

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Fim. 2. okt. - 23. okt. kl. 19:30 - 21:30 (4x)
Soffía Auður Birgisdóttir
Pétur Gunnarsson
Halldór Guðmundsson
Endurmenntun Háskóla Íslands
Fjallað verður um Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson, en 100 ár eru síðan verkið kom fyrst út. Bókin verður sett í samhengi við íslenska bókmenntasögu og önnur verk Þórbergs og einnig verður vikið almennt að lífi hans og skrifum.
Í fyrsta tíma verður farið yfir ævi og verk Þórbergs, sagt frá uppeldi hans í Suðursveit, hungurárunum í Reykjavík á fyrsta áratug 20. aldar og hvernig leið hans til skrifta lá í gegnum margháttaða menntun og þjálfun á vegum Ungmennafélags Reykjavíkur og Háskóla Íslands, þar sem hann var óskráður nemandi í fimm ár. Fjallað verður um fjölbreytileg áhugamál hans og helstu verk.
Í öðrum tíma verður Halldór Guðmundsson gestafyrirlesari og hann mun fjalla um það bókmenntalega umhverfi sem Þórbergur stígur inn í þegar hann byrjar að fást við skriftir og setja verk hans í samhengi íslenskra bókmennta.
Í þriðja tíma verður Pétur Gunnarsson gestafyrirlesari og mun hann m.a. segja frá bókum sínum um Þórberg.
Í fjórða tíma verður farið í saumana á Bréfi til Láru, fjallað um mismunandi þætti þess verks og helstu áhrifavalda á Þórberg – erlenda sem innlenda. Þá verður kannað í hverju byltingarmáttur verksins er helst fólginn í samhengi íslenskra bókmennta.
- Æviferil Þórbergs Þórðarsonar og áhugamál: bókmenntir, kvæði, esperantó, guðspeki, spíritisma, jafnaðarstefnuna o.fl.
- Verk Þórbergs Þórðarsonar: Bréf til Láru, Íslenskan aðal, Ofvitann, Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar, Sálminn um blómið o.fl.
- Íslenska bókmenntasögu.
- Hina fjölbreyttu innviði Bréfs til Láru.
- Að kynnast Þórbergi Þórðarsyni og verkum hans á nýjan hátt.
- Að uppgötva áhrif Þórbergs á íslenskar samtímabókmenntir.
Námskeiðið hentar öllum sem hafa áhuga á bókmenntum og ættu flest að geta notið þess. Engar forkröfur eru gerðar, en ef þátttakendur hafa lesið eitthvað eftir Þórberg Þórðarson skapar það skemmtilegri stemningu og dýpri samræðugrundvöll.
Ekki er nauðsynlegt að þátttakendur hafi með sér tölvu en mælt er með að flestir hafi með sér eintak af Bréfi til Láru. Nýleg afmælisútgáfa með inngangi og skýringum fæst í ódýrri kiljuútgáfu.
Soffía Auður Birgisdóttir er bókmenntafræðingur og skrifaði doktorsritgerð um verk Þórbergs Þórðarsonar. Hún hefur margháttaða reynslu af kennslu við Háskóla Íslands og hefur einnig haldið fjölda námskeiða fyrir almenning um bókmenntir, í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði. Hún starfar sem rannsóknarprófessor við Rannsóknasetur H.Í. á Hornafirði.
Halldór Guðmundsson er rithöfundur með langa reynslu af bókaútgáfu og öðru starfi á vettvangi bókmenntanna. Um Þórberg Þórðarson og Gunnar Gunnarsson skrifaði hann bókina Skáldalíf: Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri (2006).
Pétur Gunnarsson hefur fengist jöfnum höndum við skáldskap, fræði og þýðingar. Í sínum síðari verkum hefur honum verið ofarlega í huga að sporna gegn þeirri gleymsku sem fylgir holskeflumiðlun samtímans og einn þáttur í þeirri viðleitni voru einmitt bindin tvö um Þórberg Þórðarson, ÞÞ - í fátæktarlandi (2007) og ÞÞ - í forheimskunarlandi (2009)
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.