Staðnámskeið

Offitumeðferð - einstaklingurinn í forgrunni

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Fim. 27. nóv. kl. 13:00 - 16:00

3 klst.

Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 26.900 kr.
Snemmskráning til og með 18. nóvember. Almennt verð er 29.600 kr.
Námskeið

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á hagnýta þætti og mikilvægi þverfaglegrar og einstaklingsmiðaðrar nálgunar í meðferð við offitu. Farið verður yfir uppvinnslu og stigun sjúkdómsins, leiðir til þess að ræða og veita ráðleggingar um mataræði og hreyfingu, uppvinnslu á átröskunum og áfallasögu og hvenær þörf er á því að vísa í sérhæfð úrræði.

Offita er flókinn og margþættur langvinnur sjúkdómur. Um 27% fullorðinna Íslendinga lifa með offitu en mjög einstaklingsbundið er hversu alvarlegur sjúkdómurinn er og hversu mikil áhrif hann hefur á heilsu og lífsgæði. Fordómar gagnvart einstaklingum með offitu eru algengir, bæði í samfélaginu en einnig meðal heilbrigðisstarfsfólks. Þetta getur haft áhrif á það hvort einstaklingar með offitu leiti sér aðstoðar innan heilbrigðiskerfisins. Oft er heilbrigðisstarfsfólk ómeðvitað um sína fordóma eða það hvernig sjúklingurinn sem leitar sér aðstoðar upplifir viðmót og ráðleggingar sem veittar eru. Í meðferð offitu er mikilvægt að nálgast skjólstæðinginn af virðingu, bjóða upp á samtal um þyngdina, skilgreina vandamál og markmið hvers og eins, byggja ráðleggingar á faglegum grunni, greina og meðhöndla fylgisjúkdóma, fara yfir sálfélagslega þætti og þekkja ábendingar fyrir sérhæfðri offitumeðferð. 

Þar sem mikil umræða hefur verið um offitufordóma upplifa margir heilbrigðisstarfsmenn óöryggi og veigra sér jafnvel við því að ræða og ráðleggja einstaklingum sem lifa með offitu.

Farið verður yfir greiningu og stigun offitusjúkdómsins, hvernig best er að hefja umræðu um þyngd og veita grunnráðgjöf varðandi næringu, virkni og hreyfingu. Einnig verður á einfaldan hátt skýrt frá því hvernig skimað er fyrir átröskunum og alvarlegum áföllum í æsku (e. adverse childhood events) en átraskanir og áfallasaga vega þungt í þróun sjúkdómsins og vali á meðferð hjá einstaklingum með offitu. Skoðað verður hvaða sálfélagslegu þættir hafa áhrif á þróun sjúkdómsins. Farið verður gróflega yfir þá sérhæfðu þjónustu sem er í boði fyrir einstaklinga með offitu og hvaða ábendingar og frábendingar eru fyrir slíkri þjónustu.

Veitt verða einföld og hagnýt ráð til þess að auka öryggi og þekkingu heilbrigðisstarfsfólks sem hittir einstaklinga með offitu í sínu daglega starfi.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Greiningu og stigun offitu.
  • Einstaklingsmiðaða og heildræna nálgun á offitusjúkdómnum.
  • Hvenær á að vísa í þriðja stigs (sérhæfða) þjónustu.

Ávinningur þinn

  • Að öðlast aukið öryggi í viðtalstækni og ráðleggingum vegna offitu.
  • Að þekkja greiningarskilmerki og stigun sjúkdómsins.
  • Að geta skimað fyrir átröskunum og áfallasögu.
  • Að vita hvenær er þörf á sérhæfðri meðferð við offitu.

Fyrir hverja

Starfsfólk í heilbrigðisgeiranum.

Aðrar upplýsingar

Ekki er þörf á því að hafa með sér fartölvu en sent verður út fræðsluefni mánuði fyrir námskeiðið sem gott er að hafa lesið yfir áður en tekið er þátt.
Einnig er vísað í klínískar leiðbeiningar um meðferð við offitu sem ítarefni:

Klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu

Treatment goals are improved health and quality of life, not a number on a scale

Nánar um kennara

Ábyrgðarmaður námskeiðs: Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir, yfirlæknir, PhD, aðjúnkt.

Fyrirlesarar eru í þverfaglegu meðferðarteymi efnaskipta og offitusviðs Reykjalundar.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Offitumeðferð - einstaklingurinn í forgrunni

Verð
26900