Sumarúrræði stjórnvalda
Í maí veittu stjórnvöld Íslands menntastofnunum styrki upp á hálfan milljarð króna til sumarnáms sem sérstaklega er ætlað ungum námsmönnum og þeim sem misstu atvinnu sína í Covid-19 faraldrinum. Endurmenntun leitaði til síns frábæra kennarahóps og sett var upp fjölbreytt dagskrá fyrir sumarið sem samanstendur af eininganámskeiðum, hagnýtum námskeiðum og undirbúningsnámskeiðum fyrir þá sem stefna á að hefja nám á háskólastigi.
Eininganámskeiðin eru tvö, Inngangur að ferðamálafræði og Ferðamennska og umhverfi og eru sérstaklega hentug fyrir þá sem hyggjast fara í grunnnám í Ferðamálafræði við HÍ eða sækja um Leiðsögunám á háskólastigi hjá Endurmenntun. Hvort námskeið gildir 8 ETC einingar á grunnstigi háskólanáms fyrir þá sem hyggjast nýta þau fyrir áframhaldandi nám. Hins vegar eru þau einnig kjörin fyrir alla þá sem starfa í ferðaþjónustu og vilja kynna sér samspil ferðamennsku og umhverfis og hægt er að sitja þau án eininga. Bæði námskeið fara alfarið fram í fjarnámi og eru fyrirlestrar ýmist í upptökur eða haldnir í rauntíma og teknir upp um leið svo að þeir séu aðgengilegir á kennsluvef að tíma loknum.
Hagnýtu námskeiðin eru 30 talsins eins og er en sífellt er verið að bæta í úrvalið. Kennir þar ýmissa grasa og sem dæmi má nefna Jákvæð sálfræði og styrkleikaþjálfun (Coaching) - nýttu styrkleika þína á nýjan hátt, Verkefnastjórnun fyrir sjálfstætt starfandi eldhuga og Hlaðvarp - nýtt tæki í fjölmiðlun og markaðssetningu. Hagnýtu námskeiðin eru hugsuð til þess að bæta við þekkingu og kunnáttu þátttakenda svo að þeir séu betur undirbúnir fyrir nýjar áskoranir á vinnumarkaðnum.
Að lokum eru í undirbúningsnámskeiðin þrjú, Upprifjunarnámskeið í stærðfræði fyrir nýnema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Akademísk vinnubrögð og Aðfaranám í almennri efnafræði.
Við hvetjum áhugasama að kynna sér allt framboð sumarsins hér að neðan!