

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Þri. 6. og fim. 8. maí kl. 12:30 - 16:00 (2x)
Þorsteinn Siglaugsson
Endurmenntun Háskóla Íslands
Ertu leið/ur á að grípa til skammvinnra aðgerða sem aðeins létta á einkennum um stund en leysa ekki rætur viðvarandi vandamála? Með röklegri rótargreiningu (Current Reality Tree) og markvissri beitingu gervigreindar getur þú fundið og upprætt rótarorsakir og náð þannig fram varanlegum umbótum í rekstri.
Á þessari vinnustofu færðu þjálfun í að beita skipulegri röklegri greiningu til að afhjúpa duldar rótarorsakir að baki vandamálum. Þátttakendur vinna saman í 2-3 manna hópum með aðstoð leiðbeinanda. Hægt er að koma með eigin viðfangsefni á vinnustofuna eða þá að vinna með fyrirfram uppsett viðfangsefni. Nýjustu rannsóknir sýna að mállíkön á borð við ChatGPT geta reynst ómetanleg til að aðstoða við röklega greiningu og á vinnustofunni beitum við þeim markvisst til að dýpka innsýn og flýta fyrir greiningunni.
Rökleg rótargreining er þungamiðjan í röklegu umbótaferli (Logical Thinking Process) sem grundvallast á kenningum dr. Eliyahu M. Goldratt sem hafa haft djúpstæð áhrif á stefnumótun og stjórnun. Tilgangur greiningarinnar er að finna og uppræta raunverulegar undirliggjandi orsakir vandamála, en þessar orsakir liggja yfirleitt á endanum í úreltum viðhorfum, venjum eða hugmyndum. Greiningin krefst mikillar nákvæmni og getur verið tímafrek, en með notkun mállíkana á borð við ChatGPT má vinna hana langtum hraðar og betur en áður var mögulegt.
Námskeiðið er sniðið að þeim sem vilja stíga skrefinu lengra í greiningu á flóknum viðfangsefnum eða áskorunum í starfi. Með þjálfun í röklegri rótargreiningu eykur þú færni þína í að nýta þrautreynda aðferðafræði með stuðningi gervigreindar til að finna raunverulegar rætur vandamála og leggja þannig grunn að lausnum sem skila árangri til lengri tíma.
Námskeiðið hentar vel þeim sem hafa lokið námskeiði Þorsteins; Hámörkum árangur með gervigreind - greining og ákvarðanir. ATH: það er ekki forkrafa, en þeir sem hafa ekki lokið fyrrnefndu námskeiði er bent á að lesa bók Þorsteins, "Frá óvissu til árangurs: Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir" sem fæst í helstu bókaverslunum og rafræna útgáfu má nálgast á Amazon.
Þátttakendur hafa mestan ávinning af vinnustofunni með því að koma með eigið úrlausnarefni og leysa úr því á vinnustofunni. Best er að 2-3 þátttakendur mæti frá hverju fyrirtæki eða stofnun og vinni saman að úrlausnarefninu með aðstoð leiðbeinanda. Mælst er til þess að áður en vinnustofan hefst sendi þátttakendur leiðbeinanda tillögur um möguleg viðfangsefni svo hægt sé að tryggja, í samvinnu við leiðbeinanda, að umfang úrlausnarefnisins henti miðað við lengd námskeiðsins.
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Þorsteinn Siglaugsson, ráðgjafi og sérfræðingur á greiningarsviði Hagstofu Íslands. Þorsteinn hefur BA próf í heimspeki frá HÍ, MBA próf frá INSEAD, er vottaður sérfræðingur í röklegu umbótaferli og beitingu gervigreindar við ákvarðanatöku og hefur undanfarin ár þjálfað nemendur víðsvegar um heim á þessu sviði.
Hann er helsti samstarfsmaður H. William Dettmer, höfundar "The Logical Thinking Process - A Systems Approach to Complex Problem Solving". Grunnnámskeið Þorsteins í beitingu gervigreindar við ákvarðanatöku hjá EHÍ hefur notið mikilla vinsælda og fengið frábæra dóma. Þorsteinn er höfundur tveggja rita um efnið, "From Symptoms to Causes - Applying the Logical Thinking Process to an Everyday Problem" (2020) og "Frá óvissu til árangurs - Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir (2024).
Hann rekur einnig sprotafyrirtækið Anteos ehf. sem sérhæfir sig í þróun lausna til að auðvelda röklega greiningu með notkun gervigreindar.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.