

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Mið. 29. október kl. 13:00 - 16:00
Hannes Björnsson
Endurmenntun Háskóla Íslands
Saga dáleiðslu er rakin og hvernig dáleiðslan hefur tengst sumum heilbrigðisvísindum frá upphafi. Skoðað er hvað dáleiðsla er og hvað dáleiðsla er ekki. Greint er frá helstu dáleiðslufélögum hérlendis og erlendis og þeim aðilum sem kynna og kenna dáleiðslu. Mjög áhugaverðar niðurstöður úr nýlegum rannsóknum um áhrif dáleiðslu eru kynntar.
Dáleiðsla er mjög hlaðið og órætt hugtak sem fólk skilur á ýmsa vegu. Sumir telja dáleiðslu vera varhugaverða aðferð til að ná valdi yfir fólki, en aðrir telja dáleiðslu vera gagnlega leið fyrir fólk til að vinna úr djúpstæðum vanda. Í sumum löndum er dáleiðsla bönnuð eða aðeins leyfð fyrir mjög takmarkaðan hóp heilbrigðisstarfsmanna.
Rannsóknir sýna góðan árangur dáleiðslu á sumum sviðum og virtar erlendar stofnanir á heilbrigðissviði benda á þá gagnsemi hennar. Í sumum tilvikum virðist dáleiðsla geta komið í stað lyfja, án þeirra aukaverkana sem oft fylgja lyfjunum. Þrátt fyrir það er dáleiðsla mjög lítið notuð í íslensku heilbrigðiskerfi.
Á þremur tímum er farið hratt yfir sögu dáleiðslu og þá aðila sem hafa komið mest að þróun hennar á tuttugustu öld. Farið er yfir það hvað dáleiðsla er og hvað takmarkar möguleika hennar. Mismunandi aðferðir dáleiðslu eru kynntar og hvernig þær geta unnið með annarri meðferð. Nýlegar rannsóknir á dáleiðslu eru kynntar og að lokum er farið yfir dæmi um innleiðslu og dáleiðslu.
Námskeiðið ætlað öllum aðilum sem eru forvitnir um það hvernig dáleiðsla er notuð eða gæti verið notuð af fagfólki í heilbrigðisvísindum.
Ekki er krafist undirbúnings fyrir námskeiðið en áhugasamir geta skoðað þær upplýsingar sem er að finna á heimasíðu Dáleiðslufélags Íslands – dfi.is.
Hannes Björnsson er formaður Dáleiðslufélags Íslands sem var stofnað árið 2001 af háskólamenntuðu heilbrigðisstarfsfólki til að bæta árangur meðferðar með dáleiðslu. Hann hefur verið mjög virkur í alþjóðastarfi og evrópustarfi dáleiðslufélaga. Hannes er klínískur sálfræðingur sem hefur starfað sem sálfræðingur frá 2009. Hann var áður sóknarprestur á Vestfjörðum 1992 til 2001 og prestur Íslendinga í Noregi frá 2001 til 2004. Hannes var stundakennari við Sálfræðideild Háskóla Íslands um sex ára skeið meðfram og eftir sálfræðinámið.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.