

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Fös. 17. október kl. 8:30 - 15:00
Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir
Endurmenntun Háskóla Íslands
Réttinda fatlaðra barna er fyrst getið í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (1989) en vendipunkturinn varð 2007 þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) var undirritaður. Kjarni SRFF er félagsleg mannréttindasýn á fötlun sem breytir grundvallar viðhorfum til fötlunar og þar með hlutverki margra fagstétta. Til stendur að lögfesta samninginn á þessu ári hér á landi og hafa nýlegar lagasetningar þegar tekið mið af ákvæðum hans svo sem lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna – farsældarlögin. Til að markmið laganna náist er mikilvægt að þjónustuveitendur hafi sameiginlegan skilning á grundvallar hugtökum þeirra, breyttri sýn á fötlun og hvað hún þýðir í faglegu starfi.
Á námskeiðinu er sjónum sérstaklega beint að þjónustu við ung fötluð börn og fjölskyldur þeirra innan og utan leikskólans. Jafnframt er horft til þeirrar innbyggðu tregðu og kerfislægu hindrana sem m.a. valda löngum biðlistum í kerfinu og standa í vegi fyrir tilætlaðri þjónustuþróun. Kynntar verða viðurkenndar starfsþróunarhugmyndir sem samræmast anda laganna og fela í sér aukna þverfaglega samvinnu, gagnkvæma fræðslu og samþættingu þjónustu.
Námskeiðið er þverfaglegt og er ætlað foreldrum og þjónustuveitendum, þ.e. fagfólki og öðrum sem starfa með ungum (fötluðum) börnum og fjölskyldum þeirra innan mennta- og velferðarkerfisins. Þá er það einnig gagnlegt starfsfólki stjórnsýslunnar sem kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku á þessu sviði.
Námskeiðið er í formi vinnustofu með stuttum fyrirlestrum og hópavinnu. Gott er að hafa með sér tölvu sé þess kostur.
Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir lauk doktorsprófi í fötlunarfræði árið 2023 og starfaði síðast sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar beinast aðallega að þjónustu við fjölskyldur ungra fatlaðra barna og þjónustuþróun á því sviði. Þá hefur hún stundað rannsóknir á störfum og starfsvettvangi þroskaþjálfa. Jóna lauk prófi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1980, diplómu í sérkennslufræðum 1993 og meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands 1998. Fyrir utan háskólakennslu starfaði Jóna lengi sem þroskaþjálfi, sérkennari og ráðgjafi á öllum skólastigum. Þá gengdi hún klínísku starfi með ungum fötluðum börnum og fjölskyldum ásamt námskeiðahaldi hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð um árabil.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.