Valmynd
Mán. 12. og þri. 13. júní kl. 9:00 - 16:00
Umsjón: Þórunn Jónasdóttir
Kennari: Eyþór Eiríksson og Bjarnheiður Kristinsdóttir
Haldið í Menntaskólanum í Kópavogi, Digranesvegur 51, 200 Kópavogur
Í samstarfi við Flöt - samtök stærðfræðikennara
Segja má að eitt meginmarkmið stærðfræðikennara sé að hvetja nemendur til að hugsa. Þó virðist stærðfræðikennsla oft festast í ákveðnu hjólfari þar sem hugsun, skilningur, umræður og rökræður eiga sér lítinn sem engan stað. Að komast upp úr þessu hjólfari getur reynst kennurum flókið og jafnvel ómögulegt. Á þessu námskeiði verður skoðað hvernig hægt sé að byggja upp ný viðmið sem krefjast hugsunar með því að notast við kennslunálgunina hugsandi kennslurými.
Hugsandi kennslurými er rými þar sem hugsun er í fyrirrúmi, rými þar sem nemendur vinna saman að verkefnum sem eru hönnuð til að byggja upp skilning á nýjum hugtökum og hugmyndum, rými þar sem nemendur leita skilnings í gegnum samræður við samnemendur og kennara. Til að skapa aðstæður sem þessar hafa Peter Liljedahl og félagar við Simon Fraser háskólann í Kanada þróað aðferðir eða eins konar verkfærakistu með verkfærum sem kennarar geta beitt til að brjóta niður þau viðmið sem kennarinn og nemendur hafa vanist og byggt upp hugsandi kennslurými.
Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að þátttakendur upplifi kennslunálgunina. Þátttakendur taka sjálfir þátt í verkefnavinnu í anda hugsandi kennslurýmis og læra á eigin skinni fyrstu skrefin til að byggja upp slík rými. Í þeirri vinnu kynnast þátttakendur jafnframt þrautalausnum sem þeir geta nýtt í eigin kennslu. Lögð verður áhersla á umræður og vangaveltur í tengslum við þessa vinnu. Einnig munu fara fram hefðbundnari fyrirlestrar um rannsóknir og rökstuðning á bakvið kennslunálgunina.
Hvernig kennari byggir upp hugsandi kennslurými.
Hvaða rannsóknir liggja að baki kennslunálguninni.
Hvers konar verkefni henta fyrir kennslunálgunina og hvar þau megi finna.
Hvaða ávinningur hlýst af þessari kennslunálgun.
Að kynnast aðferðum sem beita má í eigin kennslu til að stuðla að hugsun bæði nemenda og kennara.
Að kynnast þrautalausnum sem hægt er að nýta í eigin kennslu.
Kynnast öðrum kennurum sem hafa áhuga á og eru eða ætla að byggja upp hugsandi kennslurými.
Framhaldsskólakennara og kennara á öðrum skólastigum, ef pláss leyfir.
Námskeiðið er starfandi framhaldsskólakennurum í að minnsta kosti 50% starfi, að kostnaðarlausu en aðrir greiða 45.000 kr. Þeir sem óska eftir því að sækja námskeiðið á sinn kostnað eru beðnir um að skrá það í athugasemdir og greiðsluhlekkur frá PEI verður sendur á það farsímanúmer og netfang sem gefið er upp við skráningu.
Bjarnheiður Kristinsdóttir útskrifaðist með BSc-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún útskrifaðist með MSc-gráðu í hagnýtri stærðfræði frá TU Bergakademie Freiberg árið 2008 og lauk doktorsprófi í stærðfræðimenntun frá Háskóla Íslands árið 2021. Hún hefur margra ára kennslureynslu, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Þar hefur hún notast við sem og kennt um hugsandi kennslurými.
Eyþór Eiríksson útskrifaðist með BSc-gráðu í stærðfræði og stærðfræðimenntun frá Háskóla Íslands árið 2019. Hann úskrifaðist með MSc-gráðu í menntun framhaldsskólakennara þar sem meistararitgerð hans var starfendarannsókn um hugsandi kennslurými (sjá https://skemman.is/handle/1946/41403). Hann hefur unnið sem stærðfræðikennari við Menntaskólann í Kópavogi frá 2020 þar sem hann notast við hugmyndafræði hugsandi kennslurýmis.
Félagar í Fleti - samtökum um stærðfræðikennslu geta sótt um styrk til Flatar fyrir að lágmarki 50% námskeiðsgjalds. Nánari upplýsingar veitir Þórunn Jónasdóttir á námskeiðinu sjálfu.
Leiðbeiningar vegna sumarnámskeiða og upplýsingar um endurgreiðslu á ferða- og gistikostnaði þátttakenda utan af landi vegna þátttöku á sumarnámskeiðum má finna á heimasíðu RANNÍS: HÉR
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.
<span class="fm-plan">Segja má að eitt meginmarkmið stærðfræðikennara sé að hvetja nemendur til að hugsa. Þó virðist stærðfræðikennsla oft festast í ákveðnu hjólfari þar sem hugsun, skilningur, umræður og rökræður eiga sér lítinn sem engan stað. Að komast upp úr þessu hjólfari getur reynst kennurum flókið og jafnvel ómögulegt. Á þessu námskeiði verður skoðað hvernig hægt sé að byggja upp ný viðmið sem krefjast hugsunar með því að notast við kennslunálgunina hugsandi kennslurými.</span>