

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Mán. og mið. 29. sept. - 15. okt. kl. 16:15 - 19:15 (6x)
Harpa Katrín Gísladóttir
Guðrún Bergsteinsdóttir
Lilja Lind Pálsdóttir
Einar Þór Jónsson
Endurmenntun Háskóla Íslands
Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem eru að huga að því að ljúka starfsævi, eru að minnka við sig vinnu eða eru þegar hættir á vinnumarkaði.
Þetta eru stór tímamót í lífi fólks sem fela í sér endalok en einnig nýtt upphaf. Á þessu námskeiði verður lagt upp úr því að taka fagnandi á móti því sem koma skal og farið í leiðir til að gera næsta skeið að besta tímabili ævinnar. Markmið námskeiðs er að þátttakendur læri leiðir til að auka vellíðan, hamingju, gleði og bjartsýni. Jafnframt er fjallað um hagnýt atriði líkt og fjármál, lífeyris- og erfðamál. Aukin þekking gefur betri yfirsýn og öryggi þannig að auðveldara er að aðlaga sig að breyttu lífsmynstri.
Einar Þór Jónsson fjallar um mildi og gleði þriðja æviskeiðs, að komast í flæði og viðhalda lífsorku og áhuga. Fjallað er um forsendur jákvæðs hugarfars sem auka þakklæti, húmor og auka grósku hugans.
Lilja Lind Pálsdóttir fjallar um fjármál við starfslok. Farið verður, á einföldu og skýru máli, yfir reglur vegna skerðingar hjá Tryggingastofnun, lífeyrisréttindi og séreignarsparnað og þá möguleika sem í boði eru, ásamt því að skoða þann sveigjanleika sem er í boði við starfslok.
Guðrún Bergsteinsdóttir fjallar um erfðamál.
Harpa Katrín Gísladóttir fjallar um leiðir til að takast á við sálrænan vanda og byggja upp innihaldsríkt líf. Stuðst er við aðferðir ACT (Acceptance and Commitment Therapy).
Námskeiðið hentar fólki sem er að ljúka sinni starfsævi og vill vanda næstu skref í lífinu. Starfslok eru tímamót þar sem einu skeiði er að ljúka og nýtt að hefjast. Þetta námskeið er fyrir fólk sem vill fagna þessu nýja æviskeiði með ásetningi um að gera það gott og innihaldsríkt.
Allir velkomnir sem hafa áhuga á innihaldsríku lífi og góðri heilsu. Engin þörf á neinum undirbúningi öðrum en „Hverjar eru mínar væntingar til námskeiðsins?“
Gott er að skoða lífeyrisréttindin sín fyrir þriðja tíma námskeiðs.
Einar Þór Jónsson lauk námi í trésmíði frá Iðnskólanum á Ísafirði, þroskaþjálfanámi frá Kennaraháskóla Íslands og meistaranámi í lýðheilsu- og kennslufræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur einnig lokið diplómu á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun HÍ. Einar hefur áralanga reynslu af kennslu, námskeiðs- og fyrirlestrahaldi.
Guðrún Bergsteinsdóttir starfar sem lögmaður hjá LOCAL lögmönnum. Guðrún er cand. jur frá Háskóla Íslands, lögmaður með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi og Landsrétti, með mastersgráðu í Evrópurétti, verðbréfamiðlari og sáttamiðlari.
Harpa Katrín Gísladóttir starfar sem sjálfstætt starfandi sálfræðingur hjá Grænuhlíð - fjölskyldumiðstöð, auk þess sem hún hefur haldið ýmis námskeið í gegnum tíðina.
Lilja Lind Pálsdóttir, viðskipta- og hagfræðingur, þekkir vel til lífeyrismála en hún hefur verið með ráðgjöf og fræðslu í lífeyrismálum til fjölda ára. Um langt skeið hefur hún haldið kynningar og námskeið á lífeyrisréttindum fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir. Hún hefur einnig setið í fræðslunefnd Landssamtaka lífeyrissjóða. Í dag starfar Lilja Lind sem sérfræðingur hjá Íslandsbanka auk þess sem hún vinnur að verkefnum á sveitastjórnarstigi.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.