

Valmynd
Magnús Lyngdal Magnússon
Á námskeiðinu verður fjallað um sögu vestrænnar tónlistar frá miðöldum til dagsins í dag með fróðlegum en aðgengilegum hætti. Sagt verður frá öllum stefnum og helstu tónskáldum, þar á meðal þekktum höfundum á borð við Bach, Haydn, Mozart, Beethoven og Brahms auk annarra tónskálda sem mörg hver eru minna þekkt. Þá verður leikinn fjöldi tóndæma á meðan á námskeiðinu stendur og fjallað með skemmtilegum hætti um túlkun klassískrar tónlistar í nútíð og fortíð.
Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér klassíska tónlist. Ekki er gerð krafa um þekkingu á viðfangsefninu.
Námskeiði er fyrst og fremst hugsað sem skemmtileg og aðgengileg yfirferð yfir sögu vestrænnar tónlistar með tóndæmum. Fyrir ykkur sem viljið dýpka þekkinguna er bent á aðgengilega bók kennarans:
- Magnús Lyngdal Magnússon: Klassísk tónlist – Á ferðalagi um tónlistarsöguna. Reykjavík 2024.
Bókin verður í boði á sérstöku kynningarverði á námskeiðinu en fæst líka í öllum helstu bókaverslunum.
Magnús Lyngdal Magnússon lauk prófi í sagnfræði og íslensku frá Háskóla Íslands og prófi í trompetleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Hann er tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins og fjallar reglulega um klassíska tónlist í Ríkisútvarpinu. Magnús hefur haft áhuga á klassískri tónlist frá blautu barnsbeini. Hann hefur viðað að sér umfangsmikilli þekkingu á greininni og fjallað um klassík í ræðu og riti um áratuga skeið. Magnús hefur ástríðu fyrir því að leiða fólk inn í leyndardóma klassíkurinnar og opna heim sígildrar tónlistar fyrir almenningi.