Fréttir

Náðu forskoti á atvinnumarkaðnum

Náðu forskoti á atvinnumarkaðnum

Covid faraldurinn hefur haft mikil og langvarandi áhrif á samfélagið það sem af er ári og fyrir marga hefur það þýtt óvænt atvinnuleysi á sérlega erfiðum tímum. Eins er óvenju mikil samkeppni í atvinnuleitinni þar sem framboð starfa annar ekki eftirspurn umsækjenda. En tækifærin leynast víða og getur þetta verið góður tími fyrir atvinnuleitendur að bæta við sig þekkingu og kunnáttu til að koma ferilskránni sinni efst í bunkann. Einstaklingar á skrá hjá Vinnumálastofnun eiga nú rétt á menntastyrk sem hægt er að nýta til að sækja námskeið og einnig eiga margir enn inni sjóð hjá sínu stéttarfélagi sem nýst getur í símenntunartilgangi.

Hjá Endurmennun er að finna fjölda starfstengdra námskeiða sem eru sérstaklega hönnuð til að hjálpa þátttakendum að ná betri árangri á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Í bæklingnum Fyrir starfið sem Endurmenntun gaf út nýlega má finna ríflega 120 fjölbreytt námskeið sem eru vís til að koma sér vel fyrir þá sem þurfa að ná forskoti á atvinnumarkaðnum. Til að mynda er hægt að ná betri færni í ýmsum forritum eins og Powerpoint, Excel, Trello og Outlook. Fyrir þau sem vilja vinna í markaðssetningu á netinu getur verið gott að kunna grunnatriði í Wordpress, hvernig best er að skrifa stutta texta fyrir kynningar og tölvupósta eða jafnvel hvernig hægt er að nýta hlaðvörp í starfi. Námskeiðin um verkefnastjórnun eru sívinsæl, hvort sem þau snúast um fyrstu skrefin, Agile verkefnastjórnun eða hvernig gera á verkefnisáætlanir. Ekki síst er svo mikilvægt að þjálfa upp góð samskipti og öflugt sjálfstraust svo að hægt sé að mæta krefjandi aðstæðum af öryggi.

Við hvetjum alla sem horfa fram á óvissu í atvinnumálum að kynna sér þetta fjölbreytta framboð námskeiða þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og séð fram á bjartari tíma.    

0