

Valmynd
Mán. og mið. 1. nóv. - 15. nóv. kl. 19:30 - 21:30 (5x)
Sæunn Þórisdóttir, ritstjóri.
Gestakennari: Ásdís Káradóttir, rithöfundur.
Endurmenntun, Dunhaga 7.
Ertu með skáldverk í skúffunni? Eða kannski í kollinum? Hvort sem það er enn á hugmyndastigi, hálfklárað eða fullklárað þá gæti þetta verið námskeið fyrir þig. Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig vinna má áfram með ritverk og hugmyndir að ritverkum á ýmsum stigum og draga þau upp úr skúffunni með það að markmiði að fullvinna þau.
Farið verður yfir ritstjórnarferlið og hvað þarf að hafa í huga við skrif á ólíkum textum. Einnig verður farið yfir praktíska hluti varðandi útgáfu á pappír annars vegar og hljóðbóka hins vegar. Þá fá þátttakendur tækifæri til að skila inn stuttum texta og fá ritstjórn. Eftir að þátttakendur hafa skoðað ábendingar og innlegg frá ritstjóra og fengið tíma til að vinna með þær verða breytingarnar skoðaðar og ræddar í síðasta tímanum. Gestakennari á námskeiðinu er Ásdís Káradóttir, rithöfundur og hjúkrunarfræðingur, en hún mun fara yfir ýmsar leiðir til að losa um ímyndunaraflið og ritstíflur.
Hvernig hugmynd eða handrit getur orðið að bók.
Hvernig losa má um ritstíflur og hömlur.
Hvað þarf að hafa í huga áður en haft er samband við útgáfu.
Hvernig hægt er að gefa út sjálf/ur/t.
Hvernig er best að skrifa fyrir hljóðbók.
Hvað ritstjóri gerir fyrir höfunda og hvernig samstarf þeirra er.
Hvað felst í umbroti og hönnun.
Leiðsögn og hvatning til að skrifa og skoða óútgefin skáldverk.
Innsýn í ritstjórnarferli og hvað ritstjóri getur gert fyrir höfund.
Hjálplegar aðferðir til að losa um ímyndunaraflið og hugsanlegar ritstíflur.
Betri innsýn í þau skref sem þarf að taka til að koma verki í útgáfu.
Námskeiðið er fyrir alla sem hafa gaman af því að skrifa og vilja hvatningu til að halda áfram, hvort sem þeir hafa skrifað og eiga óútgefin verk eða langar að skrifa með það í huga að gefa út verk sín.
Sæunn er með MA-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í almennri bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein. Hún starfar sem bókaritstjóri og hefur aðstoðað höfunda við sjálfsútgáfur. Svo prófarkahlustar hún og ritstýrir fyrir Storytel. Sæunn hefur starfað við ýmislegt í gegnum árin. Hún stofnaði m.a. Glætan Bókakaffi sem var rekið við Laugaveg á árunum 2008-2014.
Gestakennari: Ásdís Káradóttir MA í ritlist, BA í bókmenntafræði, hjúkrunarfræðingur með framhaldsnám í sálgæslu og Jóga Nidra kennsluréttindi. Sæunn og Ásdís eru samstarfskonur í Klíó skrif og ritstjórn.
Gott að hafa með sér tölvu til að skrifa hjá sér eða bara blað og penna. Bækur sem vitnað er í á námskeiðinu eru m.a. On Writing eftir Stephen King, Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir Haruki Murakami og Eiginkona Bipolar 2 eftir Elínu Konu Eddudóttur.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.
<span class="fm-plan">Ertu með skáldverk í skúffunni? Eða kannski í kollinum? Hvort sem það er enn á hugmyndastigi, hálfklárað eða fullklárað þá gæti þetta verið námskeið fyrir þig. Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig vinna má áfram með ritverk og hugmyndir að ritverkum á ýmsum stigum og draga þau upp úr skúffunni með það að markmiði að fullvinna þau.</span>