

Valmynd
Gunnþórunn Guðmundsdóttir
Hversu langt er manneskjan reiðubúin að ganga til að fá óskir sínar uppfylltar?
Á námskeiðinu verður fjallað um uppsetningu Þjóðleikhússins á Yerma sem er leiftrandi, áleitið og átakanlegt nútímaverk eftir Simon Stone. Verkið byggir á samnefndu meistaraverki spænska skáldsins Federico García Lorca.
Gísli Örn Garðarsson leiðir saman einstaklega sterkan hóp leikara í þessu kraftmikla verki.
Með hlutverk í sýningunni fara m.a. Björn Thors, Guðjón Davíð Karlsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir.
Námskeiðið skiptist í fyrirlestur, heimsókn á æfingu og einnig fara þátttakendur á forsýningu. Fyrirlesari er Gunnþórunn Guðmundsdóttir og í erindi sínu fjallar hún um verkið, höfundinn og útfærsluna. Fyrirmyndin verður skoðuð gaumgæfilega og spurningum velt upp um hvernig verkið tekst á við heim kvenna, við ófrjósemi, hefðarvald o.fl. Þá verður litið til þess hvernig þessi fyrirbæri eru færð til samtímans í leikriti Stones og uppbygging verkanna könnuð. Lykilspurningar eru: Hvernig er ófrjósemi sett á svið? Hvernig nýtir Stone sér verk Lorca? Úr hvers konar jarðvegi eru verkin sprottin?
Sagan fjallar um konu í blóma lífsins, sjálfsörugga og opinskáa, eldklára, ákveðna og óheflaða. Henni gengur vel í starfi sínu og er að flytja inn í nýtt hús með manninum sem hún elskar. Það er bara eitt sem vantar – barn. Kærastinn er til í það og því er ekki eftir neinu að bíða! En það sem virðist svo eðlilegur hluti af lífinu reynist ekki sjálfsagt. Eftir því sem biðin lengist virðist einhver ofursterkur kraftur nái sífellt öflugri tökum á henni. Löngun verður að þrá, þráin að þráhyggju og smám saman missir hún tökin. Hvernig bregst kona við ef lífið verður ekki við hennar heitustu bón?
Dagskrá námskeiðs:
Þriðjudaginn 19. nóvember kl. 17:15 - 19:15. Fyrirlestur og umræður í húsnæði Endurmenntunar, Dunhaga 7.
Þriðjudaginn 3. desember kl. 14:00 - 16:00. Heimsókn á æfingu í Þjóðleikhúsinu.
Forsýning í Þjóðleikhúsinu - ATH. val um tvær dagsetningar:
Námskeiðið hentar öllum sem hafa áhuga á leikhúsi, Lorca og spænskum bókmenntum.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún rannsakar einkum æviskrif og minnistexta og eftir hana liggja fjöldi greina og bóka um efnið. Hún hefur einnig rannsakað spænskar bókmenntir og kennt námskeið um þær við HÍ.