

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Mið. 9. apríl kl. 13:00 - 16:00
Matthías Pálsson
Endurmenntun Háskóla Íslands
Námskeiðið fjallar um samninga, lög sem þeim tengjast og dómar og dæmi skoðuð til skýringar. Farið verður yfir hvað samningur er, hvernig hann stofnast, í hvað samningar eru notaðir í daglegu lífi fólks og mismunandi tegundir samninga athugaðar.
Skoðað verður hvað ber að varast við samningsgerð, hvenær samningur er skuldbinandi og hvernig hægt er að ógilda samning m.a. vegna svika, nauðungar, misneytingar, óheiðarleika eða ósanngirni. Þá verða áhrif nýrrar tækni á þessu sviði athuguð, s.s. rafrænna samninga, rafrænna undirskrifta, snjallsamninga og gervigreindar.
Á námskeiðinu verður farið yfir hvað samningur er, bæði í almennum skilningi og samkvæmt lögfræðilegri skilgreiningu. Fjallað verður um hvernig gildir samningar stofnast, hverjir geti gert samninga, nauðsynleg formskilyrði í því sambandi, þ.m.t. munnlega og skriflega samninga, praktísk atriði við samningsgerð, tilgang samninga og not þeirra í daglega lífinu. Þá verður rætt um umboð sem hægt er að veita öðrum aðilum til þess að gera samninga fyrir sína hönd.
Farið verður yfir nokkrar mismunandi gerðir samninga, neytendasamninga, vinnusamninga og hvaða reglur gilda um samninga á sviði fjölskyldu-, erfða og hjúskaparréttar, o.fl.
Rætt verður um hvaða samningar eru gildir og hvenær samningar eru ógildir eða ógildanlegir. Ógildingarreglur samningalaganna verða skoðaðar og farið yfir hvaða aðstæður og atvik geta leitt til ógildingar samnings, m.a. nauðung við samningsgerð (minni háttar nauðung og meiri háttar nauðung), sviksamlega háttsemi, misneytingu (notfæra sér bágindi eða einfeldni annars manns), mistök í samningum, óheiðarleika og samninga sem gerðir eru til málamynda og ógildingu samninga vegna þess að þeir teljast ósanngjarnir. Þá verður skoðað hvaða gildi samningar sem brjóta gegn lögum og siðferði kunna að hafa.
Loks verður fjallað um samningatækni og hvaða áhrif ný tækni hefur á samninga og samningarétt, m.a. rafræna samninga og rafrænar undirskriftir, snjallsamninga og áhrif gervigreindar á samninga.
Í gegnum allt námskeiðið verða tekin raunhæf dæmi af því viðfangsefni sem fjallað er um hverju sinni og skoðaðir dómar í málum á sviði samninga.
Kennsla verður í formi fyrirlestra og glærur notaðar til stuðnings. Lögð verður áhersla á að kennslan og upplýsingar námskeiðsins gagnist þátttakendum við gerð og not samninga í sínu daglega lífi.
Námskeiðið er fyrir alla þá sem vilja fræðast um samninga, stofnun þeirra, skuldbindingargildi, lög sem um þá gilda og dóma sem fallið hafa á þessu sviði. Efni námskeiðsins er sniðið að almenningi, engar forkröfur eru gerðar og engrar þekkingar á samningum er krafist.
Dr. Matthías G. Pálsson er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, með framhaldsnám í Evrópurétti og doktor í alþjóðlegum samningarétti auk viðbótarnáms í þjóðarétti. Hann hefur kennt almennan samningarétt og námskeið um evrópskan samningarétt við íslenska háskóla. Matthías hefur að aðalstarfi verið lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu í yfir tvo áratugi.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.