

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Þri. 19. ágúst kl. 9:00 - 13:00 (staðkennsla) og 2. sept. kl. 9:00 - 10:00 (fjarfundur)
Benedikta Sörensen
Endurmenntun Háskóla Íslands
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist hagnýta færni og þekkingu á ofbeldisforvörnum. Þátttakendur læra að nýta sér áhorfendanálgun (bystander approach) á forvarnir gegn ofbeldi hvort sem er í skólastarfi, æskulýðsstarfi eða öðru hópastarfi.
Fjallað verður um rannsóknir á ofbeldisforvörnum, ofbeldi, ofbeldisfullri orðræðu og mikilvægi þess að breyta menningu til að fyrirbyggja ofbeldi. Námskeiðið miðar að því að miðla hagnýtri þekkingu og kunnáttu. Kynntar verða einfaldar nálganir, verkefni og umræðukveikjur til að auka sjálfstraust og getu til að bregðast við í erfiðum aðstæðum og ofbeldi á öruggan hátt. Þátttakendur læra bæði að nýta sér nálgunina í eigin viðbrögðum og að leiða barna- og ungmennahópa í gegnum efnið.
Í skólum landsins fara daglega fram forvarnir gegn ofbeldi m.a. í formi samskiptakennslu, væntumþykju og utanumhalds. Börnum og unglingum sem líður vel, eru í öruggu umhverfi og eru fær í samskiptum eru ólíklegri til að beita ofbeldi. Sértækari ofbeldisforvarna er þó einnig þörf. Fagfólk í starfi með börnum hefur undanfarið bent á aukið ofbeldi barna og unglinga sem og ákveðið úrræðaleysi til að takast á við vandann.
Áhorfendanálgun (bystander approach) er einföld og áhrifarík leið til að minnka það rými sem ofbeldi hefur innan lítilla samfélaga, s.s. skóla, vinnustaða eða hópa. Nálgunin gengur út á að auka getu og þor þeirra sem verða vitni að óviðeigandi hegðun, til að bregðast við á öruggan hátt. Erlendis eru í notkun ýmis módel sem byggja á þessari nálgun, m.a. MVP -Mentors in Violence Prevention, Bring in the Bystander o.fl. og hafa þær sýnt góðan árangur. Rannsóknir hafa sýnt að námsaðferðin getur gefið:
• Þekkingu á hvað er óviðeigandi hegðun.
• Aukna samkennd.
• Aukna færni og sjálfstraust til að bregðast við aðstæðum sem upp koma.
• Frekari skilning á hvaða áhrif lítið samfélag eins og skóli, bekkur eða íþróttalið getur haft til að koma í veg fyrir ofbeldi.
Námskeiðið er ætlað öllu fagfólki sem starfar með börnum.
Benedikta Björg (Benna) Valtýsdóttir Sörensen er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla íslands og stundar nú doktorsnám. Sérsvið hennar eru kynjað ofbeldi í unglingamenningu og forvarnir gegn ofbeldi.
Benedikta hefur starfað sem fyrirlesari og þjálfari á sviði ofbeldisforvarna í tæpan áratug, tekið þátt í og skipulagt ráðstefnur um ofbeldishegðun barna og skrifað og þýtt námsefni til ofbeldisforvarna. Auk þess hefur hún starfað innan félagsmiðstöðva- og skólaumhverfis þar sem hún starfaði „á gólfinu“ með þolendum ofbeldis, börnum sem beita ofbeldi og börnum í áhættuhegðun, bæði í almennu starfi og sértækum verkefnum með hópa.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.