Fréttir

Hádegisfyrirlestrar í samkomubanni

Hádegisfyrirlestrar í samkomubanni

Þegar samkomubann var sett á þann 12. mars var ljóst að starfsemi Endurmenntunar yrði með óhefðbundnu sniði þetta vormisseri og þurftu nemendur, kennarar og starfsfólk að aðlaga sig að breyttum aðstæðum á örskömmum tíma. Sömu sögu var að segja um flesta landsmenn og vikurnar eftir að samkomubannið var sett á voru mörgum þungar. Furðulegt andrúmsloft lá yfir samfélaginu og í tilraun til að létta lundina fékk Endurmenntun Eddu Björgvins., leikkonu og gleðigjafa, til að halda stuttan hádegisfyrirlestur sem sendur var út í beinni þriðjudaginn 24. mars. Edda hvatti okkur til að halda í jákvæðnina, gleðina og ekki síst húmorinn á þessum óvissutímum sem við erum öll að upplifa saman og náði hún að hughreysta marga sem áttu erfitt með að losa um kvíðahnútinn í maganum. Fyrirlestur Eddu fékk frábærar viðtökur þar sem rúmlega 5000 manns fylgdust með útsendingunni og greinilegt var að þetta framtak hafði vakið mikla lukku. Í kjölfarið höfðum við samband við nokkra af okkar frábæru kennurum sem slógu til og héldu fimm hádegisfyrirlestra í viðbót og var sá síðasti sendur út 5. maí, daginn eftir að afléttingar á samfélagsbanni hófust.

Viðfangsefni fyrirlestranna voru margvísleg en áttu það sameiginlegt að vera nátengd hræringunum í samfélaginu og upplifun fólks af nýjum aðstæðum á tímum Covid-19.

Kristín Tómasdóttir, sálfræðingur, fór yfir spaugilegu hliðarnar á einangrunardvöl kjarnafjölskyldunnar en hún var sett í sóttkví með fjölskyldu sinni við heimkomu úr skíðaferð til Austurríkis. Þar reyndi oft á þolrifin og margir tengdu við frásögn Kristínar af tilraunum fjölskyldunnar til að halda sönsum í fordæmalausum kringumstæðum. Emilía Borgþórsdóttir, iðnhönnuður, gaf frábær ráð um „ferðalagið innanhúss“ fyrir páskana þegar Víðir yfirlögregluþjónn gaf okkur öllum fyrirmæli um að vera sem mest heima við í fríinu. Áhorfendur fengu nýja sýn á gömul rými og Emilía sýndi okkur að oft geta litlar breytingar gert stóra hluti fyrir heimilið. Efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldsins eru engum dulin og sjaldan hefur verið jafn mikilvægt fyrir einstaklinga að auka fjármálalæsi sitt og geta tekið fjármál heimilisins föstum tökum. Í sínum fyrirlestri opnaði Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka, á bókhald heimilanna og fór yfir valmöguleika einstaklinga til sparnaðar, lánatöku og sérúrræða sem boðið er upp á núna til að létta undir heimilunum.

Í tveimur síðustu fyrirlestrunum var horft inn á við og minnti Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur, okkur á hversu mikilvægt það er að hlúa að andlegri heilsu þegar utanaðkomandi aðstæður eru ekki í okkar eigin höndum. Hægt er að auka lífsgæði og þrautsegju á þessum erfiðu tímum með því að taka meðvitaða ákvörðun um að leggja rækt við þá þætti sem við höfum stjórn á frekar en að reyna að stjórna því sem verður ekki haggað. Að lokum kynnti Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur, hugmyndafræði og verkfæri jákvæðrar sálfræði í samvinnu við Embætti landlæknis. Dóra Guðrún lauk fyrirlestrarröðinni okkar með frábærum ráðum um hvernig við getum haft áhrif á okkar eigin hamingju, styrkt sköpunargáfuna og ónæmiskerfið með jákvæðu hugarfari og ekki síst leyft okkur að upplifa allar þær margvíslegu tilfinningar sem hrærast innra með okkur, jafnvel þótt þær séu erfiðar.

Starfsemi Endurmenntunar er nú að færast aftur yfir í eðlilegt horf og á sama tíma er samfélagið byrjað að jafna sig hægt og rólega á uppróti síðustu vikna. Baráttunni við kórónuveiruna er þó hvergi lokið og margir eru enn uggandi yfir komandi tímum. Við hvetjum því alla til að gefa sér tíma í að horfa á þessa frábæru fyrirlestra þar sem jákvæðni og bjartsýni var höfð að leiðarljósi en þeir eru nú aðgengilegir á Youtube síðu Endurmenntunar HÉR

0