

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Þri. 23. sept. kl. 14:00 - 16:30 (fjarkennsla), þri. 30. sept. kl. 14:00 - 17:00 (staðkennsla) og þri. 7. okt. kl. 14:30 - 16:00 (fjarkennsla).
Páll Torfason
Tryggvi Thayer
Endurmenntun Háskóla Íslands
Gervigreind er mikið í umræðunni og sífellt fleiri nýta hana í daglegu lífi og starfi – menntakerfið er þar engin undantekning.
Á þessu námskeiði lærir þú um gervigreind og hvernig þú getur nýtt hana í kennslu á skapandi, ábyrgan og árangursríkan hátt. Kennslan er hagnýt og lögð er rík áhersla á samvinnu og samstarf. Þú kynnist verkfærum sem einfalda undirbúning, kennslu og námsmat, sem styður við markvissa og skapandi kennsluhætti.
Þátttakendur kynnast skapandi gervigreind (e. generative AI) á borð við ChatGPT og hvernig þeir geta eflt eigið gervigreindarlæsi til þess að hámarka notagildi gervigreindar í eigin kennslu og starfi en einnig hvernig þeir geta eflt gervigreindarlæsi nemenda sinna.
Námskeiðið byggir á stuttum erindum kennara með hagnýtum dæmum. Þátttakendur spreyta sig einnig á verkefnum tengdum notkun gervigreindar í námi og kennslu bæði ein og í hópum undir handleiðslu kennara.
Dagskrá:
Upphafsfyrirlestur (fjarkennsla) – Þriðjudagur 23.9. kl. 14:00 - 16:30
Innlögn og verklegt nám (2,5 klst.) þar sem þátttakendur kynnast gervigreindarlæsi og hvaða þýðingu það hefur fyrir þá sjálfa og nemendur. Þátttakendur vinna saman í hópum í netumhverfi með verkefni sem ætluð eru að veita þeim djúpa innsýn í hvernig gervigreind virkar og hvernig heppilegast er að nýta hana til að hámarka gagnsemi og gæði afurða.
Þátttakendur kynnast einnig siðferðilegum og samfélagslegum álitamálum tengd gervigreind og leiðir til að takast á við þau.
Staðkennsla og verklegar æfingar – Þriðjudagur 30.9. kl. 14:00 - 17:00
Páll leiðir staðkennslu þar sem þátttakendur fá hagnýta kynningu á helstu gervigreindartólum og taka þátt í verklegum æfingum.
Lokafundur (fjarkennsla) – Þriðjudagur 7.10. kl. 14:30 - 16:00
Lokafundurinn fer fram á netinu og hægt er að taka þátt frá vinnustað. Þátttakendur kynna lokaverkefni sem þeir hafa unnið saman og deila þekkingu.
Námskeiðið hentar kennurum á öllum skólastigum, allt frá leikskóla til háskóla, sem og skólastjórnendum, náms- og starfsráðgjöfum, kennaranemum og öðru fagfólki í menntakerfinu. Engar sérstakar forkröfur eru gerðar um tæknikunnáttu – áhugi á að nýta nýja tækni í kennslu er allt sem þarf.
Þátttakendur þurfa að koma með eigin tölvu á námskeiðið. Við reiknum með því að þátttakendur séu sjálfbjarga þegar kemur að tölvuvandamálum sem tengjast ekki notkun á ChatGPT. Mikilvægt er að þátttakendur séu búnir að ganga frá skráningu og kaupum á áskrift að ChatGPT fyrir námskeiðið því ekki gefst nægur tími á meðan námskeiðinu stendur til að aðstoða þátttakendur við slíkt. Einungis þarf að kaupa sér mánaðar áskrift.
Tryggvi Thayer, Ph.D. er aðjunkt í upplýsingatækni, nýsköpun og miðlun á Menntavísindasviði HÍ. Tryggvi hefur næstum 3ja áratuga reynslu af skólaþróunarmálum. Hann hefur starfað við Menntavísindasvið HÍ í 12 ár þar sem hann hefur haft umsjón með starfsþróunarverkefnum fyrir kennara á sviði upplýsingatækni í námi og kennslu, alþjóðlegum rannsóknum og þróunarstarfi á sviði menntunar og kennslu í upplýsingatækni og nýsköpun í skólastarfi. Rannsóknir Tryggva snúast fyrst og fremst um framtíð náms og skólastarfs með tilliti til tækniþróunar þar sem gervigreind hefur komið töluvert við sögu bæði fyrir og eftir þeirri tæknibyltingu sem hófst 2022 með tilkomu ChatGPT.
Páll Ásgeir Torfason hefur yfirgripsmikla þekkingu á stafrænum umbreytingum innan menntakerfisins og innleiðingu tæknilausna í skólastarfi. Hann gegnir stöðu sem leiðtogi stafrænnar þróunar hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og hefur unnið á öllum skólastigum að stafrænni umbreytingu, breytingastjórnun og nýtingu tækni til að efla námsupplifun. Páll hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum tengdum stafrænum lausnum í skólastarfi. Þá hefur hann einnig lagt sitt af mörkum við stefnumótun og innleiðingu lausna sem nýta gervigreind í menntun.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.