

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Mið. 28. jan. - 18. mars kl. 10:00 - 12:00 (8x)
Torfi H. Tulinius
Endurmenntun Háskóla Íslands
Grettir Ásmundarson hefur löngum verið Íslendingum hugleikinn. Hann á stóran sess í þjóðtrúnni og mörg merkustu skáld þjóðarinnar hafa leitast við að skilja eðli þessa útlæga ógæfumanns og skírskotun hans til þjóðarsálarinnar. Fyrir Matthíasi Jochumssyni var Grettir táknmynd Íslendinga eins og segir í Grettisljóðum: „Þú ert Grettir, þjóð mín“.
Gleggstu myndina, og jafnframt þá margræðustu, fáum við í Grettis sögu sem er ein lengsta og merkasta saga sem samin var hérlendis á miðöldum. Sagan hefur verið talin frá byrjun 14. aldar en gæti verið allt að því heilli öld yngri, því elstu handrit hennar eru frá því í byrjun 15. aldar. Hvort heldur sem er, þá er hún í hópi yngstu Íslendingasagna. Hún er því í senn afurð sígildrar sagnaritunar 13. aldar, afkvæmi verka eins og Egils sögu og Brennu-Njáls sögu, en um leið vísar hún veginn inn í annars konar bókmenntir, þar sem hið yfirnáttúrulega skipar stærri sess og gegnir öðru hlutverki en í fyrri sögum.
Sagan hefst með frásögnum um forfeður Grettis, einkum langafa hans Önund tréfót, og lýkur á ævintýrum bróður hans, Þorsteins drómunds. Önundur var eignamaður í Noregi en barðist gegn Haraldi hárfagra og missti annan fótinn. Hann var síðbúinn landnámsmaður á Íslandi og „hreppti Kaldbak en lét akra“ eins og hann kvað um sjálfur. Glæsimennið Þorsteinn drómundur ferðaðist alla leið til Konstantínópel til að hefna Grettis, lenti í myrkvastofu en var frelsaður þaðan af tignarkonunni Spes og með þeim tókust ástir. Meginhluti sögunnar segir þó frá ógæfumanninum Gretti. Hann er kappi mikill, stór og myndarlegur og nýtur ástríkis frá móður sinni en sambandið við föðurinn er stirt. Þrátt fyrir óstýrilæti í æsku, reynist hann brátt hinn mesta hetja, hreinsar byggðir af berserkjum og híðbjörnum. Lykilatburður í sögu Grettis eru átök hans við afturgönguna Glám. Þótt hann hafi ráðið niðurlögum hennar leggur hún á hann að hann verði myrkfælinn og allt muni þaðan af snúast til verri vegar fyrir honum. Skömmu síðar er hann dæmdur saklaus í útlegð og fer um landið í nærri tuttugu ár, lifir á ránum og gripdeildum, en fellur að lokum fyrir óvini sem beitir fjölkynngi til að sigrast á hetjunni miklu.
Grettla er tilkomumikil örlagasaga manns sem bjó yfir miklum hæfileikum en bar ekki gæfu til að þroska þá eins og efni stóðu til. Sögusviðið er Noregur, Konstantínópel og Ísland, ekki síst hinar dularfullu óbyggðir landsins þar sem útlaginn leitar skjóls á heiðum úti, í jökuldölum og á eyðieyju, en þarf jafnframt að kljást við margvíslega óvini, oftar en ekki af yfirnáttúrulegum toga.
Sagan inniheldur merkilegan skáldskap sem eignaður er Gretti. Enn fremur býr hún yfir mikilli sálrænni dýpt. Grettir er flókin persóna og á námskeiðinu verður gerð tilraun til að varpa nýju ljósi á hann með hliðsjón af sálfræðikenningum nútímans, ekki síst áfallafræðum sem fleygt hefur fram á síðustu árum.
Námskeiðið er ætlað öllu áhugafólki um sögu og bókmenntir. Tilvalið fyrir kennara á öllum skólastigum, leiðsögufólk og aðra sem tengjast menningartengdri ferðaþjónustu.
Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við HÍ. Hann hefur skrifað bækur og greinar um íslenskar fornbókmenntir og kennt á fjölmörgum námskeiðum við Endurmenntun HÍ.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.