

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Mán. 28. apríl og mið. 30. apríl kl. 16:30 - 18:30
Óskar Örn Arnórsson
Endurmenntun Háskóla Íslands
Í þessu stutta námskeiði verður sögð saga arkitektúrs á Íslandi frá upplýsingu til nútíma í tveimur tveggja klukkustunda fyrirlestrum. Sá fyrri nær yfir tímabilið frá 1752-1919, sem markast af byggingu Viðeyjarstofu fram að útskrift Guðjóns Samúelssonar úr konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Sá seinni nær yfir tímabilið frá 1919-2025, steinsteypuklassík og fúnksjónalisma (1919-1944), síðmódernisma (1944-1968), póstmódernisma (1968-2008) og það sem mætti kalla arkitektúr síðkapitalisma.
Fjallað verður um hvernig arkitektúr hefur mótað samfélagið og einstaklinga innan þess. Í hvorum fyrirlestrinum fyrir sig verður einblínt á um það bil sex byggingar sem eiga það sameiginlegt að fanga tíðarandann hverju sinni og þær tengdar við alþjóðlega samtímastrauma í arkitektúr.
Hugmyndin er því ekki einungis að spyrja hvernig arkitektúrinn lítur út, heldur hverju er verið að reyna að ná fram með að láta hann líta svona út—þ.e. hvað arkitektúrinn gerir. Til hvers að kalla fram hughrif eins og gagnsæi, hlýleika, þyngd, léttleika, heiðarleika, einfaldleika, fjölbreytileika?
Námskeiðinu er ekki ætlað að veita fyrirmyndir að því hvernig arkitektar eiga að byggja, hvað eigi að varðveita, halda upp á, o.s.frv., heldur þvert á móti, að koma með vægðarlausa gagnrýni á allt sem er arkitektum kærast, hvort það er ástælir arkitektar og byggingar þeirra, arkitektafagið í heild sinni, og Ísland sjálft, sem sjá má sem heilsteyptasta manngerða umhverfi jarðkringlunnar. Arkitektar eru samsekir í að hafa hannað það sem nú til dags er kallað mannöld, og nú er komið að því að hanna sig út úr henni!
Námskeiðið er fyrir íslenska arkitekta sem vilja kynna sér nýja strauma og stefnur í arkitektúrsagnfræði og aðra einstaklinga sem koma að gerð hins manngerða umhverfis, s.s. byggingartæknifræðinga, verkfræðinga, innanhúshönnuði og landslagsarkitekta. Einnig er hugsanlegt að almennir sagnfræðingar, listfræðingar og listamenn muni hafa ánægju af námskeiðinu, sem og áhugamenn um arkitektúr, sem sífellt fer fjölgandi.
Þátttakendur fá í hendur lesefni sem þeir geta kynnt sér fyrir námskeiðið. Þeir munu einnig fá leslista sem veitir yfirsýn yfir heimildir sem kennari notar við undirbúninginn og geta þátttakendur lesið efnið sér til fróðleiks, annað hvort fyrir eða eftir námskeiðið. Margt af heimildunum er á ensku.
Óskar Örn Arnórsson er arkitekt og nýdoktor í arkitektúr frá Columbiaháskóla í New York vorið 2025. Hann lauk B.Arch. námi frá Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn 2006 og Cooper Union 2008, starfaði sem arkitekt í New York fyrir Situ Studio 2007-2009, Diller Scofidio + Renfro frá 2009-2012 og fyrir PK Arkitekta í Reykjavík árið 2013. Hann lauk MSc námi í Critical, Curatorial and Conceptual Practices in Architecture (MsCCCP) árið 2015, þar sem hann vann lokaverkefni sitt um höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Doktorsritgerð Óskars í sögu arkitektúrs við sama háskóla fjallar um Marshallaðstoðina í Grikklandi, Þýskalandi og Frakklandi. Árin 2022-2024 gegndi hann stöðu lektors í arkitektúrfræðum við Listaháskóla Íslands.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.