Valmynd
Fjöldi góðra gesta fagnaði 40 ára afmæli Endurmenntunar Háskóla Íslands þegar hátíðarhöld fóru fram í húsnæðinu að Dunhaga 7. Frumkvöðlar að stofnun Endurmenntunar voru heiðraðir við sérstaka hátíðarathöfn. Tónlistarkonurnar Elín Ey og DJ Dóra Júlía sáu um ljúfa tóna á hátíðinni. Eftir athöfnina tók við afmælisveisla þar sem starfsfólk og gestir áttu ánægjulega stund og rifjuðu upp mikilvæga tíma í sögu Endurmenntunar.
Auk Höllu Jónsdóttur Endurmenntunarstjóra fluttu hátíðarræður þau Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Guðríður Þorsteinsdóttir lögfræðingur, fyrrverandi framkvæmdastjóri BHM og skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu og Guðmundur Magnússon, fyrrverandi prófessor í hagfræði og rektor Háskóla Íslands árin 1979-1985.
Frumkvöðlar fengu afhentan þakklætisvott fyrir sitt framlag til starfs Endurmenntunar:
Arnlaugur Guðmundsson Tæknifræðingur og fyrrverandi formaður endurmenntunarnefndar TFÍ
Guðbrandur Steinþórsson Verkfræðingur og fyrrverandi rektor Tækniskólans
Guðmundur Magnússon Fyrrverandi prófessor í hagfræði og rektor HÍ 1979-1985
Guðríður Þorsteinsdóttir Lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri BHM
Kristján Thorlacius Fyrrverandi framhaldsskólakennari og fulltrúi Hins íslenska kennarafélags
Margrét S. Björnsdóttir Fyrsti starfsmaður Endurmenntunar og forstöðumaður fyrstu 16 árin
Oddur B. Björnsson Verkfræðingur og fyrrverandi formaður menntamálanefndar Verkfræðingafélags Íslands
Þorsteinn Helgason Prófessor emeritus við menntavísindasvið HÍ og fyrrverandi fulltrúi Hins íslenska kennarafélags
Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor á Hugvísindasviði, flutti heiðursgestum ávarp fyrir hönd stjórnar Endurmenntunar HÍ.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. flytur hátíðaaræðu.
Halla, Jón Atli og Oddný í forgrunni í Námu.
Merkileg saga
Frumkvæðið að starfsemi Endurmenntunar kom úr atvinnulífinu, nánar tiltekið frá Tæknifræðingafélagi Íslands. Félagið hafði verið að halda námskeið fyrir sitt fólk með ærinni fyrirhöfn og hófu að kanna möguleika á að stofna til samstarfs við önnur félög háskólamanna um endurmenntun og úr varð að Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands og Hið íslenska kennarafélag auk BHM, Háskóla Íslands og Tækniskólans undirrituðu í lok árs 1982 samstarfssamning um sameiginlega endurmenntunarnefnd. Markmiðið með starfseminni var:
1. Að sinna þörfum starfandi háskólamanna fyrir endurmenntun með námskeiðum, fræðslufundum og útgáfustarfsemi. Í samvinnu og samráði við hlutaðeigandi deildir, námsbrautir og stofnanir Háskólans og Tækniskólans svo og viðkomandi félög háskólamanna.
2. Að sinna fræðslu fyrir almenning eftir því sem aðstæður leyfa og í samráði við aðila samnings.
Margrét S. Björnsdóttir félagsfræðingur var ráðin til starfa fyrir Endurmenntunarnefnd sumarið 1983. Stjórn starfseminnar var skipuð af Háskólaráði og í henni sátu 10 aðilar - 5 úr Háskóla Íslands og 5 frá öðrum aðilum skv. tilnefningum þeirra. Kennsla hófst í húsnæði HÍ við Nóatún 17 svo haustið 1983 og fyrsta námskeiðið var Tölvur og gagnavinnsla. Starf endurmenntunarnefndar vatt fljótt upp á sig. Þátttakendur á námskeiðum fyrsta haustið voru 64, árið eftir um 600 og árið 1990 voru þátttakendur um 3000.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og Guðmundur Björnsson, fyrrum rektor HÍ.
Nýtt nafn og ör þróun símenntunar
Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands varð sem slík með lagabreytingu árið 1991 og starfsmenn fjórir. Fyrsta húsnæðið var að Nóatúni 17 þar til starfsemin var flutt í nýbyggðan Tæknigarð á Háskólasvæðinu árið 1987 og síðar í núverandi húsnæði við Dunhaga 7.
Að jafnaði starfa um 20 manns hjá Endurmenntun HÍ og kennsla í gangi í húsinu flesta daga og kvöld, einnig laugardaga. Endurmenntun býður sem fyrr upp á fjölbreytt námsframboð; lengra og styttra nám, starfstengt nám og fræðslu fyrir almenning, fjarnám og staðnám. Árið 2022 stunduðu um 600 manns nám á 7 námsbrautum. 5400 manns sóttu um 300 námskeið í fyrra sem alls 373 kenndu í samstarfi við Endurmenntun.
Segja má að markaðurinn sem Endurmenntun starfar á hafi umbylst á síðustu árum. Tækniþróunin hefur gjörbreytt því hvernig við lærum og hvernig við kennum.Stuðningur atvinnulífs og stéttarfélaga við símenntun er meiri en áður, námsformið er orðið fjölbreyttara og kröfur fólks um val eru miklar. Þessar breytingar hafa haft í för með sér sprengingu í framboði sí- og endurmenntunar af ýmsu tagi.
Staða Endurmenntunar HÍ í dag er best lýst í hluta ræðu Höllu Jónsdóttur Endurmenntunarstjóra:
„Við lítum svo á að við höfum það hlutverk að bæta samfélagið, ekki bara með því að efla þekkingu hæfni fólks heldur einnig með því að tengja fólk og skapa tækifæri. Það er enn eftirspurn eftir því að koma saman og læra og samfélagið þarf á því að halda að enn sé boðið upp á slíkan vettvang. Um leið og við færum nám og ýmislegt annað í tölvuna og símana er okkur tíðrætt um einmanaleika, einangrun og samskiptavanda samfélagsins. Þetta er allt eitt stórt samhengi. Hjá Endurmenntun ætlum við klárlega að hlusta á kröfur um aðgengi að námi fyrir öll á þeim tíma sem hentar og þeim stað sem hentar. En við ætlum líka að halda áfram að vera vettvangur tengsla, samveru og samtals þegar það á við. Það er mikilvægur liður í okkar framlagi til betra samfélags.“
Forsíðumyndin er af forstöðukonum Endurmenntunar frá upphafi; Margréti S. Björnsdóttur, Höllu Jónsdóttur og Kristínu Jónsdóttur Njarðvík.
Hér eru svo nokkrar myndir frá hátíðinni, en fleiri myndir má finna á Facebook síðu og Instragtam síðu Endurmenntunar HÍ.
Elín Ey tónlistarkona.
DJ Dóra Júlí.a.
Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, verkefnastjóri hjá Endurmenntun, Edda Björgvinsdóttir, leikkona, kennari og eilífðarstúdent hjá Endurmenntun og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, kennari hjá EHÍ og annar eigenda AUKI. Edda vakti mikla lukku með ræðu í veislunni.