinu er fjallað um ferð strandferðaskipsins Esju frá Reykjavík til Kaupmannahafnar og Gautaborgar sumarið 1945. Markmiðið var að flytja heim Íslendinga sem dvalið höfðu í Skandinavíu og Þýskalandi á stríðsárunum. Höfuðathygli beinist að sex farþegum á leiðinni utan eða út, þ.e. Steini Steinarr, Edith Guðmundsson, Jóni Helgasyni, Brynhildi Georgíu Björnsson, Svavari Guðnasyni og Sibil Kamban. Saga þeirra endurspeglar andstæða þætti í íslensku menningarlífi og samtímapólitík.

Sigling strandferðaskipsins Esju til finnska bæjarins Petsamo haustið 1940 er vel þekkt, en þá komst heim með skipinu stór hópur Íslendinga sem voru að flýja ófriðarbálið í Evrópu. Hliðstæð sigling Esjunnar til Kaupmannahafnar og Gautaborgar 1945 hefur ekki notið sömu athygli en markmiðið var áþekkt; að flytja heim fjölda Íslendinga sem höfðu orðið innlyksa í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og víðar á stríðsárunum. Íslensk stjórnvöld skipulögðu ferðina og bar íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn hita og þunga af framkvæmdinni. Meðal þekktra farþega heiman eða heim voru atómskáldið Steinn Steinarr, tónskáldið Jón Leifs, handritafræðingurinn og skáldið Jón Helgason, gagnnjósnarinn Ib Riis, blaðamaðurinn Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Theresía Guðmundsson verðandi veðurstofustjóri, frú Edith Guðmundsson (fædd Black), listmálarinn Svavar Guðnason og unglingsstúlkan Brynhildur Georgía Björnsson. Hún var dóttir liðsmanns í Waffen SS-sveit nasista og barnabarn forseta Íslands. Fimm farþegar sem komnir voru um borð í skipið í Kaupmannahöfn voru handteknir áður en það lagði af stað heim, þar á meðal Ólafur Pétursson sem hafði starfað sem uppljóstrari fyrir Þjóðverja í Noregi. Líkamsleifar leikskáldsins Guðmundar Kambans, sem var skotinn til bana af dönskum frelsisliðum á friðardaginn í Kaupmannahöfn 5. maí, voru í lest skipsins. Þar voru reyndar einnig um þrjátíu abstraktmálverk sem Svavar listmálari hengdi upp í Listamannaskálanum í Reykjavík seinna um sumarið. Sú sýning er talin marka tímamót í íslenskri listasögu. Í námskeiðinu verður ljósi varpað á sögu þessara og fleiri farþega og hið spennuþrungna andrúmsloft stríðstímans sem kallast með ýmsum hætti á við samtíma okkar.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Líf og örlög Íslendinga í Danmörku og Noregi á árum síðari heimsstyrjaldar.
  • Strandferðaskipið Esju sem samfélag í hnotskurn.
  • Afurðir lista- og menntafólksins sem sigldi heiman eða heim með Esjunni 1945.

Ávinningur þinn

  • Þekking á hugmyndaheimi og fagurfræði íslenskra listamanna á umbrotatímum Evrópu.
  • Innsýn í margbrotin pólitísk átök milli Þýskalands, Danmerkur og Íslands um miðja síðustu öld.
  • Skilningur á strandferðaskipinu sem heimi í heiminum.

Fyrir hverja

Námskeiðið hentar öllum þeim sem hafa áhuga á seinni heimsstyrjöldinni og menningarsögu 20. aldar. Þátttakendum ber ekki skylda til að lesa þau verk sem fjallað er um í námskeiðinu, en ítarefni verður miðlað til hópsins með rafrænum hætti.

Nánar um kennara

Jón Karl Helgason er bókmenntafræðingur og prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands en starfar nú tímabundið á skrifstofu embættis forseta Íslands. Hann hefur um árabil unnið að rannsóknum á íslenskri menningarsögu 20. aldar, einkum umbrotatímunum í kringum síðari heimsstyrjöld. Meðal útgefinna verka hans eru Ferðalok (2003), Mynd af Ragnari í Smára (2009), Ódáinsakur (2013) og Sögusagnir (2019).

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Líkið í lestinni - söguleg sigling Esjunnar 1945

Verð
32900