

Valmynd
Mið. 6. mars - 24. apríl kl. 17:00 - 19:00 (6x) Ekki kennt 27. mars og 3. apríl.
Jón Karl Helgason, bókmenntafræðingur og prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
Endurmenntun, Dunhaga 7.
Á námskeiðinu er fjallað um Unuhús og þau áhrif sem gestir þess höfðu á íslenskt lista- og menningarlíf, einkum á fimmta áratug síðustu aldar. Í hópnum voru bókaútgefandinn Ragnar í Smára, listmálararnir Nína Tryggvadóttir, Þorvaldur Skúlason og Louisa Matthíasdóttir, bókmenntapáfinn Sigurður Nordal og skáldin Þórbergur Þórðarson, Steinn Steinarr og Halldór Laxness. Tímabilið markaðist af tilraunum íhaldssamra stjórnmálaafla til að halda aftur nýjungum á sviði bókmennta og lista en einnig sterkum ástríðum róttæks listafólks í lífi og starfi.
Á fyrstu áratugum 20. aldar var heimili Unu Gísladóttur og sonar hennar Erlendar Guðmundssonar í Reykjavíkur dýrmætt athvarf róttækra ungra listamanna, þar á meðal Þórberg Þórðarson og Stefán frá Hvítadal. Mikilvægi Unuhúss fyrir íslenska menningarsögu óx á árum síðari heimsstyrjaldar þegar stjórnmálaskörunginn Jónas Jónsson frá Hriflu beitti sér gegn módernískum áhrifum í íslenskri myndlist og vaxandi bókaútgáfu vinstri manna. Halldór Laxness, Ragnar Jónsson í Smára, Sigurður Nordal, Steinn Steinarr og Þorvaldur Skúlason voru í fararbroddi þeirra sem tóku slaginn við Jónas en þeir áttu jafnframt samleið með tveimur ungum listakonum, Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur. Þær voru nýkomnar úr námi í Kaupmannahöfn og París og voru, líkt og karlarnir, tíðir gestir í Unuhúsi.
Á námskeiðinu beinist athyglin að þessum hópi lista- og menntafólks og verkum þess, þar með talið portrettum Þorvaldar, Nínu og Louisu af öðrum í hópnum og nýstárlegum myndabókum sem þau unnu að í samstarfi við Stein. Einnig verða til umfjöllunar tvö skáldverk sem varpa ljósi á fagurfræðileg og pólitísk átök samtímans, leikritið Uppstigning eftir Sigurð Nordal, sem fjallar um samband pokaprests við róttæka myndlistarkonu, og skáldsagan Atómstöðin eftir Halldór Laxness sem er tileinkuð minningu Erlendar. Hann lést árið 1947 en nokkrum árum fyrr hafði Ragnar í Smára, útgefandi umræddra verka, eignast Unuhús. Námskeiðið verður sambland fyrirlestra, umræðna og vettangsferða.
Þátttakendur eru hvattir til að kynna sér þau verk sem til umræðu eru og taka þátt í að endurskapa það andrúmsloft sem ríkti þegar gestirnir í Unuhúsi skeggræddu hernámið, ástandið, kommúnisma, klessumálverk og atómljóð.
Listalífið í Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldar og þau pólitísku og fagurfræðilegu átök sem mótuðu það.
Sögu Unuhúss og hlutverk húsráðenda í íslenskri menningarsögu.
Ævi og hugmyndaheim lista- og menntafólksins sem hittist í Unuhúsi.
Þekking á samstarfi og persónulegum tengslum íslensks mennta- og listafólks á umbrotatímum í íslenskri sögu og bókmenntum.
Innsýn í skáldverk, myndabækur og málverk sem tengjast Unuhúsi og nýjum alþjóðlegum straumum innan listasögunnar.
Skilningur á hlutverki bakhjarla eins og Erlendar Guðmundssonar og Ragnars í Smára fyrir listafólk og skáld.
Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á íslenskri bókmennta- og menningararfleifð.
Jón Karl Helgason er bókmenntafræðingur og prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur um árabil unnið að rannsóknum á íslenskri menningarsögu 20. aldar, einkum umbrotatímunum í kringum síðari heimsstyrjöld. Meðal útgefinna verka hans eru Ferðalok (2003), sem fjallar einum þræði um Atómstöðina, Mynd af Ragnari í Smára (2009), sem varpar ljósi á samskipti forleggjarans við helstu listamenn samtímans og Sögusagnir (2019) þar sem leikritið Uppstigning ber m.a. á góma.
Ef verður leyfir verður leitast við að fara í eina eða tvær vettvangsferðir á áfangastaði sem fjallað er um klukkustund áður en formleg kennsla hefst. Gangan er létt og hægt að keyra að upphafsstað.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.
<span class="fm-plan">Á námskeiðinu er fjallað um Unuhús og þau áhrif sem gestir þess höfðu á íslenskt lista- og menningarlíf, einkum á fimmta áratug síðustu aldar. Í hópnum voru bókaútgefandinn Ragnar í Smára, listmálararnir Nína Tryggvadóttir, Þorvaldur Skúlason og Louisa Matthíasdóttir, bókmenntapáfinn Sigurður Nordal og skáldin Þórbergur Þórðarson, Steinn Steinarr og Halldór Laxness. Tímabilið markaðist af tilraunum íhaldssamra stjórnmálaafla til að halda aftur nýjungum á sviði bókmennta og lista en einnig sterkum ástríðum róttæks listafólks í lífi og starfi.</span>